Álverksmiðja í Reyðarfirði

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:43:14 (4268)

2003-03-03 15:43:14# 128. lþ. 86.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:43]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt að framkvæmdir við Kárahnjúka séu umdeildar. Það er hins vegar búið að greiða atkvæði um þær í þessu þingi. Nú erum við að greiða atkvæði um heimild ríkisstjórnarinnar til að semja við Alcoa um álver. Það liggur ljóst fyrir, herra forseti, að þingmenn Samfylkingarinnar styðja þetta frv. í öllum meginatriðum. Þeir eru sammála því að álver í Reyðarfirði verði reist. Þó eru þar á tvær undantekningar. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir sem voru andstæðar virkjun við Kárahnjúka eru þessu máli líka andstæðar.

Við teljum að áhrif álvers í tengslum við virkjun við Kárahnjúka muni til langs tíma hafa jákvæð áhrif á efnahagslífið. Við teljum það þó að hætta sé á verulegum skammtíma\-áhrifum sem birtist í ruðningsáhrifum hækkunar raungengis og vaxtahækkunar. Við teljum þess vegna nauðsynlegt að góð samvinna takist milli peningamálayfirvalda og þeirra sem stýra ríkisfjármálum um að draga eins og hægt er úr þeim aðgerðum. Við teljum unnt að grípa til heppilegra mótvægisaðgerða sem tryggja það.