Fjárfestingar lífeyrissjóðanna

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:31:22 (4263)

2003-03-03 15:31:22# 128. lþ. 86.1 fundur 456#B fjárfestingar lífeyrissjóðanna# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég skal viðurkenna að ég get ekki svarað þessari spurningu. Ég er ekki klár á því hvort lífeyrissjóðirnir geta keypt gull til geymslu. Hitt er rétt sem þingmaðurinn bendir á að ekki hefur allt verið gull sem glóir í fjárfestingum þeirra. Því miður er það svo að frjálsræðið sem mörg okkar höfum stuðlað að með rýmkuðum reglum að því er varðar fjárfestingar sjóðanna hefur ekki skilað sér í þeirri ávöxtun sem almenningur og þeir sem eiga fjármuni í sjóðunum gera réttilega kröfu um.

Þar er náttúrlega í mörg horn að líta. Það er fyrst og fremst á ábyrgð þeirra sem hafa þetta mikla fjármagn undir höndum og hefur verið treyst til að dreifa áhættunni af þessum fjárfestingum þannig að þegar til lengri tíma er litið sé fjárfestingin arðbær og skili a.m.k. þeim 3,5% að meðaltali í ársávöxtun sem gert er ráð fyrir í langtímaútreikningum sem liggja til grundvallar þessari starfsemi. Ég held að það sé aðalatriðið en auðvitað verða menn að reikna með því að það geti orðið einhverjar sveiflur í þeim efnum frá ári til árs.