Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 15:56:02 (4338)

2003-03-04 15:56:02# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[15:56]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Ég sá hv. formann umhvn. á göngunum. Mér sýnist hann vera bara horfinn aftur á braut. Hér er formaður efh.- og viðskn. þingsins, (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra mun vera hér einhvers staðar væntanlega og formaður iðnn. (Gripið fram í: Þú stendur þarna ...)

Það er svolítið merkilegt að framlag Framsfl. til þessa máls hefur annaðhvort verið svona ósvífni eða aulafyndni. Það hefur talsvert verið um slík viðbrögð frá þeim stjórnmálaflokki. Ég var einmitt áðan að tala um það ótrúlega ábyrgðarleysi sem sá stjórnmálaflokkur hefur sýnt í þessu máli og vék að yfirlýsingum sem formaður flokksins lét frá sér fara á nýafstöðnu flokksþingi Framsfl. þar sem hann var með ýmsar mjög miklar rangfærslur, að mínum dómi, nánast blekkingar, gagnvart þjóðinni, þar sem hann gaf í skyn að ávinningur af þessari framkvæmd fyrir ríkissjóð og almannasjóði væri miklum mun meiri en hann er. Um það deila hagfræðingar hver ávinningurinn er og þá yfirleitt hvort ávinningur verði af þessum framkvæmdum, því ýmsir telja að af þeim verði hreinlega bókhaldslegt tap.

Annað sem ég vil vekja athygli á við þessa umræðu málsins, þriðju og síðustu umræðu málsins, er hve margir endar eru óhnýttir. Vísa ég þar sérstaklega í kæru eða gögn öllu heldur sem hafa verið send Eftirlitsstofnun ESA, þeirri stofnun sem á að fylgjast með því að reglur og samningar sem við höfum undirgengist í tengslum við hið Evrópska efnahagssvæði séu ekki brotnir vegna þessara framkvæmda. Og um hvað snýst það mál? Jú, það snýst um það hvort niðurgreiðslur ríkisins, stuðningur Íslendinga við þessa framkvæmd, standist almennar samkeppnisreglur. Í því frv. sem við ræðum nú, frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, eru ákvæði sem veita Alcoa-fyrirtækinu ýmsar ívilnanir. Þær ívilnanir eru fyrst og fremst í formi skuldbindinga, t.d. varðandi tekjuskattinn. Alcoa-fyrirtækið á að borga 18% tekjuskatt, en í samningnum og í lagafrv. er kveðið á um að fari svo að tekjuskattar fyrirtækja verði hækkaðir á samningstímanum umfram þessi 18%, þá muni það ekki ganga yfir Alcoa. Það muni ganga yfir öll önnur fyrirtæki í landinu. Það muni ganga yfir öll íslensk fyrirtæki, en ekki Alcoa. Þetta á við reyndar um ýmsa aðra þætti t.d. varðandi útreikninga á rekstrartöpum sem eru flutt á milli ára. Kveðið er á um að það skuli gilda um tiltekinn árafjölda og verði breyting á því skal það ekki koma í bakið á Alcoa-fyrirtækinu. Það má bitna á öllum öðrum atvinnurekstri í landinu, en þetta stóra auðfyrirtæki er hins vegar sett í bómull.

[16:00]

ESA-dómstóllinn er m.a. að fjalla um þetta. Þar kunna að koma inn í aðrir þættir líka, t.d. niðurgreiðslur og stuðningur í formi hafnargerðar og vegagerðar, undanþágur frá losunarsköttum og umhverfissköttum. Hvers kyns ívilnanir og undanþágur kunna að vera þar á borðinu. Við fáum ekki upplýsingar um það.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir óskaði formlega eftir þessum upplýsingum. Hið sama hef ég gert í efh.- og viðskn. þingsins. Þar var þetta mál sérstaklega tekið fyrir. Fulltrúar frá iðnrn. mættu á fund efh.- og viðskn. og greindu okkur frá því að málið væri á svo viðkvæmu stigi að ekki væri á það hættandi að upplýsa þingnefndina um málið, nema menn lofuðu því að segja engum frá, lofuðu því að segja hvorki fjölmiðlum, öðrum þingmönnum eða þjóðinni yfirleitt frá því sem þarna væri á ferðinni. Þessu mátti líkja við eins konar samningsferli, var okkur sagt. Þetta samningsferli er nú á svo viðkvæmu stigi að það er ekki óhætt að láta þingið fylgjast með gangi mála.

