Álverksmiðja í Reyðarfirði

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:38:46 (4266)

2003-03-03 15:38:46# 128. lþ. 86.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:38]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er óumdeilt að Kárahnjúkavirkjun verður mesta umhverfisslys Íslandssögunnar ef í hana verður ráðist. Það er einnig að verða ljóst að Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði verður jafnframt eitt mesta efnahagsslys Íslandssögunnar ef í það verður ráðist. Þeim fjölgar stöðugt, herra forseti, sem telja þetta verkefni í heild sinni, risavirkjun við Kárahnjúka með Hálslóni sem sökkvir stórum hluta friðlandsins í Kringilsárrana, flutning Jöklu austur í Lagarfljót og mengun frá álverinu sjálfu með hinum tveimur 80 m háu strompum sínum, eitt og sér meira en nóg til að þetta verkefni teljist ekki réttlætanlegt.

Við þetta bætast dagvaxandi áhyggjur manna af efnahagsslysi sem þetta mál er á góðri leið með að verða, þar sem fórnarkostnaður annars atvinnulífs og glötuð tækifæri á öðrum sviðum vegna fyrirferðar verkefnisins í íslensku efnahagslífi verður svo mikill að ekki verður aðeins tap á dæminu sjálfu, virkjuninni og álverinu þegar það er lagt saman með útsöluverði á rafmagni, heldur verða hin neikvæðu áhrif í efnahags- og atvinnulífi svo mikil að þjóðarbúið í heild sinni mun bera mikinn skaða af.

Herra forseti. Það er ekki of seint að hætta við. Það hafa engir skuldbindandi samningar verið undirritaðir. Þó að framkvæmdaaðilar virðist komnir langt fram úr þeim undirbúningsframkvæmdum sem talað var um að hefðu verið heimilaðar er enn hægt að hætta við án þess að um skaðabótakröfur vegna skuldbindandi gerninga verði að ræða.

Málið er heldur ekki útkljáð, hvorki fyrir íslenskum dómstólum þar sem mál er núna til reifunar né hjá Eftirlitsstofnun Evópska efnahagssvæðisins sem nýlega hefur beðið um viðbótargögn í málinu, gögn sem reyndar er haldið leyndum fyrir hv. Alþingi. Alþingi á þó að fara að greiða atkvæði um málið. Þetta, herra forseti, eru allt saman ólíðandi aðstæður í þessu máli. Þess vegna leggur fulltrúi okkar til í nefndaráliti að málinu verði vísað frá og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggur til að þessu máli verði vísað frá. Verði ekki á það fallist munum við hins vegar og að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessu máli.