Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 17:12:37 (4216)

2003-02-27 17:12:37# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[17:12]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú þannig í samskiptum þjóða að oft er gerð krafa um að upplýsingar séu ekki birtar opinberlega fyrr en á ákveðnu stigi. Þannig er það með þennan kröfulista, og við höfnuðum því á sínum tíma eins og hv. þm. gat hér um. Hins vegar er það rétt hjá honum að utanrrn. mun, með þeim hætti sem hann gat hér um, birta mjög bráðlega útdrátt úr þessum kröfum þannig að ég vænti þess að það geti orðið til nokkurs gagns. Það er það sem við teljum okkur geta gert. En við teljum ekki rétt að ganga lengra frekar en aðrar þjóðir.

Að því er varðar kröfur okkar þá er verið að vinna í því máli og við munum hafa um það samráð við utanrmn. áður en það verður sent. Ég vænti þess að það verði í næstu viku, verið er að vinna í þessu af fullum krafti. Eins og allir vita er samningsferlið í þessu máli langt og ekki gert ráð fyrir niðurstöðum fyrr en í fyrsta lagi 2005.

En að lokum að því er varðar sjávarútveginn þá höfum við rætt það áður, ég og hv. þm. Það er enginn tvískinnungur í því að fara þess á leit að ríkisstyrkir í sjávarútvegi verði afnumdir. Þar er um takmarkaða auðlind að ræða eins og við vitum sem eigum miklar auðlindir í hafinu. Þetta mál er mikið áhugamál okkar Íslendinga og kemur landbúnaðarmálum ekkert við, enda hefur þeim ekkert verið blandað saman á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og við ekki lent í neinum slíkum vandamálum.