Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:44:23 (4213)

2003-02-27 16:44:23# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:44]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp í kjölfar hv. þingkonu Sigríðar Önnu Þórðardóttur sem minntist á starfsemi Norðurskautsráðsins. Mig langaði bara til þess að fylgja því eftir, fagna því að sjálfsögðu að skrifstofa þingmannanefndarinnar skuli nú vera í höndum okkar Íslendinga. Og ég treysti því að við leggjum fullan metnað í það starf. Því fylgja auðvitað ákveðin útgjöld en ég held að það hljóti að vera fullur vilji fyrir því að standa þannig að því starfi að sómi sé að, fyrir okkur og fyrir Norðurskautsráðið.

Einnig vildi ég nota tækifærið til þess að nefna það sem ég minntist á í blálokin á ræðu minni áðan, að tengja saman það merka starf og mikilvæga sem Norðurskautsráðið er að vinna við það annað sem við Íslendingar erum að fást við á alþjóðlegum vettvangi. Vil ég þá nefna samþykktir sem gerðar voru á þróunarráðstefnunni í Jóhannesarborg og síðan auðvitað þúsaldarsamþykktir Sameinuðu þjóðanna. Þær fara að stórum hluta alveg saman við þau forgangsverkefni sem ákveðið hefur verið að ráðast í á vettvangi norðurskautssamvinnunnar, og þó sérstaklega rannsóknir á loftslagsbreytingum á norðurskautssvæðinu sem eru mjög merkilegar og mjög brýnar. Þær vöktu m.a. athygli á Jóhannesarborgarráðstefnunni þar sem sérstaklega var greint frá því á fundi sem Norðurskautsráðið stóð fyrir, og einnig það að eitt af forgangsverkefnum Norðurskautsráðsins er einmitt að fylgja eftir Jóhannesarborgarsamþykktunum.

Mig langaði bara til þess að benda á að þessi verkefni hanga auðvitað saman og það þarf að vinna þau þannig að hver viti af öðrum.