Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 17:36:19 (4221)

2003-02-27 17:36:19# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[17:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég kem einungis upp til að þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur verið málefnaleg og upplýsandi og ég tel að mikið gagn af því að við tökum umræðu um alþjóðamál með þeim hætti sem hér hefur verið gert í dag. Ég vil fyrir hönd utanrrn. þakka mjög gott samstarf við utanríkismálanefnd og við Alþingi um framkvæmd utanríkisstefnunnar. Auðvitað má það samstarf alltaf vera meira og utanrrn. er til reiðu að efla það samstarf eftir því sem nokkur kostur er.

Ég tel að utanríkisþjónustan hafi oft á tíðum unnið þrekvirki á ýmsum sviðum. Utanríkisþjónustan er fámenn en ég tel að hún sé mjög skilvirk, enda hefur hún innan sinna vébanda mikið af hæfu starfsfólki.

Ég bendi á að íslenska utanríkisþjónustan hefur á sínum vegum ekki nema rúmlega 200 manns þegar allt er talið, hér á Íslandi og í öllum þeim löndum sem við störfum. Það þætti ekki mjög stórt sendiráð í ýmsum öðrum löndum hjá stærri þjóðum. Ég býst við að breska sendiráið í Japan sé fjölmennara og bandaríska sendiráðið í Moskvu telur eitthvað um eitt þúsund manns.

Það er ljóst að það er ákveðið lágmark sem þarf fyrir hverja þjóð til að halda úti utanríkisþjónustu og utanríkisstefnu. Ég er þeirrar skoðunar að það sem við erum að gera sé algjört lágmark. Við þurfum að stefna að því að efla utanríkisþjónustuna frekar og hefur verið lagt upp með það.

Hér var t.d. nefnt samstarf við nágrannaþjóðir okkar, t.d. Færeyinga og Grænlendinga. Ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt og nauðsynlegt að Íslendingar hafi ræðismannsskrifstofu í Þórshöfn í Færeyjum. Við eigum mikil og afskaplega vinsamleg samskipti við Færeyinga. Við eigum mikil viðskipti við þá þjóð og að mínu mati er nauðsynlegt að halda áfram að efla utanríkisþjónustuna þannig að við höfum fulltrúa okkar í fleiri ríkjum.

Það sem einkum hefur verið rætt hér í dag er af eðlilegum ástæðum Íraksmálið. Ég tel að allmikill samhljómur hafi verið í þeirri umræðu þó ekki séu allir sammála. Það hefur komið skýrt fram af hálfu þingmanna að valdbeiting sé neyðarúrræði en hins vegar eigi ekki að útiloka hana. Það hefur að vísu komið fram hjá einum hv. þm. að í þessu tilviki sé ekki rétt að beita valdi undir nokkrum kringumstæðum, ef ég hef skilið hann rétt. Í því sambandi hljótum við þingmenn að spyrja okkur ákveðinna spurninga, ekki síst vegna þess að ég er að leggja af stað til Pristina í Kosovo á morgun. Við munum átökin sem urðu við fyrrum Júgóslavíu. Var rangt að beita valdi þá? Því var haldið fram mjög víða, m.a. hér á hv. Alþingi, að það væri rangt. Áttu þjóðir heimsins að horfa upp á Milosevic fremja fjöldamorð áfram í Kosovo? Áttum við að sjá ófrið breiðast út um Balkanskaga eins og allar líkur voru til? Ég tel að það hafi verið rétt og nauðsynlegt að grípa inn í. Þannig vill til að sú þjóð, Júgóslavía, sem vissulega varð þá fyrir loftárásum vill nú ganga í Atlantshafsbandalagið. Það segir sína sögu.

Var rangt af alþjóðasamfélaginu að bregðast við vegna Afganistan? Það var umdeilt. Ýmsir voru andvígir því. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það var rétt. En í báðum tilvikum var um neyðarúrræði að ræða. Þannig hefur það ávallt verið þegar alþjóðasamfélagið hefur gripið inn í slík átök.

Við höldum enn í þá von að hægt sé að ná friðsamlegri lausn í Írak. En um það er því miður ekkert hægt að fullyrða. Hins vegar er mikilvægt, ef gripið verður til þess neyðarúrræðis, að um það verði góð alþjóðleg samstaða. Ég er alveg viss um það að það verður enginn friðsamleg lausn á því máli nema Saddam Hussein viti að til þess geti komið að valdi verði beitt. Og um það eru nánast allar þjóðir sammála, enda sýnir reynslan það.

