Loðnuveiðar

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:24:50 (4258)

2003-03-03 15:24:50# 128. lþ. 86.1 fundur 455#B loðnuveiðar# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þetta svar. Ég vil þó ítreka það og segja að það er útbreitt meðal hagsmunaaðila í þessari grein að það sé svo að Hafrannsóknastofnun hafi ekki getað sinnt starfi sínu, rannsakað loðnustofninn og mælt stofnstærð eins og gert hefur verið undanfarin 5--10 ár vegna fjárskorts. Og ég spyr einfaldlega aftur: Hvenær voru rannsóknir að sumri til lagðar niður hjá Hafrannsóknastofnun? Hafa þær rannsóknir verið eins og þær voru gerðar hér áður fyrr? Ég held að svo sé ekki.

Ég ítreka það og segi: Auðvitað eigum við að sýna þolinmæði en það er sárt til þess að vita, herra forseti, ef þjóðarbúið er að tapa gífurlegum verðmætum vegna þess að ein stofnun getur ekki sinnt hlutverki sínu vegna fjárskorts eins og hér hefur verið tekið dæmi um og við erum í dag, 3. mars, að ræða um þetta þar sem undanfarin ár hefði fyrir lifandi löngu verið búið að gefa út viðbótarkvóta ef rannsóknum hefði verið lokið.