Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 14:26:17 (4328)

2003-03-04 14:26:17# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[14:26]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma tveimur atriðum á framfæri vegna ræðu hv. þm. Það er útbreiddur misskilningur í umræðunni að þetta verkefni sé allt saman gert vegna atvinnu- og byggðamála á einu litlu svæði á Austurlandi og jafnvel vegna tímabundinna og staðbundinna erfiðleika. Svo er ekki. Hér er um að ræða landsmál. Hér er um að ræða nýtingu auðlinda. Hér er um að ræða mál til þess að auka þjóðartekjurnar og byggðaþátturinn í þessu er bónus. Það er ekki vegna eins byggðarlags á Austurlandi sem þetta mál er tekið upp. Það er nauðsynlegt að sá misskilningur sé leiðréttur því að það gengur alltaf aftur í þessari umræðu að þarna sé verið að mæta tímabundnum erfiðleikum á Austurlandi.

Hitt er svo til umhugsunar varðandi þjóðaratkvæði og til umhugsunar um stöðu Alþingis að þetta mál hefur farið í gegnum allt hið löglega ferli. Greidd voru atkvæði um það á Alþingi í gær. Átta þingmenn af 63 --- nokkrir voru fjarverandi að vísu --- voru andvígir þessu máli. Það er ekki rétt að lítil umræða hafi farið fram um þetta mál. Þetta mál er með ýmsum tilbrigðum búið að vera til umræðu í 30 ár. Þetta mál er búið að vera til umræðu, þ.e. nýting orkunnar fyrir norðan Vatnajökul, síðan ég byrjaði í stjórnmálum á Austurlandi og áform voru miklu stærri en núna þó að þessi séu risavaxin, miklu stærri.