Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 17:35:56 (4299)

2003-03-03 17:35:56# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[17:35]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið fram, og þótt fyrr hefði verið. Það hefur nokkuð lengi verið skoðun mín að það þyrfti að höggva á hnútinn hvað varðar rekstur þessarar verksmiðju. Ég er þeirrar skoðunar að í því samkeppnisumhverfi sem orðið er til núna sé eina leiðin til þess að framleiða sement á Íslandi og hafa það á markaði að gera það í fyrirtæki sem er ekki í eigu ríkisins. Ég held að það yrði afskaplega erfitt þegar litið er til þeirra samninga sem Íslendingar hafa gert um samkeppni á sviðum eins og þessum að eiga fullkomlega verksmiðju eins og þessa og vera með hana í harðri samkeppni við innflutt sement. Það hefur líka sýnt sig á undanförnum árum, frá því að Aalborg Portland fór að flytja inn sement, að það væri býsna erfitt að hafa áhrif á samkeppnisreglur sem er a.m.k. erfitt, svo vægt sé til orða tekið, að festa hendur á.

Ég held að það sem þurfi að gera, og tek undir það sem aðrir ræðumenn hafa sagt á undan mér, sé að standa við bakið á þeim fyrirtækjum sem koma til með að sýna áhuga á því að reka verksmiðju af þessu tagi með því að til staðar verði einhvers konar samningur um brennslu úrgangsefna og hlutverk verksmiðjunnar hvað það varðar til framtíðar litið. Þetta mál hefði auðvitað þurft að vera komið lengra en það er í dag en ég býst við því að það skipti a.m.k. máli fyrir þá sem hafa áhuga á því að skoða þá hugmynd að reka þessa verksmiðju að hafa einhvern slíkan samning við hið opinbera hér þar sem áætlun væri í gangi um það að fara að brenna úrgangsefnum, sérstaklega orkuríkum úrgangsefnum, við þessa framleiðslu. Það er virkilega eftir einhverju að slægjast. Eftir því sem mér skilst ætti að vera hægt að nýta slíkan úrgang til þess að brenna og framleiða með því líklega 3/4 af þeirri orku sem verksmiðjan þarf, jafnvel meira. Þetta er þess vegna mjög mikilvægt atriði og verður auðvitað að fylgja því eftir. Það getur verið svolítið flókið að ganga frá þeim málum við þá aðila sem hefðu áhuga á því að reka verksmiðjuna. Það er enn spölur í land með að hægt verði að hefja brennslu á t.d. rúllubaggaplasti og hjólbörðum sem eru aðaluppistaðan í því sem væri hægt að bæta við annan orkuríkan úrgang til brennslu þarna.

Sementsverksmiðjan er náttúrlega gamalt og gróið fyrirtæki og er afar mikilvæg í atvinnulífi Akurnesinga. Akraneskaupstaður skaffaði lóð undir þessa starfsemi og það er augljóst mál að það verður ekki hægt að afhenda þessa starfsemi einkaaðilum án þess að fara yfir öll þau mál gagnvart Akraneskaupstað og ganga frá með þeim hætti að Akurnesingar geti verið vissir um að hvernig sem fer um þennan rekstur, hvort sem haldið verður áfram að brenna eða framleiða sement í verksmiðjunni eða að hún breytist í innflutningsfyrirtæki sem er hugsanlegt, verði haldið áfram með reksturinn. Ef það t.d. gerist mega menn ekki sitja uppi með það að þessi verksmiðja standi þarna í hjarta bæjarins ónotuð og með engin úrræði til að sjá til þess að þeim rekstri, sem þá yrði á höndum þeirra sem væru komnir alfarið kannski út í innflutning á sementi, yrði haldið áfram með einhverjum yfirlýsingum um að einhvern tímann mundu menn kannski vilja prófa aftur að fara að framleiða sement. Slíkt er ekki viðunandi. Bæjarfélagið verður að geta treyst á það að í þessum samningum séu ákvæði gagnvart bænum sem hægt er að vísa til ef rekstrinum verður ekki haldið áfram.

Eins og ég sagði áðan tel ég að það sé í raun og veru ekkert annað að gera en að fara leiðir eins og þessa til að taka á þessu máli. En nú hefur það gerst að búið er að reka þessa verksmiðju með miklum halla nokkurn tíma í þessari samkeppni. Ég veit þess vegna ekki hvað þarf að gera til þess að verksmiðjan nái endum saman núna þegar menn bjóða reksturinn til sölu. Ég held að ástæða væri til þess að hæstv. ráðherra færi svolítið yfir það með okkur hér hvernig hún sjái fyrir sér endurskipulagningu á rekstri verksmiðjunnar sem geti fært henni hagnað í þeirri stöðu sem hún er í núna. Það er kannski ekki líklegt að áhugi manna fyrir því að reka þessa verksmiðju sé svo mikill að þeir vilji borga með henni eitthvað álíka og hún hefur tapað á síðustu tveimur árum. Ég sé þetta ekki alveg fyrir mér og geri ekki ráð fyrir því heldur að hugsanlegur samningur sem fylgdi með um áætlun til þess að fara að brenna úrgangsefnum geti verið svo verðmætur að þetta tap verði hafið. Það kemur auðvitað allt í ljós en það er samt ástæða til að spyrja eftir þessu hér.

Aðrir hafa farið yfir málefni verksmiðjunnar hér á undan og ég ætla ekki að endurtaka það. Ég segi fyrir fram að ég býst við því að geta stutt þetta mál. Ég trúi því að það sé fullur hugur á bak við flutning málsins, fullur hugur til þess að halda rekstri þarna áfram og framleiða innlent sement til sölu hér á markaðnum og láta reyna á það til hlítar hvort það getur staðist samkeppni við innflutt sement eftir eðlilegum leikreglum.