Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:41:59 (4316)

2003-03-03 18:41:59# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:41]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að bæta við fáeinum orðum vegna þeirra orðaskipta sem hafa verið hér í ræðum núna undir lokin. Hv. þm. Jón Bjarnason talaði um að þetta væri skref í átt til einokunar, (JB: Gæti orðið.) gæti orðið, og það yrðu ekki erlendir aðilar í biðröðum til að framleiða sement og selja á Íslandsmarkað.

Ég hef tekið jákvætt undir þetta frv. í trausti þess að með því yrði reynt að sjá til þess við sölu á verksmiðjunni að þeir sem þar tækju við forráðum ætluðu sér að gera heiðarlega og einarða tilraun til þess að framleiða sement og selja á íslenskum markaði. En ef það tekst ekki muni þeir flytja inn sement og selja það í samkeppni við þá sem eru hér á markaðnum fyrir. Það séu sem sagt þessi tvö markmið, númer eitt að framleiða sement á Íslandi og selja það, en númer tvö að sjá til þess að samkeppni verði á þeim markaði.

Ég tel að það hljóti að verða að vera hluti, og þess vegna stend ég hér upp, af því sem stjórnvöld þurfa að sjá til með í sambandi við þessa sölu að menn séu sammála um þau markmið sem þeir hafa sett sér. Þau eru mörg, við höfum farið yfir þau hér í dag, þau eru framleiðsla á sementi, þau eru að hægt sé að halda áfram að eyða hér úrgangsefnum og að hægt sé að fara að eyða fleiri úrgansefnum. Þau eru líka að sjá til þess að samkeppni verði á sementsmarkaðnum á Íslandi.