Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 17:21:01 (4220)

2003-02-27 17:21:01# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), LMR
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[17:21]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Í þetta skipti vil ég að ræða um starfsemi Evrópuráðsins á sl. ári þar sem ekki er fyrirhugað að ræða sérstaklega skýrslur alþjóðanefnda að sinni. Það má að miklu leyti eigna Evrópuráðinu þann skjóta og góða árangur sem náðst hefur í að beina þjóðum Mið- og Austur-Evrópu inn á brautir lýðræðis og framþróunar. Ríkin í austanverðri álfunni hafa tekið skuldbindingar sínar á vettvangi Evrópuráðsins afar alvarlega og litið svo á að með aðild að ráðinu hafi þau komist inn fyrir þann eiginlega þröskuld sem vissulega hefur risið þar sem járntjaldið áður blakti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört og urðu þau alls 44 talsins á árinu, auk gesta- og aukaaðildar nokkurra ríkja.

Pólitískt vægi ráðsins hefur aukist mjög undanfarin ár. Evrópuráðsþingið starfar á vettvangi stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, mannréttindamála, umhverfis-, menningar- og menntamála og er eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli.

Ólíkt Evrópuþinginu eru fulltrúar á Evrópuráðsþinginu þjóðkjörnir þingmenn, og hafa störf þingsins því beina skírskotun til starfa þjóðþinganna sjálfra. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem þjóðkjörnir fulltrúar bera saman bækur sínar, skiptast á hugmyndum og sjá afrakstur vinnu sinnar í ákvörðun ráðherranefndarinnar, eru afar mikilvægir. Reynslan hefur sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Og það á ekki síst við um Ísland. Þetta varpar skýru ljósi á mikilvægi, og ekki síður möguleika, Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni, ekki síst í ljósi þess að Evrópuráðið og þingmannasamkunda þess er eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem Ísland nýtur fullrar aðildar.

Íslandsdeild þingsins, sem er hlutfallslega fámenn miðað við hinar stóru landsdeildir, hefur beitt sér af fullum þunga í störfum þingmannasamkundunnar og hafa fulltrúar hennar ítrekað verið valdir til sérlegra trúnaðarstarfa. Er það afar ánægjuleg þróun að Alþingi Íslendinga hafi uppskorið slíkan virðingarsess hjá jafnmikilvægri alþjóðastofnun og Evrópuráðið er.

Um rúmlega tveggja ára skeið hefur formaður Íslandsdeildar gegnt formennsku í félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefnd þingsins og verið í sérlegum vinnuhópi Evrópuráðsþingsins og rússnesku Dúmunnar í málefnum Tsjetsjeníu. Þá eiga fulltrúar Íslandsdeildar sæti í eftirlitsnefnd þingsins og jafnréttisnefnd og hafa látið mikið að sér kveða á þeim vettvangi.

Átökin í Tsjetsjeníu bar hátt á dagskrá Evrópuráðsþingsins árið 2002 líkt og undangengin ár. Evrópuráðsþingið er nær eina alþjóðastofnunin sem hafði aðgang að Tsjetsjeníu á árinu og voru kraftar Evrópuráðsins því nýttir til hins ýtrasta til að ná fram friðsamlegri lausn á deilum og átökum Tsjetsjena og Rússlandsstjórnar. Ég vil geta þess hér t.d. að ÖSE hefur orðið að flytja sig út úr Tsjetsjeníu, var þar um tíma en varð af öryggisástæðum að flytja sig út. Sex manna starfshópur Evrópuráðsþingsins og rússnesku Dúmunnar fór undir formennsku Judds lávarðar og Dimítrís Rogosíns, formanns rússnesku sendinefndarinnar, til Tsjetsjeníu í þrígang og starfaði hópurinn ötullega að lausn mála í þeim tilgangi að ná sáttum á friðsamlegan hátt. Sú sem hér stendur talaði töluvert fyrir Tsjetsjeníu á þingum ráðsins og mun það koma fram hér seinna.