Finnst mönnum þetta boðlegt? Er þetta traustverkjandi? Var ekki einhvern tímann sagt að þessi ESA-stofnun væri dómstóll? Er ekki talað um ESA-dómstólinn? Nú er hæstv. iðnrh. að prútta við þennan dómstól. (Iðnrh.: Eftirlitsstofnun.) Eftirlitsstofnun já, þetta er eftirlitsstofnun. Þetta er ekki dómstóll. En gagnvart þessari eftirlitsstofnun eru hæstv. ráðherra og ríkisstjórn í eins konar samningaviðræðum. Þegar óskað er eftir því að þingið og stjórnarandstaðan, bara þingmenn almennt, fjölmiðlar og þjóð, fái aðgang að þessari umræðu, að vita um hvað hún fjallar, hvaða gögn er verið að reiða fram og yfirleitt hvaða efnisþættir eru til umfjöllunar, þá er lokað á allt slíkt. Finnst mönnum þetta boðlegt?

Ég held að þetta mundi ekki ganga í Bandaríkjunum, í vöggu kapítalismans. Þetta mundi ekki ganga. Það komu hingað sérfræðingar í raforkumálum fyrir fáeinum mánuðum og lýstu fyrir okkur sem sóttum fundi þeirra að í Bandaríkjunum væri raforkukerfið að verulegu leyti markaðsvætt en hins vegar væri aðgangur fjölmiðla og almennings að upplýsingum betri en hér, miklu betri. Ég efast stórlega um að þetta mundi viðgangast þar.

Það stórkostlegasta í þessari umfjöllun og umræðu var að okkur var bent á að við kynnum að geta sótt málið á grundvelli upplýsingalaga eða einhverjum öðrum leiðum, kynnum að geta náð upplýsingum með einhverjum öðrum hætti. Þannig talar ríkisstjórnin til okkar. Þetta er meirihlutavaldið á Alþingi sem talar svona til okkar. Hugsanlega getum við náð frá þeim upplýsingum ef við beitum sérstökum lagatæknilegum klókindum til þess. Eru þetta hugmyndir Framsfl. um opið lýðræðisþjóðfélag? Það er von að ráðherrann hlægi. Þetta er náttúrlega alveg drepfyndið. Þetta er alveg óskaplega fyndið.

Enn þá sniðugra er náttúrlega að láta þingið og stjórnarmeirihlutann samþykkja frv. áður en búið er að skoða málið í Brussel. Það er náttúrlega svo sprenghlægilegt að ég er viss um að það leikur allt hér á reiðiskjálfi af hlátrasköllum á morgun þegar málið verður endanlega afgreitt. Allir endar eru óhnýttir í málinu. (Iðnrh.: Þetta er heimild til iðnrh.) Þetta er heimild til iðnaðarráðherra. Nú, það er svoleiðis. Þetta er heimild til að ráðast í framkvæmdirnar. Sams konar heimild og var veitt fyrir Kárahnjúkavirkjun. Eru heimildir eitthvað skyldar loforðum? Muna menn eftir loforðunum sem gefin voru í þingsölum, t.d. í tengslum við Eyjabakka og í framhaldinu Kárahnjúka? Um hvað snerust þau loforð? Þau snerust um að ekki yrði ráðist í neinar framkvæmdir í tengslum við þessi stóriðju- og virkjanaáform fyrr en allir samningar væru frágengnir og hefðu verið kynntir í þinginu.

Var því ekki lofað? Er ég einn um að muna þetta? (Gripið fram í: Nei, ég man það líka.) Muna það ekki allir? Ég held að það muni þetta allir. Það er búið að margítreka þetta í fjölmiðlum og hér á þingi. Þegar við heyrðum skröltið í vinnutækjunum á leið upp í Kárahnjúka að bora sig í gegnum fjöllin var gengið eftir því á Alþingi hvað menn ætluðu að gera með þessi loforð. Vita menn hverju var svarað? Vita menn hverju var svarað í iðnn., en þar sótti ég fund í haust fyrir hönd hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar þar sem við gengum eftir þessum loforðum? Á meðal þeirra sem komu fyrir þingnefndina var fyrrv. hæstv. iðnrh., Finnur Ingólfsson. Það var hann sem gaf þetta loforð aftur og ítrekað. Vita menn hverju hann svaraði þá? Hann sagði: Já, en var það ekki önnur virkjun? Var það ekki Eyjabakkavirkjun? Við hin héldum að menn væru að tala um virkjunarframkvæmdir þarna almennt. Við héldum að menn væru vandir að virðingu sinni og að orð stæðu. En það gera þau ekki.

