Upphæð atvinnuleysisbóta

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:17:34 (4252)

2003-03-03 15:17:34# 128. lþ. 86.1 fundur 454#B upphæð atvinnuleysisbóta# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta voru framsóknarleg svör og lítið á þeim að græða. Einhver hefði nú byrjað á hinum endanum og sagt: Lægstu laun í landinu eru skammarlega lág og þurfa að hækka verulega. Síðan þurfa að sjálfsögðu atvinnuleysisbætur að hækka því það sjá allir heilvita menn hvers konar aðstaða það er fyrir fjölskyldur, hugsum okkur t.d. þar sem er ein fyrirvinna og hún missir skyndilega vinnuna í sæmilega launuðu starfi og dúndrar niður í 77 þús. kr. á mánuði og á að fara að framfleyta sér af því. Og að það séu rök af því tagi að þetta megi ekki fara of nálægt lægstu launum eins lág og þau eru, þau kaupi ég ekki. Hæstv. ráðherra gæti a.m.k. reynt að koma því aðeins skýrar út úr sér: Hver telur hann að þessi munur mætti þá vera? Mætti þetta fara upp í 85--87 þús. kr. að ósekju að mati ráðherrans og hvað er að marka þessa samþykkt framsóknarmanna? Er ekkert að marka hana?