Lögmenn

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 16:21:21 (4289)

2003-03-03 16:21:21# 128. lþ. 86.7 fundur 612. mál: #A lögmenn# (EES-reglur, námskröfur) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[16:21]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að það frv. sem hér hefur verið lagt fram mun fá nokkuð mikla umfjöllun í allshn. Ég held að það verði að fara mjög vandlega yfir frv. Það eru kannski tvær meginástæður fyrir því að frv. er lagt fram, annars vegar er um það að ræða að verið er að lögfesta EES-tilskipun og hins vegar er hugmyndin sú að menn geti áunnið sér lögmannsréttindi út úr fleiri skólum en Háskóla Íslands. Þetta eru þau tvö meginatriði sem í frv. er að finna.

Ég held að við getum almennt um það sagt að það er fagnaðarefni að fleiri skólar skuli vera farnir að kenna á háskólastigi. Það skiptir miklu máli að fólk hafi val í þessum efnum og það skiptir líka miklu máli að það sé reynt að koma upp einhvers konar samkeppni á milli skóla. Hins vegar þurfum við að fara vandlega yfir það í nefndinni hvernig við tökum á þessu máli og kalla eftir öllum sjónarmiðum sem er að finna í þessum efnum. Ég hvet allsherjarnefndina til þess að vanda mjög vel vinnu sína í þessu máli.