Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 14:33:05 (4331)

2003-03-04 14:33:05# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[14:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við fengum hérna akkúrat sýnikennslu í því hvernig rökin eru notuð á víxl. Ýmist er þetta svona óskaplegt byggðamál eða svona mikið þjóðhagsmál. (Heilbrrh.: Hvort tveggja.) Já. Ég var nú ekki með neinar guðsblessanir yfir álverinu á Grundartanga, en ég sagði að lítið álver eða minna iðnfyrirtæki sem tæki margfalt minni orku og hefði þá byggst hægar upp hefði verið viðráðanlegt í efnahagslegum skilningi. Það stend ég við. Það er að sjálfsögðu viðráðanlegra í efnahagslegum skilningi og hefði minni þensluhættu í för með sér og annað í þeim dúr.

Varðandi virkjanir t.d. við slíka meðalstóra iðnaðarkosti sem þyrftu kannski í afli 200--300 megavött, þá opnast alveg nýjar víddir. Við getum virkjað fleiri en eina og fleiri en tvær af þessum jökulám að hluta til í sínum eigin farvegi og það hafa heimamenn verið að benda á. Helgi Hallgrímsson hefur bent á ýmsar mögulegar útfærslur á virkjun bæði Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsá á Dal í sínum eigin farvegi með miklu minni umhverfisáhrifum heldur en þessi ósköp sem væri a.m.k. af tvennu illu skárri kostur. Við getum sótt eitthvert viðbótarafl til Kröflu o.s.frv. Það eru ótal möguleikar aðrir sem opnast ef menn bara fást til að gefa sér tíma til að skoða málin.

Hv. þm. segir: Umræðan hefur skilað okkur því að LSD er út af borðinu. Já, er það ekki? Og skilar ekki umræðan því að við förum að skoða aðra möguleika? Er það ekki það sem okkur vantar hér að hætta við þessi ósköp, afstýra þessu slysi og taka aðra kosti upp á borðið?

En svo verð ég reyndar að hryggja hv. þm. með því að ég er ekki viss um að þessi mál séu eins í höfn og hann heldur, að þessir stóru draumar um að taka meira og minna allt jökulvatnið norðan Vatnajökuls, þ.e. ekki bara Kreppu í viðbót við Jöklurnar tvær heldur Jökulsá á Fjöllum, séu út af borðinu.

Ég skoðaði fyrir réttri viku glænýtt kort af Arnardalslóni þar sem hugmyndin er að veita því vatni austur á bóginn.