Það sem við erum að ganga frá hér eru heimildir, svipað og ríkisstjórnin gefur loforð sem síðan eru svikin. Þetta er alvaran að baki þessum textum sem eru til umfjöllunar í þinginu. Mér finnst þetta ekki traustvekjandi, herra forseti, nema síður sé.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. iðnrh.: Hvað veldur því að ríkisstjórnin neitar að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta stórmál? Það eru aðeins rúmir tveir mánuðir til kosninga. Það er hæglega hægt að koma því þannig fyrir að kosið verði um þessar umdeildu framkvæmdir samhliða alþingiskosningum 10. maí. Þá væru menn heldur betur samferða þjóð sinni. Í skoðanakönnun sem gerð var fyrir fáeinum vikum í kringum mánaðamótin janúar/febrúar, kom fram að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er þessu fylgjandi. Þannig eru þeir sem eru hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu um stórmál af þessu tagi tæplega 80%, 79%. Andvígir eru aðeins 15%. Sama gildir varðandi Kárahnjúkavirkjun. Þar er heldur minna hlutfall, en þó eru 64% þjóðarinnar fylgjandi því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun. Hvorki né segja 6% en andvígir eru 30%.

Hlutföllin hér inni á þingi eru hins vegar allt önnur. Hæstv. heilbrrh. vakti í dag athygli okkar á að aðeins átta þingmenn hefðu greitt atkvæði gegn frv. ríkisstjórnarinnar og það eru náttúrlega fyrst og fremst þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Kárahnjúkaflokkarnir hafa yfirgnæfandi meiri hluta hér á þinginu. Þetta er vitað. Og um þetta hljóta kosningarnar að einhverju leyti að snúast í vor. Ætla menn að veita Kárahnjúkaflokkunum brautargengi eða flokki sem er reiðubúinn að standa vaktina í þágu umhverfisverndar á Íslandi? Við stöndum ekki bara fyrir umhverfisvernd heldur höfum við fært fyrir því haldgóð rök að sú stefna sem við boðum í efnahags- og atvinnumálum sé miklu vænlegri til að bæta þjóðarhag en þungaiðnaðarstefna Framsfl. Okkar stefna er miklu vænlegri til árangurs. Við höfum fært fyrir þessu ítarleg rök.

Það væri fróðlegt að heyra rökstuðning fulltrúa ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans gegn því tillaga okkar um þjóðaratkvæðagreiðslu nái fram að ganga. Ég spyr t.d. hv. formann umhvn.: Finnst honum ekki eðlilegt að þjóðin fái tækifæri til þess að greiða atkvæði um þessi mestu náttúruspjöll sögunnar á Íslandi? Er ekki eðlilegt að þjóðin fái að koma beint og milliliðalaust að því máli? Hæstv. ráðherra Framsfl. (KHG: Hún fær það í maí.) Hún fær það í maí. Já, það er nokkuð til í því hjá hv. þm. Kristni Gunnarssyni. Þá getur þjóðin sagt Kárahnjúkaflokkunum sinn hug. Það er alveg rétt. En málið er stærra en svo að við getum leyft okkur að hugsa í einu litlu kjörtímabili. Afleiðingar þessarar stefnu og þessara framkvæmda eru því miður meiri en svo. Við erum að tala um óafturkræf spjöll á náttúru Íslands. Þetta er bara staðreynd málsins.

Mér þætti fróðlegt að fulltrúar stjórnarmeirihlutans gerðu svo lítið að upplýsa okkur um hvað veldur því að þeir eru andvígir því að láta greiða um þetta atkvæði. Eru menn hræddir? Trúa menn ekki á eigin málstað? Óttast þeir þjóðina? Hvað er það sem menn óttast? Hvað veldur því að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn, ekki bara stjórnarmeirihlutinn heldur allir Kárahnjúkaflokkarnir hér á þingi, leggjast gegn þessu. Við erum ein um þetta, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, að standa hér í fæturna og vilja stuðla að náttúruvernd. Hvað veldur því að þessir aðilar leggjast gegn því að þjóðin fái aðkomu að málinu?