Þingið beitti sér einnig fyrir lausn mála í deilum Evrópusambandsins og Rússlandsstjórnar vegna málefna Kalíníngrad-héraðs. Þess má geta að undirrituð var sérstaklega útnefnd af stjórnmálanefnd þingsins til að fjalla um það mál. Af lýðræðis- og réttarfarsmálum má nefna að staðan í Moldavíu, Georgíu, Aserbaídsjan og Armeníu var ofarlega á baugi í þinginu og samkundan hvatti ráðherraráð Evrópuráðsins til að nýta allar færar leiðir til að leysa úr vanda þessara ríkja.

Fyrri hluta árs bar mikið á umfjöllun um stöðu átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs á Evrópuráðsþinginu sem og á öðrum þingmannasamkundum. Evrópuráðið hlýddi á ávörp Palestínumanna og Ísraela og ályktaði um ástandið. Þegar leið á árið beindust sjónir að ástandi mála í Írak og afleiðingar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin í september árið áður og framlag Evrópuráðsins til hinnar alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi.

Íslandsdeildin var skipuð Láru Margréti Ragnarsdóttur, Ólafi Erni Haraldssyni og Margréti Frímannsdóttur sem voru aðalmenn. Varamenn voru Kjartan Ólafsson, Kristinn H. Gunnarsson og Kristján L. Möller. Ritari Íslandsdeildarinnar var Andri Lúthersson.

Ég vil nú gjarnan víkja aðeins að helstu málefnum á vettvangi þingsins. Janúarþingið var haldið í Strassborg 2002. Á fundinum beindist athyglin í miklum mæli að málefnum Miðausturlanda, en Evrópuráðsþingið bauð tveimur framámönnum úr röðum Palestínumanna og Ísraela, þeim Shimon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, og Saeb Erekat, ráðherra í heimastjórn Palestínu, til að ávarpa þingfundinn. Ég held að það sé athyglisvert fyrir þá sem hafa talað hér fyrir þessum málum í dag. Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs bar hátt í heimsfréttum í byrjun janúarmánaðar og degi áður en gestirnir fluttu erindi sín höfðu herskáir Palestínumenn staðið fyrir mannskæðum sjálfsvígsárásum og hafði ísraelski herinn svarað fyrir sig með árásum á eignir heimastjórnar Palestínumanna. Athygli vakti hve mikill samhljómur var í málflutningi þeirra Peresar og Erekats á þingfundinum en báðir lögðu þeir ofuráherslu á að stríðandi aðilar yrðu að setjast aftur að samningaborði. Sögðu þeir báðir að atburðir undangenginna missira hefðu grafið undan trausti milli ráðamanna í Palestínu og Ísrael og að ekki mætti draga lengur að efla það traust. Í málflutningi beggja komu fram sterk hvatningarorð í garð Evrópubúa, Rússa og Bandaríkjamanna um að sameinast í afstöðu sinni til átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs þar eð slíkt væri eina leiðin til varanlegs friðar.

Auk þess vil ég geta þess að á þinginu var mikið rætt um mansal, en á undanförnum árum hefur skipuleg glæpastarfsemi aukist gífurlega í álfunni og er nú svo komið að fjárhagslegt umfang mansals er litlu minna en samanlagt eiturlyfjasmygl og vopnasmygl í Evrópu. Einnig var, eins og ég áður nefndi, rætt um hryðjuverkaárásina á Bandaríkin, afleiðingar hennar og lýst yfir áhyggjum vegna ógnana við mannréttindi í kjölfarið.

