Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:43:53 (4317)

2003-03-03 18:43:53# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:43]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði, að hann væri hlynntur því ef hægt væri að tryggja samkeppni.

Hæstv. ráðherra sagði að það væri ekki hægt að hafa áhrif á það hver kaupir. Það er hægt að hafa vilja og hægt að leggja fram skoðun, en í raun er ekki hægt að hafa áhrif á það hver kaupir í sjálfu sér né heldur að tryggja að það haldi til einhvers tíma þó að einhver sem kaupi lýsi því yfir að hann hafi fullan áhuga á að framleiða þetta og hitt. Það er því mikil trúgirni að halda að það sé hægt.

Ég vil bara spyrja hv. þm.: Trúir hann því virkilega að ef sementsframleiðsla leggst af, að hér verði hægt að halda uppi raunverulegri samkeppni í innflutningi á sementi um allan þennan veg að fara? Trúir hann því virkilega að hægt verði að halda hér uppi raunverulegri samkeppni á einkamarkaði ef sementsframleiðslan leggst af og keppnin á bara að standa um innflutning á sementi á þennan litla markað? Trúir hann því virkilega?