Þetta eru vissulega mál sem liggja þungt á heimsbyggðinni. Þau liggja þungt á okkur Íslendingum. Þarna verður að fara fram af fullri ábyrgð en jafnframt af fullri einurð og festu, eigi að vera von um að þar fáist niðurstaða sem heimsbyggðin geti sætt sig við. Það er ekki hægt að líða að einstakir harðstjórar og einræðisherrar sem fótumtroða lýðræðið í heiminum komi sér upp gjöreyðingarvopnum sem þeir eru tilbúnir að beita gegn nágrannaríkjum sínum, gegn sinni eigin þjóð. Þannig mætti lengi telja. Menn sem fótumtroða lýðræðið virða engar grundvallarreglur. Eða er líklegt að það sé lýðræðisleg kosning að forseti fái u.þ.b. sjö milljónir atkvæða og þar sé ekki einn einasti auður seðill --- ekki einn? Okkur þykir mikið til þess koma sem erum í stjórnmálum á Íslandi þegar við fáum nokkur hundruð atkvæði og yfir 90%. En okkur þætti það óeðlilegt að í slíkri lýðræðislegri kosningu fengjum við 100%. Það er ekki eðlilegt. Það er alltaf einhver óánægja í öllum flokkum, öllum samtökum, meðal allra þjóða. En þeir sem ... (ÖJ: Þú varst nú nærri 100%.) ... já, ég var nokkuð nærri.

En ef sambærileg kosning hefði átt sér stað í flokknum hjá Saddam Hussein, ætli hann hefði ekki viljað láta skrá nafn allra sem greiddu atkvæði á seðlana til að geta séð hverjir skiluðu auðu og hverjir kusu hann ekki. Ég held að það sé lýðræðið sem hann aðhyllist. Nákvæmlega. Ef viðkomandi gerir ekki nákvæmlega eins og hann vill bíður dauðinn hans, og pyndingar. Ekki bara dauði og pyndingar viðkomandi heldur allrar fjölskyldu hans, barna, barnabarna o.s.frv. Hér er ekki við neinar venjulegar aðstæður að fást. Það hefur verið rifjað upp hvernig fjöldamorðinginn Adolf Hitler var stöðvaður, hvernig þurfti að koma á friði með því að berjast fyrir friði. En auðvitað vildu menn líka líta svo á að þar væri neyðarúrræði, að þurfa að ganga gegn honum.

Ég vil, herra forseti, endurtaka þakkir mínar fyrir umræðuna hér í dag. Mér finnst hafa verið heilmikill samhljómur í henni þegar litið er yfir heildina og ekki stór ágreiningsefni um meginverkefni Íslendinga í utanríkismálum. Það er að vísu mismunandi mat á aðstæðum. Mismunandi mat er á aðstæðum í Evrópumálum, hvernig við fáum best tengt okkur sterkari böndum við Evrópu. Það er að sjálfsögðu ekki bara undir okkur einum komið. Það er líka undir því komið hvernig aðstæðurnar breytast, hvað þjóðir gera sem eru með okkur í samtökum eins og EFTA, hvað þær þjóðir sem eru jafnframt aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gera. Allt er þetta háð mati á aðstæðum. En eitt er ég viss um, að þarna verða breytingar á næstu árum og jafnvel næstu mánuðum, breytingar sem e.t.v. munu koma fram fyrr en margir halda. Þá verðum við Íslendingar að vera tilbúnir að taka á þeim aðstæðum og leiða þau mál til lykta með okkar hagsmuni að leiðarljósi. Þessar aðstæður ráða oft miklu um hvað nauðsynlegt er að gera og hvað rétt sé að gera þó að að sjálfsögðu sé mikilvægast að við vitum hvað við viljum gera. Það sem við viljum gera ræðst líka af þeim aðstæðum sem uppi eru hverju sinni með sama hætti og við tókum ákvarðanir í öryggis- og varnarmálum okkar og hlutleysismálum í ljósi reynslunnar af heimsstyrjöldinni síðari. Þannig hefur það ávallt verið og mun alltaf verða.