Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 17:43:56 (4300)

2003-03-03 17:43:56# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, PBj
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[17:43]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Mig langar að leggja nokkur orð inn í þessa umræðu um það frv. sem hér liggur fyrir um sölu eignarhluta ríkissjóðs í Sementsverksmiðjunni hf. Þó að frv. sé stutt og laggott þarfnast það vafalaust vandlegrar íhugunar.

Lengi hefur verið ljóst að mikill vandi hefur steðjað að þessari verksmiðju og eins og kemur fram í greinargerð er hérna um að ræða fyrirtæki sem á sér merka sögu og hefur haft framleiðslu fyrir íslenska sementsmarkaðinn nánast í hálfa öld. Það sem mér finnst vera aðalatriðið í afgreiðslu þessa máls er að hægt verði að tryggja áframhaldandi rekstur og áframhaldandi framleiðslu á sementi, tryggja það að verksmiðjan standist þá samkeppni sem nú er uppi og tryggja áframhaldandi atvinnu þeirra sem þarna starfa.

[17:45]

Eins og kunnugt er hefur samkeppni staðið að verksmiðjunni frá Aalborg Portland sem flestum virðist vera reist á frekar vafasömum grunni hvað varðar aðferðir og er reyndar beðið úrskurðar um það. Það sem kom mér á óvart þegar ég fór að kynna mér málefni Sementsverksmiðjunnar og ég held að mörgum landsmönnum sé kannski ekki ljóst, er hversu miklir möguleikar eru þar fyrir hendi í öðrum efnum en sementsframleiðslu. Þá á ég fyrst og fremst við þá möguleika sem verksmiðjan á í förgun ýmissa úrgangs- og spilliefna. Það eru möguleikar sem ekki hafa verið nýttir nema að hluta enn þá og möguleikar sem í felast veruleg tækifæri sem þarf auðvitað að meta til verðs þegar til sölunnar kemur, einkum má búast við að strangari reglur verði á næstunni um förgun ýmissa þessara spilliefna eins og t.d. hjólbarða og reyndar kannski fleiri úrgangsefna, og á komi skilagjöld.

Á hinn bóginn má segja að þessi ákvörðun ráðuneytisins að bera fram þetta frv. til laga um sölu á öllum eignarhlut ríkissjóðs núna, er svona viss uppgjöf, kannski of fljótt, vegna þess að mörgum finnst að þrátt fyrir að ríkisrekstur til frambúðar sé e.t.v. ekki æskilegasta formið á þessu, þá hefði gjarnan mátt fylgja verksmiðjunni í því stríði sem markaðurinn er núna og ekki síst í ljósi þess sem kom fram í umræðunni áðan að fram til þessa hefur ríkissjóður ekki þurft að leggja fjármagn til verksmiðjunnar, a.m.k. ekki sem neinu nemur, ég tók þær upplýsingar sem svo. Þá hefði kannski ekki verið ofrausn að koma þessu máli svolítið lengra, styðja verksmiðjuna í þeirri baráttu sem nú er háð og jafnframt komið á mun betra sölutækifæri þegar sigur væri unninn í þeirri orrustu.

Ég gat um förgunina sem ég tel að hefði mátt leggja meiri áherslu á og verður vafalaust lögð áhersla á á næstu árum. Tugir þúsunda tonna falla árlega til af hinum margvíslegustu úrgangs- og spilliefnum, eins og pappa, timbri, dagblöðum, plasti og svo fyrrnefndir hjólbarðar sem e.t.v. eiga eftir að gefa verulega af sér, ekki bara hvað snertir gjald fyrir förgun, heldur líka hitt að eftir því sem mér skilst er þetta verksmiðja sem nýtir innlent hráefni að öllu leyti, innlenda orku að einhverjum hluta en miklu minna en ég hafði búist við, vegna þess að þarna eru notuð kol. Mér hefur skilist að einmitt þessir möguleikar á förgun gætu komið til með að vega á móti þessari kolanotkun og förgunin sem gæfi annars vegar fjármagn og væri hins vegar umhverfisvæn, gæti jafnframt lagt verksmiðjunni til að einhverju leyti orku. Hérna er reyndar um að ræða tæknileg atriði sem ég treysti mér ekki til að fara mjög djúpt í.

En það er auðvitað atvinna þeirra sem þarna hafa unnið sem skiptir mjög verulegu máli og staðsetning verksmiðjunnar og það að henni verði tryggð starfsemi áfram og því tel ég brýnast, verði af þessari sölu sem mér sýnist að stefnt sé að, að tryggja starfsemina, að þarna verði framleitt sement og tryggt verði að sementið, salan og stuðningur við verksmiðjuna efli hana til að standast þá samkeppni sem nú á sér stað. Brýnt er að tryggja atvinnuöryggi og tryggja það að þróun verði í þeirri framleiðslu sem þarna fer fram og þeirri framleiðslu sem þarna getur orðið.

Eins og fram hefur komið eru þarna heilmikil sóknarfæri á margan hátt og óhjákvæmilegt er að tekið verði tillit til þess í söluverði verksmiðjunnar. Og það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að sanngjarnt verð fáist fyrir þessar eignir ásamt því að tryggja það að möguleikar verksmiðjunnar nýtist.

Hæstv. iðnrh. hefur sagt í fyrri umræðum að áfram verði framleitt sement í þessari verksmiðju og ég vona að það markmið sé svo sannarlega uppi áfram. Og sömuleiðis hefur hún sagt að ekki verði einokun á þessum markaði. Þetta tvennt þarf með öllum ráðum að reyna að tryggja og ég get tekið undir það. Takist að tryggja þessi framangreindu atriði sem ég hef hér getið um þá mun Frjálslyndi flokkurinn ekki leggjast gegn þessari sölu.