Sú sem hér stendur tók þátt í umræðum um stöðu mála í Tsjetsjeníu og hvatti í ræðu sinni Vesturlönd til að gera sitt ýtrasta til að leysa strax úr neyð þeirra þúsunda íbúa héraðsins sem enn búa við mikið harðræði og sagði að fulltrúar þeirra hópa í Tsjetsjeníu sem enn hefðu ekki nýtt tækifærið til að ávarpa þær fjölmörgu ráðstefnur sem þeir hefðu haft tækifæri til hefðu misst af því að koma skoðunum sínum á framfæri og væri það miður. Augljóst væri að hluti af afleiðingum hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 11. september væru þær að kastljós fjölmiðla hefðu færst frá átökunum í Tsjetsjeníu og væri það miður.

Ég vil geta þess hér að þegar árásin var gerð á leikhúsið í Moskvu sl. haust var þessi starfshópur eini hópurinn sem skæruliðar höfðu áhuga á og báru traust til að ræða við.

Skýrsla félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar um eiturlyfjavandann vakti mjög mikla athygli. Þar voru boðaðar nýjar leiðir til að takast á við þennan afar útbreidda vanda. Með öllum þeim breytingartillögum sem höfðu komið fram og voru samþykktar í umræðunni var ákveðið að falla frá skýrslunni af hálfu nefndarinnar.

Í apríl var einnig rætt um Ísrael og Palestínu og þau vöruð eindregið við afleiðingum óbreyttrar stefnu.

Málefni Rússlands bar einnig hátt í þingstörfunum að þessu sinni. Tvær skýrslur um Rússland voru teknar fyrir, annars vegar skýrsla eftirlitsnefndar þingsins um skuldbindingar Rússlands á vettvangi Evrópuráðsins og hins vegar skýrsla laga- og mannréttindanefndarinnar um trúfrelsi í Rússlandi. Umræður um stöðu mála í Miðausturlöndum fóru einnig fram, og sagði sú sem hér stendur að alþjóðasamfélaginu stæði mikil ógn af stigmagnandi átökum Ísraelsmanna og Palestínumanna og hatrið sem birtist í þeim átökum hefði náð því marki að Evrópuráðið yrði að leggja sín lóð á vogarskálar þeirra sem ljá friði röddu sína.

[17:30]

Sú sem hér stendur tók einnig þátt í umræðum um stjórn og verndun fiskstofna. Ég benti á að skýrsludrög drægju upp afar slæma mynd af ástandi fiskstofna. Rétt væri að minna á að á sama tíma og ástandið væri bágborið sökum mikillar ofveiði væru sumar Evrópuráðsþjóðir í vanda staddar.

Utan reglulegra þinga halda nefndir Evrópuráðsþingsins nokkra fundi árlega utan Strassborgar. Íslandsdeildin tók þátt í hátt á annan tug funda á sl. ári sem voru einungis brot af þeim fundum sem haldnir voru. Sú sem hér stendur hélt ræðu f.h. forseta ER-þingsins á fundi félags- og heilbrigðisráðherra 44 ríkja Evrópuráðsins í Bratislava og stjórnaði sex af fundum heilbrigðisnefndar, sat tvo fundi stjórnmálanefndar utan höfuðstöðva ER og fór í tvígang til Moskvu og Tsjetsjeníu á vegum sérlegs starfshóps þingsins og rússnesku Dúmunnar. Einnig sótti ég ráðstefnu um hryðjuverkastarfsemi sem efnt var til í Pétursborg í mars á síðasta ári.

Á fundi stjórnmálanefndar í París í september var ég skipuð skýrsluhöfundur í málefnum Kalíningrad og ferðaðist í þeim tilgangi til Litháens, Kalíningrad, Póllands og Brussel. Skýrslan sem síðan var lögð fram um það mál var samþykkt af miklum meiri hluta þingsins.

