Ábyrgðasjóður launa

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 16:43:02 (4294)

2003-03-03 16:43:02# 128. lþ. 86.9 fundur 649. mál: #A Ábyrgðasjóður launa# (heildarlög, EES-reglur) frv. 88/2003, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[16:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem ég hef lagt fram og felur í sér heildarendurskoðun á lögum nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Það er samið í félagsmálaráðuneytinu og er það að mestu byggt á tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa.

Ábyrgðasjóður launa starfar í þeim tilgangi að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda. Sjóðurinn var stofnaður á árinu 1992 en að stofni til byggjast gildandi lög á ákvæðum laga um ríkisábyrgð á launum, nr. 31 frá 28. mars 1974.

Samkvæmt gildandi lögum er ekki lengur um það að ræða að ríkissjóður sé ábyrgur fyrir vangoldnum launum heldur er lagt til sérstakt ábyrgðargjald af greiddum launum til að fjármagna rekstur sjóðsins. Ábyrgðasjóður lýtur þriggja manna stjórn sem skipuð er af félmrh. til fjögurra ára í senn og tilnefna Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins sinn fulltrúann hvor en formaður stjórnar er skipaður án tilnefningar. Ágætt sátt hefur ríkt með þetta fyrirkomulag á þeim rúma áratug sem sjóðurinn hefur starfað og er ekki gert ráð fyrir breytingum hvað þetta varðar í frv.

Helstu nýmæli sem frumvarpið hefur að geyma eru eftirfarandi:

Lagt er til að Ábyrgðasjóður launa taki á sig ábyrgð á vangreiddum iðgjöldum sem nemur allt að 4% af iðgjaldsstofni á grundvelli samnings um viðbótartryggingavernd umfram lágmarksiðgjald samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Fjöldi slíkra samninga hefur farið stigvaxandi frá gildistöku laganna árið 1998 en samið hefur verið um slíkan sparnað í almennum kjarasamningum. Fyrir utan það að þessi sparnaður er skynsamlegur fyrir launafólk hefur hann einnig haft afar jákvæð áhrif fyrir íslenskt efnahagslíf, m.a. með því að draga úr ofþenslu og auka framboð innlends lánsfjármagns, sem þar með stuðlar að lækkun vaxta. Þykir eðlilegt, m.a. í ljósi þessa, að Ábyrgðasjóður stuðli að vernd þessara réttinda.

[16:45]

Í frv. er miðað við að ábyrgð sjóðsins á viðbótarlífeyrissparnaði taki gildi 1. janúar 2004 vegna þeirra iðgjalda sem falla í gjalddaga eftir gildistöku þessa frumvarps. Enn fremur er lagt til að ábyrgðin gildi einungis um kröfur starfsmanna þegar bú vinnuveitanda eru tekin til gjaldþrotaskipta eftir 1. janúar 2004. Frestun á gildistöku ræðst meðal annars af því að ábyrgð sjóðsins er háð skilyrðum um eftirlit og innheimtu vörsluaðila bótarlífeyrissparnaðar. Vörsluaðilum viðbótarlífeyrissparnaðar er með þessu móti gefinn kostur á að aðlaga starfsemi sína að þeim kröfum sem settar verða í reglugerð um eftirlit og innheimtu þessara krafna.

Önnur meginbreyting frá gildandi lögum er að í frv. er lagt til að hámarksábyrgð sjóðsins vegna krafna launamanna hækki frá því sem nú er. Samkvæmt gildandi lögum miðast hámarksábyrgð á vangoldnum launum og bótum fyrir launamissi við þrefaldar hámarksatvinnuleysisbætur á mánuði eins og þær eru ákveðnar á hverjum tíma. Í frumvarpinu er lagt til að miðað verði við fasta fjárhæð sem félagsmálaráðherra ákveður með reglugerð til eins árs í senn, að fengnum tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa. Þessi breyting leiðir til þess að hámarksábyrgðin hækkar úr 232.347 kr. á mánuði í 250 þús. kr. Þessari hækkun verður að hluta til mætt með ákvæði um að ábyrgð sjóðsins á orlofslaunakröfum verði bundin hámarki sem ákveðið verður með sama hætti í reglugerð. Í upphafi miðast hámarksábyrgð við 400 þús. kr.

Þá eru lagðar til ýmsar breytingar er varða skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á einstökum kröfum sem sjóðurinn ábyrgist. Má þar nefna að lögð er til breyting á reglum um ábyrgð á orlofslaunakröfum starfsmanna. Lagt er til að ákvæði orlofslaga um ábyrgð sjóðsins á orlofi vegna greiðsluerfiðleika vinnveitanda verði gert að sérstökum kafla í lögum þessum og þær kröfur lúti í meginatriðum sömu reglum og gilda um ábyrgð á orlofskröfum við gjaldþrot vinnuveitanda.

Ýmsar breytingar eru lagðar til varðandi stjórnsýslu Ábyrgðasjóðs launa, m.a. að því er varðar kröfugerð á hendur sjóðnum og afgreiðslu hans. Þá er lagt til að heiti sjóðsins verði breytt úr ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota í Ábyrgðasjóður launa og kemur sú breyting jafnframt fram í fyrirsögn frumvarpsins.

Loks er í frumvarpinu kveðið á um gildissvið laganna í þeim tilvikum þegar vinnuveitandi hefur starfsemi í fleiri en einu ríki en sambærilegt ákvæði er ekki í gildandi lögum. Verður meginreglan sú að Ábyrgðasjóður launa ábyrgist launakröfur í þeim tilvikum sem starfsmenn starfa að jafnaði hér á landi óháð því hvar aðalskrifstofa vinnuveitanda er skráð, en einnig þótt gjaldþrotaúrskurður hafi verið kveðinn upp í öðru ríki.

Um þetta frumvarp mun ríkja allgóð sátt meðal aðila vinnumarkaðarins. Ábyrgðasjóður launa hefur hingað til verið vistaður á skrifstofu Vinnumálastofnunar. Ég tel að vel geti komið til greina að vista Ábyrgðasjóð launa á landsbyggðinni á hentugum stað.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til hv. félmn.