Norræna ráðherranefndin 2002

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 19:04:40 (4236)

2003-02-27 19:04:40# 128. lþ. 85.2 fundur 572. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2002# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[19:04]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig nákvæmlega þessi beiðni verður orðuð að lokum frá Færeyingunum en ég get a.m.k. sagt það hér að það er mín skoðun að við eigum að teygja okkur talsvert í þá átt sem Færeyingar vilja og að það sé mikið til vinnandi í því. Ég treysti mér alveg til að taka undir með hv. þingmanni um að við munum styðja þá eftir því sem kleift er miðað við efni máls. En það nákvæmlega hvernig aðkoma þeirra verður að norræna samstarfinu í framtíðinni get ég ekki kveðið upp úr um á þessari stundu. Ég skil mjög vel óskir þeirra um aukna aðkomu og aukið sjálfstæði innan ráðsins ef svo má að orði komast. Ég skil þær óskir mjög vel og vil gjarnan teygja mig í átt til þeirra eins vel og hægt er að rökstyðja með góðu móti. En það þarf auðvitað að skoða allar hliðar málsins af því að þetta er flókið og viðkvæmt og Færeyingar eru ekki einu aðilarnir sem þarna koma við sögu. Það eru fleiri. Það er nokkuð brýnt að halda þessu góða samstarfi áfram í góðum farvegi á milli landanna. Mér finnst samt mjög eðlilegt að við Íslendingar reynum að teygja okkur í átt til Færeyinga, okkar ágætu frænda, eftir því sem okkur er kleift miðað við aðstæður máls.