Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 14:28:30 (4329)

2003-03-04 14:28:30# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[14:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér virðist það vera dálítið ýmist eða hvort þetta er svona mikið byggðamál eða þjóðhagslega mikilvægt mál. Því er stundum haldið fram og hafðar um það stórkarlalegar yfirlýsingar að þetta sé stærsta byggðamál allra tíma og gjarnan er talað um störfin á Austurlandi og við, andstæðingar þessa máls, erum meira að segja stundum bornir þeim lúalegu sökum að við sérstaklega höfum horn í síðu Austfirðinga. Ætli maður hafi ekki fengið að heyra það. Þá er þetta svona sérstakt Austfjarðamál. En svo kemur hv. þm. núna og segir að þetta sé fyrst og fremst þjóðhagslega mikilvægt mál og fyrir landið allt. En það held ég að sé alveg hrunið, herra forseti. Hin þjóðhagslega nytsemd þessa máls er algerlega hrunin til grunna. Það liggur fyrir og það var kannski þess vegna sem mér varð tíðrætt um það sem þá væntanlega stendur eftir út af fyrir sig og ég hef aldrei neitað, að þarna skapast þó störf og einn stór vinnuveitandi á Austurlandi. Það verður að vísu held ég fremur einhæft stóriðjusamfélag sem ég er ekkert viss um þegar fram líða stundir að þróist endilega með mjög jákvæðum hætti, samanber dæmin annars staðar að um slík samfélög því oft fara að verða miklir erfiðleikar t.d. með tilkomu annarrar og þriðju kynslóðar. En það er önnur saga.

Það sem ætti þá að vera eftir í málinu þegar þjóðhagslega hliðin er hrunin, arðsemin er hrunin --- það fæst varla orðið nokkur hagfræðingur nema hann sé þá beint á launum hjá Landsvirkjun til að taka undir það sjónarmið --- væru þá þessi störf fyrir austan. En þá er stundum gert lítið úr því.

Varðandi það að þetta hafi farið alla leið, hið lögformlega ferli, þá minni ég nú á að málið er fyrir dómstólum. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur verið þvingaður til þess af Hæstarétti að taka málið efnislega fyrir. Því má deila um það hversu lagalega hafi verið að þessu öllu staðið.

Varðandi risaframkvæmdirnar norðan jökla þá er rétt að þær hafa lengi verið til umræðu. En treystir sér einhver maður í dag til að koma fram og mæla með villtustu hugmyndum LSD sem þar riðu uppi um að taka allar stóru árnar norðan jökla og sulla þeim saman í eitt niður Löginn?