Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:46:31 (4214)

2003-02-27 16:46:31# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KolH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:46]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í mínum huga er heimsfriður forgangsmál. Á þessum tímum þegar alþjóðamálin og utanríkismálin eru rædd kemur það auðvitað fyrst upp í huga okkar allra að veröldin býr við mjög ótryggt ástand nú um stundir.

Satt að segja græt ég hvern einasta dag sem guð gefur að mannkyninu skuli ekki miða lengra í átt til friðar en raun ber vitni og ég veit alveg að ég er ekki ein um það. Hugur minn reikar fyrst og fremst, herra forseti, til allra barnanna í veröldinni sem búa við þá beinu ógn sem stríðið sem nú er í undirbúningi vekur í brjósti þeirra. Það er vægast sagt ömurlegt, herra forseti, að lesa þær greinar sem þingmönnum berast, sjá þær fréttamyndir sem veröldin sendir út á sjónvarpsnetin sín, myndir af börnum sem hafa ekkert annað en óttann í sálinni og óttann í augunum, óttann við það sem yfirvofandi er.

Ég ætla mér ekki þá dul, herra forseti, að ég hafi uppi í erminni ráð sem duga. En ég veit og ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er ekki ein um þá skoðun, ég veit að vopnavald leysir aldrei nein vandamál. Við getum alveg verið viss um að vopnavald skapar fjöldamörg ný vandamál, oft og tíðum erfiðari en þau sem þeim var ætlað að leysa.

Nú er vitað mál og hefur komið fram hér í umræðunni í dag að yfirvofandi stríðsátök eru umdeild. Stríðsundirbúningur Bandaríkjastjórnar með Bush forseta í fararbroddi sem studdur er af Blair og hans ríkisstjórn, þó svo að stundum sé maður að vona að sá stuðningur sé eitthvað að dvína vegna gífurlegra mótmæla í Bretlandi --- árásarstríð sem þessir menn hyggjast fara í gegn Írak er gífurlega umdeilt.

Skrifaðar hafa verið um það lærðar greinar og heilu bækurnar hvernig stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna átti í raun í upphafi að koma í veg fyrir árásarstríð af því tagi sem hér virðist í uppsiglingu. Staðreyndin er sú að árásarstríð með valdbeitingu gegn fullveldi, lögsögu eða sjálfstæði annars ríkis, utan sjálfsvarnar, árás til að fyrirbyggja hugsanlega árás mótaðila er ekki lögmæt sjálfsvörn. Sannleikurinn er sá að þessi flóknu mál sem nú hafa verið fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru svo flókin vegna þess að menn greinir á um þessi grundvallaratriði stofnsáttmálans, þ.e. hvenær menn eru að ráðast gegn sjálfstæðri fullvalda þjóð og hvenær fullreynt er eða ekki fullreynt hvort heimsfriðnum stafi ógn af viðkomandi þjóð.

Stjórnarherrar veraldarinnar telja að réttlæta megi stríð á einhvern hátt með því að fá blessun öryggisráðsins, með því að fá samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir því. En ég er satt að segja, herra forseti, afar hugsi yfir þessari afstöðu stjórnarherranna og ég spyr: Hvernig í ósköpunum geta menn sem í orði kveðnu segjast mótfallnir fjölþjóðlegu árásarstríði gegn nokkurri sjálfstæðri þjóð, stjórnarherrar sem segja í orði kveðnu að þeir séu á móti drápum á óbreyttum borgurum, konum og börnum, hvernig geta þeir þá haldið að hægt sé að kaupa sér friðþægingu í gegnum öryggisráð Sameinuðu þjóðanna?

Ég velti þessu mjög mikið fyrir mér, herra forseti, og spyr: Ef það er hægt að láta blessun öryggisráðsins réttlæta árásarstríð, í þessu tilfelli á Írak, hvers vegna eru menn þá ekki ákafari í því að fylgja eftir ályktunum þessa sama öryggisráðs er varða málefni Palestínu? Veltur vægi ákvarðana öryggisráðsins einatt á afstöðu Bandaríkjamanna, sem beita neitunarvaldi til að hindra ályktanir sem þeim eru ekki að skapi og í öðrum tilfellum jafnvel þvingunum eða þrýstingi á þær ályktanir sem þeir vilja láta ná fram að ganga? Ég spyr hvort áhrif Bandaríkjastjórnar í öryggisráðinu séu með þeim hætti að þau haldi ráðinu hálflömuðu. Hvers vegna gat öryggisráðið ekki stöðvað Víetnam-stríðið á sínum tíma eða komið í veg fyrir innrásina í Tékkóslóvakíu eða Ungverjaland eða aðrar ámóta aðgerðir?

