Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:24:10 (4307)

2003-03-03 18:24:10# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:24]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil inna hv. þm. Magnús Stefánsson eftir því hvort honum sé ekki kunnugt um þá afstöðu danska sementsrisans Aalborg Portland sem kom fram í viðtali við danskt blað og var kynnt hér fyrr í vetur í umræðunni. Þar lýsti hann því yfir að hann liti á Ísland sem hluta af hinum danska sementsmarkaði, að aðstæður væru slíkar að ekki væri hægt að ætla að margir aðilar gætu selt sement á almennum markaði á Íslandi og að hið danska fyrirtæki liti á það sem fórnarkostnað að leggja undir sig sementsmarkaðinn á Íslandi. Þetta kom fram í dönsku blaði og var gerð grein fyrir því í umræðunni í vetur um þessi mál.

Telur hv. þm. að í raun sé hægt að búast við því, þ.e. ef sementsframleiðsla leggst af á Akranesi, að hægt verði að koma á raunverulegri samkeppni á Íslandi um sement? Trúir hv. þm. því virkilega?

Enn fremur langar mig til þess að inna hv. þm. eftir því hvernig hann telji að verð á sementi mundi þróast ef hér væri einungis einn innflutningsaðili sem stýrði markaðnum. Hvaða áhrif mundi það hafa á almennt sementsverð hér á landi?