Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:40:54 (4212)

2003-02-27 16:40:54# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:40]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um helstu verkefni sem nú eru á döfinni í norðurskautssamstarfinu, bæði innan Norðurskautsráðsins og þingmannanefndar um norðurskautsmál.

Eins og utanrrh. greindi frá í skýrslu sinni hefur Ísland nýlega tekið við formennsku í Norðurskautsráðinu og hefur kynnt helstu stefnumál sín og áherslur innan ráðsins næstu tvö árin. Þar er fyrst að telja skýrslu um sjálfbæra samfélagsþróun á norðurslóðum en frumkvæðið að gerð hennar kom frá þingmannanefndinni og síðan tók Norðurskautsráðið að sér gerð hennar. Hingað til hafa ekki verið gerðar rannsóknir sem beinast eingöngu að íbúum norðurskautssvæða en félagsleg, efnahagsleg og menningarleg velferð íbúa norðursins og tengsl þeirra við sjálfbæra þróun og auðlindanýtingu verður megininntak skýrslunnar.

Annað mál sem er í brennidepli er upplýsingatæknin. Það er ljóst að aukin tölvunotkun, svo sem við fjarkennslu og fjarlækningar, getur orðið íbúum norðursins mjög til framdráttar þegar fram í sækir, ekki síst þegar litið er til þess hversu strjálbýl þessi svæði eru og samgöngur erfiðar. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum sinnt þessum málaflokki vel, samið greinargerðir og komið á fót vinnuhópum. Stór alþjóðleg ráðstefna um upplýsingatækni verður haldin hér á Íslandi núna í október á vegum Norðurskautsráðsins.

Þriðja málið sem ég vil nefna og sérstök áhersla hefur verið lögð á er samvinna vísindamanna og efling rannsókna á norðurskautsslóðum en nú þegar er unnið gríðarmikið vísindastarf undir hatti Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin hefur í þessu sambandi vakið sérstaka athygli á nýjustu skýrslum fremstu vísindamanna um loftslagsbreytingar á norðurskautssvæðum. Hitabreytingar hafa augljóslega mikil áhrif, bæði á mannlíf á norðurskautsslóðum, umhverfi og auðlindir, svo sem fiskstofna. Vísindamenn halda því fram að allar þær breytingar sem eru að verða í norðri séu vísbending um það sem koma skal síðar annars staðar í heiminum. Þær breytingar sem eru sjáanlegar á norðurskautssvæðum í dag komi fram eftir 15--20 ár á öðrum stöðum jarðar. Það er því afar mikilvægt að fylgjast vel með þróun þessara mála og fylgja eftir stefnumótandi ákvörðunum.

Frá og með áramótum tók alþjóðasvið Alþingis við öllum skrifstofurekstri og framkvæmdastjórastöðu þingmannanefndarinnar, sem Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþjóðaritari sinnir, en Finnland hafði haft yfirumsjón með skrifstofunni í meira en fimm ár.

Herra forseti. Það er sérstakt ánægjuefni að sjá hversu mjög samvinna norðurskautsríkja hefur styrkst á síðustu árum. Það er ekki síst ánægjuefni að fylgjast með því hvernig vinna þingmannanefndar um norðurskautsmál hefur fætt af sér ný samstarfsverkefni er varða hag Íslands og norðurskautsríkjanna allra. Það er mikilvægt að Alþingi fylgist grannt með samstarfinu og stofnunum á þessu sviði og taki virkan þátt í starfinu þar sem það á við, ekki síst þar sem Ísland gegnir nú svo mikilvægu forustuhlutverki á þessu sviði.