Úrsögn úr þingflokki

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:01:19 (4238)

2003-03-03 15:01:19# 128. lþ. 86.91 fundur 459#B úrsögn úr þingflokki# (aths. um störf þingsins), KPál
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:01]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til að tilkynna þingheimi að ég hef sent forseta Alþingis það bréf sem hann hefur þegar lesið upp. Þessi ákvörðun tengist á engan hátt störfum mínum innan þingflokks Sjálfstfl. en þar hef ég átt gott samstarf við samþingmenn mína.

Það er ekki auðveld ákvörðun neinum þingmanni að ég hygg að segja skilið við flokk sinn en þegar sjálfsvirðing manna og réttlætiskennd er fótum troðin verður ekki undan slíkri ákvörðun vikist, hversu erfið sem hún kann að vera.

Það hefur verið nokkuð langur aðdragandi að þessari niðurstöðu eða síðan í lok nóvember sl. að ég upplifði það að uppstillingarnefnd Sjálfstfl. í Suðurkjördæmi hafði ekki gert ráð fyrir mér á lista flokksins fyrir næstu alþingiskosningar. Fyrir þingmann sem telur sig hafa unnið af heilindum á Alþingi fyrir flokk sinn og umbjóðendur er þetta mikil aðför sem getur ekki annað en kallað á viðbrögð. Þó að þessi ákvörðun hafi tekið á taugarnar er þó léttir að hún er að baki.

Ég mun freista þess með sérframboði í komandi alþingiskosningum að ná þingsæti að nýju í Suðurkjördæmi. Auðna ræður hvort það tekst.