Norræna ráðherranefndin 2002

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 19:02:21 (4235)

2003-02-27 19:02:21# 128. lþ. 85.2 fundur 572. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2002# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[19:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. samstarfsráðherra óþarflega varkár í svörum, að taka ekki aðeins dýpra í árinni varðandi stuðning okkar Íslendinga við ósk Færeyinga. Að sjálfsögðu er ekki verið að fara fram á það að því verði lýst yfir fyrir fram að gengið verði að hvaða kröfum Færeyinga sem vera skal. En ég trúi ekki öðru en að Ísland ætli sér að styðja þessar óskir eftir því sem kleift er, eftir því sem Ísland getur þá réttlætt það út frá efni máls o.s.frv. vegna þess ósköp einfaldlega að ég held að pólitískt og alla vega liggi málið þannig að okkur sé það eiginlega algerlega skylt. Ég sé ekki fyrir fram neina meinbugi á því að Færeyingar fái það vaxandi sjálfstæði sem þeir eru að sækja sér og eru að taka þessa dagana. Þeir eru t.d. að yfirtaka ýmsa málaflokka sem áður hafa verið hjá Dönum og eru óðum að nálgast þá stöðu sem Ísland kannski hafði á tímabilinu 1918--1944. Það er þeirra takmark í bili, að komast í þannig stöðu, og þeir reyndar hafa sambandssamninginn frá 1918 mjög til fyrirmyndar.

Þessi tilvonandi ósk Færeyinga hefur verið kynnt forsætisráðherrum Norðurlandanna og það kom fram á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki á dögunum, á afmælisþinginu, að forsætisráðherrarnir hefðu tekið vel í þessa ósk en að sjálfsögðu með öllum fyrirvörum um það hvernig úr þeim málum verði leyst sem þá koma upp, þ.e. breytingar á Helsinki-sáttmálanum, hversu marga fulltrúa Færeyingar fái og annað í þeim dúr. Það þarf að sjálfsögðu allt að skoðast. En það eru úrlausnarefni sem menn geta auðvitað haft fyrirvara á en að því sögðu finnst mér alveg einboðið að Ísland taki vel í þessar óskir Færeyinga. Þetta eru ekki bara hugmyndir lengur, heldur liggur fyrir færeyska þinginu og er til afgreiðslu þar innan fárra daga, það ég best veit, formleg tillaga um að Lögþing Færeyinga ákveði að Færeyingar sæki um sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði.