Lögmenn

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 16:15:21 (4288)

2003-03-03 16:15:21# 128. lþ. 86.7 fundur 612. mál: #A lögmenn# (EES-reglur, námskröfur) frv., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[16:15]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Mig langar að fjalla hérna stuttlega um það frv. sem hæstv. dómsmrh. hefur nú mælt fyrir. Við vitum að innbyrðis samkeppni háskólanna sem bjóða nú upp á laganám eins og annað nám snýst um að laða til sín hæfustu kennarana og nemendurna enda byggja fjárframlög ríkisins á fjölda nemenda og námsárangri þeirra. En samkeppnin snýst líka um það hvernig það nám sem boðið er upp á mætir þörfum vinnumarkaðarins og um þau starfsréttindi sem námið veitir að skólagöngunni lokinni. Það er einmitt það sem ég vildi nefna um frv. sem hæstv. dómsmrh. hefur nú mælt fyrir en samkvæmt gildandi lögum þarf lögfræðingur, til að geta orðið lögmaður, að hafa lokið embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands eða við annan háskóla sem leggja má að jöfnu við próf frá Háskóla Íslands og við það mat hefur aðallega verið litið til kjarnagreina námsins og hvort þær séu sambærilegar að efni og umfangi. Þetta ákvæði í lögmannalögum hefur verið gagnrýnt fyrir það að binda lögmannaréttindin við próf frá einum skóla, frá Háskóla Íslands, við nám í lagadeild hans og það nám eitt sé haft sem viðmið um menntunarkröfur lögmanna. Frv. hæstv. dómsmrh. um breytingu á þessu ákvæði lögmannalaganna virðist einmitt eiga að vera svar við þessari gagnrýni sem hefur þá verið frá forsvarsmönnum þeirra þriggja annarra háskóla sem hafa boðið upp á laganám á háskólastigi.

Í þessu frv. er lagt til að embættispróf frá Háskóla Íslands verði lagt að jöfnu við fullnaðarnám til meistaraprófs við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er af menntmrh. samkvæmt lögum um háskóla. Með frv. eru prófin í raun viðurkennd sem jafngild og sambærileg án þess að gerðar séu neinar efniskröfur til inntaks þeirrar lögfræðimenntunar sem þarf til að geta orðið lögmaður. Frv. áskilur fimm ára nám en hvorki lágmarksmenntun kjarnagreina né kennslumagnið í hverri þeirra greina.

Það mætti ætla við fyrstu sýn að markmið þessa frv. væri að fella niður efnislegar lágmarkskröfur sem til þessa hafa verið gerðar til menntunar lögmanna. Sá skilningur á sér þó enga stoð í athugasemdunum við frv. og því hafa margir gefið sér að þarna sé á ferðinni misskilningur á milli ráðuneytanna, menntmrn. og dómsmrn., að dómsmrn. hafi staðið í þeirri trú að það félli undir menntmrn. að tryggja lágmarksmenntunarkröfur.

3. og 4. mgr. 9. gr. laga um háskóla má skilja þannig að það sé alfarið í valdi hvers skóla að ákveða hvaða nám og kennslu hann bjóði upp á, en að skylda hæstv. menntmrh. nái einungis til þess að ákveða heitið prófgráða og lengd námsins. Hins vegar verður ekki annað séð ef litið er til ákvæðisins og athugasemdanna en að heimild hæstv. menntmrh. nái a.m.k. heldur lengra.

Ég er ekki, herra forseti, að tala fyrir stöðluðu laganámi og ég hef enn þá engan hitt sem talar fyrir því. Þvert á móti hefur hinu fjölbreytilega námi á þessu fræðasviði verið fagnað víðast hvar, en nám til embættisprófs hefur frá upphafi fyrst og fremst verið ætlað að vera undirbúningur fyrir störf dómara, lögmanna og innan stjórnsýslunnar. Nám við Háskólann í Reykjavík og Viðskiptaháskólann á Bifröst er hins vegar skipulagt með tilliti til annarra þarfa og starfa, eða eins og segir um skipulag námsins við Háskólann í Reykjavík í bréfi til menntmrh., dags. 25. janúar 2002, með leyfi forseta: ,,... að endurspegla þær breytingar sem orðið hafa á íslensku atvinnulífi og mæta þörfum viðskiptalífsins fyrir lögfræðimenntaða stjórnendur og ráðgjafa.`` Ákvæði lögmannalaganna sem áskilur embættispróf í lögum frá Háskóla Íslands og efnislegar lágmarkskröfur þess náms sem skilyrði lögmannsréttinda er hins vegar ætlað að tryggja réttaröryggi almennings. Dómarar fara með einn þátt af þrískiptu ríkisvaldi og þótt lögmenn geri það ekki beint eru þeir nauðsynlegur liður í því að borgararnir njóti réttar síns fyrir dómstólunum.

Skoðun mín er sú, herra forseti, að markaðurinn megi ekki ráða menntun lögmanna og dómara þó að markaðurinn og eftirspurnin móti þær kröfur sem gerðar eru til náms í viðskiptatengdri lögfræði.

Það sem mér leikur forvitni á að vita, herra forseti, er afstaða hæstv. dómsmrh. til þess hvort ekki sé nauðsynlegt að tryggja efnislega lágmarksmenntunarkröfur sem skilyrði lögmannsréttinda og hvort hún telji það í sínum verkahring eða í verkahring hæstv. menntmrh. að gera svo.

Hvað samkeppnina varðar og það að nú er boðið upp á háskólanám í lögfræði í fjórum háskólum hér á landi vil ég fyrst og fremst halda því til haga að ég tel að hún hafi orðið til þess að bæta nám til embættisprófs í Háskóla Íslands og það hafi á síðustu árum eftir að samkeppnin kom til tekið miklum stakkaskiptum til hins betra.