Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:35:14 (4312)

2003-03-03 18:35:14# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:35]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri á hæstv. ráðherra að hún hefur áhyggjur af því ef hér yrði erlend einokun á sementsmarkaði. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Er hægt að setja skilyrði við hugsanlega sölu á hlutum í verksmiðjunni að það sé í fyrsta lagi innlendur aðili sem kaupir, í öðru lagi að hægt sé að skylda hann til þess að stunda framleiðslu í einhvern árafjölda, annars gangi kaupin til baka? Eða er með einhverjum öðrum hætti hægt að tryggja að verksmiðjan haldi áfram þessu hlutverki sínu sem ætlað er en hugsanleg sala verði ekki bara liður í því að koma hér á erlendri einokun á sementsmarkaði? Er hægt að tryggja það með einhverju móti? Ég vildi gjarnan fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra.

Út af þeim málarekstri sem nú stendur yfir varðandi meint undirboð hins erlenda aðila sem hér er á markaði með sement. Reynist þetta hafa verið ólöglegt, mun þá ráðherrann fylgja því eftir með skaðabótakröfu á hendur þessum innflutningsaðila?

Til þess að fyrirbyggja misskilning hjá hæstv. ráðherra þá höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagt áherslu á að úr því að málið er komið fram fari það í nefnd og fái þar þinglega umfjöllun og þar verði þá allir þeir þættir sem lúta að sementsframleiðslunni og möguleikum verksmiðjunnar til að gegna fjölþættu hlutverki kannaðir og komi inn í allan þennan feril, þar á meðal þær þáltill. sem við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson höfum flutt um hlutverk verksmiðjunnar, þannig að þetta komi bara allt inn í þennan pakka.