Í septembermánuði var haldinn fundur nefndarinnar í Strassborg. Þar var m.a. rætt um Kalíningrad og umráðasvæði Schengen-samstarfsins. Í skýrslu minni þar var lagt til að deiluaðilar kæmu sér saman um sérlegt ferðafrelsi milli Kalíningrad og Rússlands með útgáfu ferðaskilríkja handa íbúum Kalíningrad og að rússnesk stjórnvöld beittu sér fyrir því að leysa úr ýmsum tæknilegum örðugleikum sem af slíku samstarfi yrðu að öllu óbreyttu. Tillögurnar voru samþykktar.

Á þinginu var einnig efnt til umræðu um stöðu mála í Tsjetsjeníu-héraði. Formaður Íslandsdeildar hélt þar ræðu og lagði áherslu á að umheimurinn mætti ekki gleyma ástandinu í hinu stríðshrjáða héraði þrátt fyrir að kastljós fjölmiðla hefðu á undanförnum missirum einkum beinst að eftirleik hinna hörmulegu atburða sem áttu sér stað í Bandaríkjunum 11. september. Minnt var á að spennan milli Georgíu og Rússlands tengdist mjög ástandi mála í Tsjetsjeníu. Var gagnrýnt að þau mál væru ekki rædd í því samhengi. Aðbúnaður venjulegra borgara í Tsjetsjeníu er oft hrikalegur og gagnrýndi ég að of hart væri lagt að flóttamönnum að snúa til baka miðað við öryggisástand.

Ég fjallaði einnig um flóðin miklu í Tékklandi og hvatti til að Evrópuráðsþingið léti fé af hendi rakna til uppbyggingar flóðasvæðanna og vísaði til neyðarkalls formanns tékknesku landsdeildarinnar. Árangurinn varð sá að fé var veitt til uppbyggingar á ákveðnu svæði í Tékklandi þar sem nú fram fer uppbygging.

Ólafur Örn Haraldsson sótti þrjá fundi í eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins á árinu. Tveir þeirra voru í París og svo í Búdapest í mars. Þá sótti Ólafur Örn fund umhverfis- og landbúnaðarnefndar í París í febrúar. Margrét Frímannsdóttir sótti fund í laga- og mannréttindaráði Evrópuráðsþingsins og einnig tók hún þátt í fundi jafnréttisnefndarinnar í Lúxemborg í september.

Herra forseti. Að lokum vil ég minnast á að á undanförnum árum hefur tekist afar farsælt samstarf með fulltrúum Íslandsdeildarinnar og fastanefndar Íslands við Evrópuráðið. Vill Íslandsdeildin koma á framfæri þökkum sínum fyrir samstarfið, auk hins mikilvæga samstarfs sem fulltrúar utanríkisþjónustunnar inna daglega af hendi í Strassborg undir stjórn Harðar Bjarnasonar sendiherra.

Ég vil einnig minnast á það góða íslenska starfsfólk sem hefur um árabil starfað hjá Evrópuráðinu við afar góðan orðstír. Það er lítilli þjóð eins og Íslandi ómetanlegt og ekki síður persónulega fyrir mig að hafa til ráðgjafar svo hæft starfsfólk á alþjóðavettvangi eins og það sem valist hefur til starfa í Strassborg.

Ég vil einnig minna á að þrátt fyrir að Ísland sé lítið og fámennt sinntum við formennsku fyrir nokkrum árum í Evrópuráðinu, í ráðherraráði Evrópuráðsins. Þar var ákveðnum hlutum breytt til batnaðar hvað snertir fjármögnun til ráðsins. Enn er talað um þá breytingu sem grundvallarbreytingu í störfum ráðsins að frumkvæði Íslands.

Ég vil þakka kærlega og einstaklega vel samstarfið við þá sem hafa unnið í þessu starfi á undanförnum árum. Sérstaklega vil ég þakka Margréti Frímannsdóttur og Ólafi Erni Haraldssyni, fyrir frábærlega gott samstarf innan þingsins. Ég vil og þakka Andra Lútherssyni sem hefur verið einstaklega dyggur og fær ritari Íslandsdeildarinnar.