Norræna ráðherranefndin 2002

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 18:07:56 (4229)

2003-02-27 18:07:56# 128. lþ. 85.2 fundur 572. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2002# skýrsl, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[18:07]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf norrænu ráðherranefndarinnar 2002.

Málefni barna og unglinga voru í brennidepli í formennskuáætlun Norðmanna sem voru við stjórnvölinn á starfsárinu. Áætlunin bar yfirskriftina Norðurlönd morgundagsins. Þar var megináhersla lögð á að auka vægi þessa mikilvæga málaflokks á öllum sviðum starfseminnar. Jafnframt var lögð áhersla á að auka aðkomu ungmenna að ákvarðanatöku í þjóðfélaginu um þau mál er snerta hagsmuni þeirra. Því var á árinu haldinn fundur 13 norrænna ráðherra með fulltrúum æskulýðssamtaka á Norðurlöndunum um málefni barna. Meðal ráðherranna voru fulltrúar úr hópi menntamála-, félagsmála-, dómsmála- og samstarfsráðherra. Ýmsir fleiri viðburðir er snertu börn og ungmenni voru á dagskrá ráðherranefndarinnar þar sem fjölmenningarsamfélagið, barna- og unglingamenning ásamt málefnum barna og unglinga á grannsvæðum, var í fyrirrúmi.

Áætlunin Sjálfbær Norðurlönd til ársins 2020 gekk í gildi 2001. Meginmarkmið hennar er að flétta saman aðgerðir sem stuðla að sjálfbærri þróun inn í öll svið samstarfsins. Þetta starf hefur gengið vel og áætlunin var kynnt á leiðtogafundi ESB í Barcelona í vor og á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg sl. haust. Þannig lögðu Norðurlönd í sameiningu sitt af mörkum til að auka svæðisbundið alþjóðlegt samstarf um umhverfismál.

Eins og ljóst má vera af því sem ég hef nefnt um málefni barna og sjálfbær Norðurlönd eru mörg brýnustu samstarfsverkefni ráðherranefndarinnar þess eðlis að forsenda árangurs er að samstarf eigi sér stað þvert á hefðbundin samstarfssvið. Glöggt dæmi þessa eru verkefni tengd matvælaframleiðslu og öryggi matvæla. Því var ný ráðherranefnd um sjávarútvegsmál, landbúnað, skógrækt og matvælamál stofnuð síðla árs 2001. Undir hennar stjórn lauk á árinu stóru þverfaglegu verkefni um aukið matvælaöryggi á Norðurlöndunum. Á grundvelli þeirrar vinnu samþykkti ráðherranefndin annars vegar samstarfsáætlun fyrir næstu ár og hins vegar yfirlýsingu sem lögð var fyrir Norðurlandaráðsþingið í Helsinki um að Norðurlönd skuli sameiginlega á alþjóðavettvangi vinna að því að tryggja gæði matvæla.

Samstarf og samráð um Evrópumál á sér stað á nánast öllum sviðum samstarfsins. Frá þeim störfum er greint í sérstakri skýrslu sem gefin er út árlega.

Í lok ársins var samþykkt áætlun um aukið og markvissara samstarf milli norrænu ráðherranefndarinnar og annarra opinberra fjölþjóðlegra samtaka á svæðinu umhverfis Norðurlönd. Áætlunin tekur til samstarfs við Evrópusambandið, Eystrasaltsráðið, Norðurskautsráðið og Barentsráðið. Ætlunin er m.a. að taka virkan þátt í framkvæmd áætlunar ESB um norðlægu víddina. Ísland hefur með höndum formennsku í Norðurskautsráðinu um þessar mundir, á árabilinu 2002--2004. Á síðari hluta formennskutímabilsins gegnum við Íslendingar líka formennsku í norrænu ráðherranefndinni. Þá gefst gott færi á því að leiða samstarf milli þessara tveggja mikilvægu stofnana um mál sem við setjum í forgang. Ég bind vonir við að við getum nýtt það tækifæri vel næsta ár.

Brennidepill norræns grannsvæðasamstarfs mun í kjölfar aðildar Eystrasaltsríkjanna að ESB flytjast frá Eystrasaltsríkjunum og til rússneskra grannsvæða við Eystrasalt, þar með talið Kalíningrad, og til rússneskra grannsvæða á Barentssvæðinu. Undirbúningur þessara breytinga, sem hafa allvíðtæk áhrif, er þegar hafinn. Upplýsingaskrifstofur í Eystrasaltsríkjunum verða starfræktar áfram næstu ár en ljóst er að starfsemin mun taka breytingum.

