Lögmenn

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 16:09:47 (4287)

2003-03-03 16:09:47# 128. lþ. 86.7 fundur 612. mál: #A lögmenn# (EES-reglur, námskröfur) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[16:09]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um lögmenn, nr. 77/1998.

Frv. tekur fyrst og fremst til breytinga sem nauðsynlegar teljast vegna ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á VII. viðauka við EES-samninginn um að fella inn í hann tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 98/5 frá 16. febrúar 1998, um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi. Var ákvörðun nefndarinnar tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands, Noregs og Liechtenstein en þeim fyrirvara hefur nú verið aflétt í öllum löndunum og tekur tilskipunin gildi 1. mars nk.

Þær breytingar sem nauðsynlegt þykir að gera á lögum um lögmenn vegna upptöku þessarar tilskipunar snúa fyrst og fremst að því að lögin taki einnig til þeirra lögmanna sem hér hafa rétt til að starfa á grundvelli tilskipana Evrópusambandsins og að veita dómsmálaráðherra heimild til að setja reglur um skráningu, skyldur, réttindi og störf þessara lögmanna í samræmi við þessar tilskipanir.

Ég á ekki von á því að ágreiningur sé um þennan hluta frv. sem leiðir af aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og frjálsum þjónustuviðskiptum.

Frv. snýr einnig að breytingum á skilyrðum sem þarf að uppfylla til að fá réttindi til að verða héraðsdómslögmaður. Lagt er til að það sé ekki lengur skilyrði að viðkomandi hafi lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands heldur skuli viðkomandi hafa lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi í lögfræði frá lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla.

Háskóli Íslands er ekki lengur eini háskólinn á Íslandi þar sem kennd er lögfræði og þykir því rétt að leggja þessa breytingu til. Með orðunum fullnaðarnám í lögfræði er vísað til þess að viðkomandi hafi lokið heildstæðu laganámi, bæði grunn- og framhaldsgráðu eða embættisprófi, og því ekki nægilegt til þess að uppfylla skilyrðið að hafa lokið grunnnámi í annarri grein en lögfræði þótt viðkomandi hafi lokið meistaraprófi í lögfræði.

Um þennan hluta frv. hefur þegar komið fram ágreiningur í blaðagreinum og fundahöldum eins og hv. þingmönnum er kunnugt. Í þeim umræðum hafa komið fram ýmsar vangaveltur, m.a. um fjárhagslegt jafnræði milli Háskóla Íslands og þeirra háskóla sem innheimta skólagjöld. Ég tel ekki rétt að blanda mér í þær deilur. Ég tel hins vegar rétt að kveðið verði á um jafnræði þeirra til atvinnu sem ljúka sambærilegum prófum í lögfræði við Háskóla Íslands annars vegar og annarra íslenska háskóla hins vegar, eins og frv. miðar að.

Sitt sýnist hverjum um innihald námsins en samkvæmt lögum um háskóla og samningi við Háskólann í Reykjavík eru gerðar lágmarkskröfur um gæði þeirrar menntunar sem veitt er. Ég treysti hæstv. menntmrh. og ráðuneyti hans vel til að hafa eftirlit með gæðum menntunar sem háskólar veita og því að þeir uppfylli ákvæði laganna og aðrar skuldbindingar. Ég tel víst að yfirvöld menntamála muni leysa það mál og einnig verði settar nauðsynlegar reglur um réttindi háskólanemenda sem flytja sig milli skóla á námstíma sínum.

Í umræðunni hefur því verið haldið fram að dómsmrn. eigi að hafa afskipti af námi lögfræðinga. Ég hafna því. Námskrá viðskiptafræðinga er ekki ákveðin af viðskrn. eða námskrá verkfræðinga af iðnrn. Það hlýtur að vera jafnt Háskóla Íslands sem hinum nýju háskólum hér á landi mikið hagsmunamál að samræming komist á í menntun sérfræðinga. Eins og ég hef áður sagt treysti ég yfirvöldum menntamála vel til að hafa frumkvæði að lausn þeirra vandamála sem hlutu koma upp við fjölgun háskóla hér á landi sem kenna sömu greinar til lokaprófs.

Hér er hins vegar fjallað um atvinnuréttindi. Ég tel nauðsynlegt að þeir sem þegar hafa hafið lögfræðinám við aðra innlenda háskóla en Háskóla Íslands fái staðfest að þeir geti orðið gjaldgengir til lögmannsstarfa á sama hátt og kandídatar frá lagadeild Háskóla Íslands sem nú mun hafa ákveðið að taka upp meistaraprófsgráðu við lokapróf frá deildinni.

Ég vil í þessu sambandi geta þess að til þess að fá lögmannsréttindi þurfa menn einnig að sækja sérstakt námskeið í lögmannsstörfum. Það gildir um alla lögfræðinga. Á því námskeiði eru gerðar allstrangar kröfur til verðandi lögmanna og er það vissulega ákveðin trygging fyrir því að undirbúningsmenntun þeirra sé í lagi.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.