Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 15:25:56 (4333)

2003-03-04 15:25:56# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. bað mig að sitja hérna við umræðu þegar hún hæfist og ég vil, án þess að ég svari þó tæmandi fyrir hennar hönd, gera tilraun til að svara hér fyrirspurn sem var sett fram til iðnrh. eða umhvrh. um vöktun á svæðinu meðan framkvæmdir standa yfir.

Í úrskurði umhvrh. segir að framkvæmdaraðili skuli í samráði við Náttúrustofu Austurlands standa að nauðsynlegri viðbótarvöktun hreindýra á fyrstu árum starfstíma virkjunarinnar til að staðreyna að áhrif virkjunarinnar á hreindýrastofninn séu ekki meiri en gert er ráð fyrir í matsskýrslu.

Það er rétt að þarna er talað um starfstíma virkjunarinnar. Ég vil þó benda á að Náttúrustofa Austurlands hefur sérstaka fjárveitingu til hreindýrarannsókna og hún hefur starfsmann sem sinnir þessum rannsóknum. Sá er maður sem hefur mesta þekkingu á þessum málum af þeim sem ég þekki til. Ég held að hjá þeim manni sé mesta þekking saman komin í landinu á lifnaðarháttum hreindýranna og ég treysti honum fullkomlega til þess að stunda þessar rannsóknir. Hann er Skarphéðinn Þórisson líffræðingur. Ég tel reyndar einboðið, þó ekki hafi verið kveðið á um það í úrskurðinum, að rannsóknir muni m.a. beinast að þessu atriði núna þegar slíkar framkvæmdir eru þarna inn frá sem hafa áhrif á lifnaðarhætti hreindýrastofnsins. Ég vildi koma þessum svörum til skila.