Vægi norræns samstarfs um málefni norðurskautssvæðanna hefur verið að aukast undanfarið og á starfsárinu var samþykkt sérstök áætlun fyrir þetta samstarf sem tók gildi við síðustu áramót. Í brennidepli á starfsárinu voru umhverfismál, en á þeim vettvangi fór samstarfið fram samkvæmt sérstakri áætlun um vernd náttúru- og menningarverðmæta á norðurskautssvæðunum. Einnig var áhersla lögð á fjarkennsluverkefni og uppbyggingu menntanets á norðurslóðum.

Þá var á árinu skipaður starfshópur um aukið samstarf Norðurlandanna við norðvestlæg grannsvæði. Ætlunin er að tillögur hans verði grundvöllur pólitísks markvissara svæðasamstarfs á Vestur-Norðurlöndum og aukinna norrænna samskipta við grannsvæðin í Skotlandi, á skosku eyjunum og austurströnd Kanada um sameiginleg hagsmunamál. Þessi vinna er í samræmi við tilmæli sem Norðurlandaráð samþykkti á þingi sínu í Helsinki 2002.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið á skipulagi Norðurlandaráðs hafa leitt til þess að pólitískt samráð milli ráðherranefndarinnar og ráðsins um verkefnaval og stefnu hefur aukist. Þetta er ánægjuleg þróun því opin og upplýst umræða á norrænum vettvangi milli þinganna og ráðherra um starfsemi ráðherranefndarinnar er samstarfinu eins nauðsynleg og umræða á þjóðþingi um stjórnarfrumvörp og stefnu ríkisstjórnar. Í hópi samstarfsráðherranna hefur því farið fram umræða um leiðir til að bæta þetta samráð við Norðurlandaráð enn frekar. Við munum því leggja á það höfuðáherslu að ráðherrar svari jafnan þegar því verður við komið kalli Norðurlandaráðs um samráðsfundi jafnvel um mál þar sem afstaða ráðherranefndar liggur ekki fyrir. Í slíkum tilvikum verður að sjálfsögðu einungis unnt að gefa til kynna afstöðu viðkomandi ráðherra.

Eins var ákveðið að bæta meðferð ráðherranefndarinnar á tilmælum ráðsins sem oft hefur mátt betur fara. Ein helsta ástæða þess að erfiðleikum hefur verið bundið að fylgja tilmælum ráðsins eftir með nægilegum krafti er fjöldi þeirra tilmæla sem á hverjum tíma eru á dagskrá. Því ákváðu samstarfsráðherrarnir að beina því til Norðurlandaráðs að stefna að því að gera tilmælin beinskeyttari og pólitískt markvissari og fækka þeim eftir megni.

Svíar tóku um síðustu áramót við formennsku á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar úr hendi Norðmanna. Yfirskrift formennskuáætlunar þeirra er ,,Integration Norden`` eða Norðurlöndin sem heild. Markmið hennar er fjórþætt. Stefnt er í fyrsta lagi að aukinni þátttöku og áhrifum nýbúa á Norðurlöndum á stjórnmál, menningarlíf og þjóðfélagsumræðu. Þá er stefnt að áframhaldandi norrænum samruna í þeim skilningi að áfram verði unnið að því að auðvelda fólki flutninga og för milli landanna, og atvinnulífi og félagssamtökum norrænt samstarf. Eins verði áfram stefnt að auknum norrænum tungumálaskilningi. Í þriðja lagi er stefnt að frekari aðlögun og þróun samstarfsins milli Norðurlanda og grannsvæðanna. Þá er í fjórða lagi stefnt að auknu norrænu samstarfi á vettvangi evrópska efnahagssvæðisins og ESB.

Við Íslendingar tökum um næstu áramót við formennsku í norrænu ráðherranefndinni. Undirbúningur þess hefst fyrir alvöru um mitt þetta ár en miklu skiptir að hann verði vel úr garði gerður til að nýta sem best þetta tækifæri til að koma áherslumálum okkar á framfæri í norrænu samstarfi.

Virðulegur forseti. Ég hef hér gripið niður í nokkra þætti skýrslunnar án þess að hafa getað gefið heildarmynd af samstarfinu vegna umfangs þess. Því vísa ég að öðru leyti til skýrslunnar sjálfrar sem að venju er gerð í samstarfi allra ráðuneyta.

Ég tel norrænt samstarf liðins árs hafa verið gott. Mikilvæg þróun á sér nú stað varðandi samstarfið við grannsvæðin og við önnur alþjóðleg samtök. Þessi þróun er tákn um þær breytingar sem nú eiga sér stað á alþjóðlegri stöðu nágrannaríkja Norðurlanda. Hún er einnig tákn um að svæðisbundin samtök eins og norræna ráðherranefndin þurfi að svara kalli tímans og snúa kröftunum ekki bara inn á við heldur styrkja samstarfið út á við til að ná tilætluðum árangri, til að ná fram auknum lífsgæðum á Norðurlöndum og auknum áhrifum Norðurlanda á alþjóðavettvangi.