Loðnuveiðar

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:26:01 (4259)

2003-03-03 15:26:01# 128. lþ. 86.1 fundur 455#B loðnuveiðar# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Sumarrannsóknirnar á loðnunni hafa ekkert að gera með það hver endanleg úthlutun er á vertíðinni. Það eru vetrarmælingarnar sem ráða því. Hafrannsóknastofnunin hefur gert breytingar á rannsóknaráætlunum sínum yfir sumarið á uppsjávarfiskum vegna þess hvað þeir hafa talið vera skynsamlegast og hagkvæmast. Það er ekki vegna þess að um eiginlegan fjárskort sé að ræða. Hins vegar gætu menn gert meiri rannsóknir og meiri mælingar ef um meiri fjármuni væri að ræða. En það er ekki endilega að það sé það skynsamlegasta sem gert er í stöðunni. En þær mælingar sem skipta mestu máli í því sem hv. þm. er að tala um eru vetrarmælingarnar á loðnunni og til þess að þær geti farið fram hafa fjármunir ekki verið skornir við nögl eins og sést á því að núna er Árni Friðriksson í langri aukaferð til þess að mæla loðnuna sem ekki var gert ráð fyrir í áætlunum en stendur yfir einmitt núna vegna þess að fyrri ferðir reyndust ekki duga til þess að mæla loðnustofninn. Þess vegna er það rangt sem hv. þm. er að ýja að að við munum ekki geta veitt eðlilegt magn af loðnu vegna þess að verið sé að skera fjármuni við nögl við Hafrannsóknastofnunina. Það er beinlínis rangt, herra forseti.