Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:45:29 (4318)

2003-03-03 18:45:29# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:45]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ja, verður maður ekki að trúa því? Erum við ekki að reyna að trúa því að það sé samkeppni á íslenskum markaði um vörur sem fluttar eru inn og seldar? Ætti ekki að vera hægt að gera það með sement eins og aðrar vörur? Og eigum við einhverra kosta völ annarra en að reyna að sjá til þess að samkeppnin verði?

Ég tel að þó að ekki sé hægt að velja þá aðila sem muni bjóða í verksmiðjuna og vilja kaupa hana séu menn þó í þeirri stöðu að það sé ekki nákvæmlega sama hverjir bjóði í verksmiðjuna. Ég tel t.d. að það muni stríða gegn samkeppnisreglum og -lögum hér í landinu ef Aalborg Portland býður í verksmiðjuna því að þá væri verið að skapa einokun með sölunni, og það stæðist hreinlega ekki samkeppnisreglur að selja þeim verksmiðjuna.

Ég held þess vegna að stjórnvöld geti gert ýmislegt til að sjá til þess að sá aðili sem tekur við rekstrinum, þ.e. ef hann finnst, það vitum við ekki enn þá, verði samkeppnisaðili við þennan innflutning sem er í gangi en að það verði ekki fyrsta skrefið að einokun eins og hv. þm. sagði áðan.