Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:38:51 (4314)

2003-03-03 18:38:51# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:38]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er í rauninni ekki hægt eða virðist vera illmögulegt að setja nein sérstök skilyrði við sölu á þessari verksmiðju þannig að hún renni ekki beint til samkeppnisaðilans eða annars aðila sem getur haft hagsmuni af því að loka henni eða leggja niður starfsemina.

Það liggur náttúrlega í augum uppi að eftir að framleiðsla er lögð af þá munu erlendir sementsframleiðendur ekki verða í biðröðum til þess að ná markaði hér á landi. Það liggur í hlutarins eðli. Þetta er lítið land með litlum markaði og við getum ekki átt von á því að hér standi erlendir aðilar í biðröð eftir því að fá að selja sement.

Mér heyrist því á svörum hæstv. ráðherra að það sé heldur fátt að gera til þess að tryggja innlenda sementsframleiðslu eftir að ríkið væri búið að sleppa höndum af verksmiðjunni, þannig að þá stöndum við eiginlega berskjölduð fyrir erlendri einokunarverslun á sementi.

Ég vil ítreka varnaðarorð um að þau skref sem verið er að leggja til að verði stigin verði könnuð afar vel ef þau eiga ekki að leiða til þess að einokun verði á sementi í landinu.