Loðnuveiðar

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:21:24 (4256)

2003-03-03 15:21:24# 128. lþ. 86.1 fundur 455#B loðnuveiðar# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Allir vita að loðnuveiðar eru mjög mikilvægar þjóðarbúinu og þannig er t.d. talið að á síðustu loðnuvertíð hafi útflutningsverðmæti loðnuafurða orðið í kringum 15 milljarðar kr. Loðnukvóti fyrir árið 2002--2003 hefur verið úthlutaður 660 þúsund tonn plús afgangur sem Evrópusambandið veiðir ekki. Nú um þessar mundir er búið að veiða 610--650 þúsund tonn. Upplýsingar frá sjómönnum og öðrum hagsmunaaðilum eru þær að sumar loðnurannsóknir Hafrannsóknastofnunar hafi verið skornar niður undanfarin ár vegna féleysis stofnunarinnar og þannig er líka talið að klippt hafi verið á tvo leiðangra við mælingar á loðnustofnunum, annars vegar núna fyrir áramót og hins vegar nú í seinni hluta janúar og nú er það svo að loðnuskip sem ekki hafa kvóta eru að aðstoða Hafrannsóknastofnun við mælingar.

Herra forseti. Það er mikil ábyrgð og skylda sem hvílir á Hafrannsóknastofnun að gefa út skynsamlega kvóta á skynsamlegum tíma til þess að útgerðin og vinnslan geti skipulagt veiðar sínar og vinnslu á skynsamlegan hátt. Og við skulum hafa það í huga, herra forseti, að hver 100 þúsund tonn af veiddri loðnu gefa um 1--1,5 milljarða í útflutningstekjur eftir því á hvaða tíma árs veitt er.

Við skulum líka hafa það í huga að veiðanleg loðna, þriggja til fjögurra ára loðna, verður ekki geymd í sjónum. Kvenloðnan hrygnir og karlfiskurinn horast og deyr ásamt kvenfisknum. Þess vegna vil ég, herra forseti, vegna þess hve þetta er mikilvægt fyrir þjóðarbúið spyrja hæstv. sjútvrh. út í það hvort það geti verið að fjárskortur Hafrannsóknastofnunar skerði getu stofnunarinnar til að rannsaka og stofnmæla loðnustofninn. Og í öðru lagi: Hyggst ráðherra gefa út viðbótarkvóta? Ef svo er, hve mikið og þá hvenær?