Afstaða ríkisstjórnarinnar til Íraksdeilunnar

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:04:38 (4240)

2003-03-03 15:04:38# 128. lþ. 86.1 fundur 452#B afstaða ríkisstjórnarinnar til Íraksdeilunnar# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er dálítið erfitt að greina nákvæmlega atburðarásina frá einni stund til annarrar. Stefna ríkisstjórnar Íslands hefur verið sú að það væri eindregin afstaða að menn ættu að reyna til þrautar að stuðla að friðsamlegri lausn málsins, ganga þann veg til þrautar og leita slíkra lausna þannig að stríð væri ætíð afarkostur, neyðarkostur, neyðarbrauð. Þannig hefur íslenska ríkisstjórnin lagt sitt af mörkum, þannig hefur afstaða hennar komið fram. Jafnframt hefur íslenska ríkisstjórnin undirstrikað að það sé nauðsynlegt að ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, nr. 1441, héldi. Ef Íraksstjórn héldist uppi að virða ekki þá ályktun og í rauninni gera ekkert úr henni væri hætta á því að öryggishlutverk hinna Sameinuðu þjóða yrði dregið niður og Sameinuðu þjóðirnar mundu missa allt álit.

Þetta hefur verið stefna okkar í hnotskurn. Ég óttast hins vegar að með hverjum degi dragist heimurinn nær styrjöld á þessu svæði, því miður vil ég auðvitað segja.