Það sem ég er að reyna að segja, herra forseti, er að ég efast um að hægt sé að kaupa sér réttlætingu eða friðþægingu í gegnum öryggisráðið. Átökin sem yfirvofandi eru koma alltaf til með að bitna á saklausum borgurum. Það er skelfilegt að heyra fréttir og lesa greinar um ástandið í Írak í dag og í löndunum í kring sem urðu fyrir barðinu á átökunum í Flóabardaga. Þar hefur tíðni krabbameins aukist gífurlega. Ég held að til þingmanna hafi í gær eða dag komið grein af netinu sem segir frá ástandinu í þeim efnum þar sem læknar berjast vonlausri baráttu við gífurlega aukningu krabbameins í börnum. Hvað veldur þessu krabbameini? Það stafar af auðguðu úrani sem notað er í sprengjuodda, sprengjuodda þeirra vopna sem framleidd eru í Bandaríkjunum og sem fyrirsjáanlega yrðu notuð í því stríði sem nú er undirbúið. Ég spyr, herra forseti: Eru þjóðir heims og þar með stjórnarherrar okkar á Íslandi í alvöru að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ástand af þessu tagi þurfi ekki verða staðreynd? Erum við svo máttlaus hér í fjarlægðinni að okkur takist ekki að koma í veg fyrir þau gífurlegu spjöll og áföll sem stríð af þessu tagi leiða yfir eina þjóð?

Hvernig stendur á því að leiðtogar heims geta ekki haft meiri áhrif til friðar en manni virðist? Hvernig stendur á því að stjórnarherrunum tekst ekki að stöðva yfirvofandi hungursneyð palestínsku þjóðarinnar á Gaza og á Vesturbakkanum vegna aðgerða Ísraelshers? Hvers vegna er ekki hægt að stöðva hryðjuverk Ísraelshers gegn palestínsku þjóðinni? Hvers vegna eru ráðamenn þjóðanna jafnmáttlausir og raun ber vitni í þeim átökum? Forustumenn Palestínumanna hafa beðið þjóðir heims um vernd árum saman. En hvað gerist? Ógnirnar verða æ stærri og ástandið æ verra.

Auðvitað veldur þetta fólki áhyggjum úti um allan heim. Það er erfitt að þurfa að standa hér í skjóli fyrir þessum átökum öllum saman og því sem yfirvofandi er og hafa á tilfinningunni og vona að héðan sé eitthvað hægt að gera en vita, sem raun er, að það er ósköp fátt og ósköp veikburða.

Í öllu falli, herra forseti, sé ég ekki annað en að forustumönnum okkar sem standa í eldlínunni í alþjóðastjórnmálunum beri skylda til að tala máli íslensku þjóðarinnar í þessum efnum sem samkvæmt skoðanakönnunum hefur talað mjög skýrt. Þjóðin hefur talað mjög skýrt. Hún er mótfallin stríði eins og vestrænar þjóðir almennt. Allt upp í 90% einstaklinga þeirra þjóða sem spurðar hafa verið eru andvígir yfirvofandi átökum. Ríkisstjórnum og forustumönnum ríkisstjórna í hinum vestræna heimi ber skylda til að gera nákvæmlega allt, allt sem í þeirra valdi stendur til að afstýra yfirvofandi átökum.

Þessum sömu stjórnarherrum ber einnig skylda til að gera allt sem hægt er til að afmá óttann úr augum barnanna sem ég hóf mál mitt á. Það er í okkar valdi, herra forseti. Ábyrgðin er okkar og okkar menn verða að koma fram á erlendri grundu þannig að trúverðugt sé. Við megum ekki hafa það á tilfinningunni að ríkisstjórn okkar sé taglhnýtingar Bandaríkjamanna og fari fremst í flokki með þeim þjóðum sem vilja átökin. Við verðum að geta treyst á okkar fólk, á þá menn sem tala máli íslensku þjóðarinnar, að þeir tali máli friðar og þeir tali máli friðar í alvöru.