Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 17:19:12 (4219)

2003-02-27 17:19:12# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[17:19]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. En það hefur ekki verið gert. Það hefur ekki verið orðið við kröfum þeirra. Vandinn er sá að þó að það hafi verið góð sátt innan veggja GATS hefur verið ósátt utan veggjanna. Þarna eru tveir heimar sem hafa ekki talast við, annars vegar mjög þröngt pólitískt vald og embættismannavald og hins vegar almannasamtök sem ekki sætta sig við þessa lokuðu, ólýðræðislegu umræðu. Mjög örlagaríkir hlutir eru að gerast. Í mörgum tilvikum er verið að stilla fátækum ríkjum upp við vegg. Auðhringar og hin ríku lönd eru að knýja þau til að afsala sér mikilvægum auðlindum. Ég vék að því áðan að Evrópusambandið er að reisa kröfur á hendur þróunarríkjum um að markaðsvæða vatnið sem er sennilega dýrmætast af öllu á jörðu hér. Þetta er staðreynd. Menn stilla þessum fátæku ríkjum upp við vegg. Og það gera þeir á bak við þagnarmúr, neita að upplýsa um þessa hluti.

Þetta er umræða sem á að fara fram á þjóðþingum og í fjölmiðlum. Þetta á að fá lýðræðislega, gagnrýna umfjöllun. Ég get ekki tekið undir það að þau vinnubrögð sem tíðkast af hálfu GATS eða öllu heldur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um þessa samninga, GATS-samningana, séu ásættanleg. Aldeilis ekki.