Nú verð ég eiginlega að fara að hætta til að fá hæstv. iðnrh. hér upp í andsvari ef svo skyldi fara að hæstv. ráðherra ætlaði að svara þessu, segja hug sinn eða öllu heldur segja þjóðinni hug sinn.

En mig langar að segja örfá orð um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var tekist á um þetta í byrjun 10. áratugarins. Hvenær var það, 1992? (KHG: Af hverju treystirðu ekki alþingiskosningum?) Ég treysti þeim líka. Ég treysti þeim að sjálfsögðu líka en ég tel að þetta mál sé það stórt í sniðum að þjóðin eigi rétt á að koma að því milliliðalaust. Því er þannig háttað að þjóðin er skipt í fylkingar, hugsanlega svipaðar að stærð. Ég skal ekki um það segja, það veit enginn. Það hafa verið gerðar skoðanakannanir sem gefið hafa skiptinguna til kynna en það þyrfti að komast betur að raun um það. En þetta mál er það stórt og umdeilt að það er eðlilegt að málið sé til lykta leitt með þeim hætti að okkar mati. Við teljum það líka sanngjarnt. Það hafa komið upp mál sem hafa kallað á slíkt.

Ég held að allir séu sammála um það og enginn mundi láta sig dreyma um annað en að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu ef einhverjum stjórnarmeirihluta dytti í hug að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Ég held að það sé enginn sem mundi andmæla því. Enginn. Hins vegar var það mjög umdeilt á sínum tíma þegar við gerðumst aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Þá var þess krafist að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. ASÍ var á því máli, BSRB, Neytendasamtökin, Bændasamtökin og tugþúsundir Íslendinga skrifuðu undir kröfur og óskir þar að lútandi. Þetta var hunsað. Hver voru rökin sem færð voru fram? Annars vegar heyrðust þessi venjulegu, hefðbundnu ólýðræðislegu rök um að þjóðinni kæmi það nánast ekki við en síðan var hitt: Málið er svo flókið, sögðu menn, að við þurfum þessa miklu sérfræðinga á Alþingi til að taka á málinu.

[16:15]

Er það þá hið sama sem gildir hér? Hve margir hafa sett sig verulega vel inn í þessi mál? Það er núna fyrst sem umræðan er að byrja að blómstra um hina efnahagslegu þætti málsins, svo dæmi sé tekið. Fram til þessa hefur alltaf verið vísað í útreikninga og staðhæfingar Landsvirkjunar. Síðan hefur hver aðilinn á fætur öðrum komið og stimplað þá. Menn hafa alltaf gert þetta með skírskotun til japansks bankafyrirtækis, Sumitomo-bankans í Japan. Hvaða hlutverki skyldi sá banki koma til með að gegna hér á komandi mánuðum og missirum ef af þessu verður? Hann verður einn af lánveitendunum, hann er hagsmunaaðili í málinu. Það er á hans útreikningum, stimplum og samþykki sem nánast allar umsagnir hvíla.

Síðan hef ég bent á að það er misræmi í því sem fram kemur í gögnum sem Landsvirkjun afhenti Sumitomo-bankanum annars vegar og hins vegar í skýrslum Landsvirkjunar. Ég hef ekki fengið nein svör við þessu. Ég veit ekki til þess að menn hafi lagst yfir þetta misræmi. Menn hafa heldur ekki lagst yfir skýrslur sem Þorsteinn Siglaugsson setti fram um kannanir sem gerðar hafa verið, bæði á vegum Alþjóðabankans og rannsóknarfyrirtækja, sérstaklega eins sem hann byggir á, töflur sem við fengum í efh.- og viðskn. þar sem fram kemur að áhættumat Landsvirkjunar er út úr öllu korti. Og það kemur líka fram að þau gögn sem Landsvirkjun afhenti Sumitomo um það efni gáfu til kynna að áhættumatið hvíldi á öllum virkjununum sem Landsvirkjun hefði ráðist í. Staðreyndin er hins vegar sú að það er aðeins brotabrot af þessum virkjunum og þær að umfangi aðeins brotabrotabrot af Kárahnjúkavirkjun. Menn leggjast ekkert yfir þetta, menn skoða þetta ekki neitt.

Menn voru byrjaðir að álykta hér út og suður, samtök á vinnumarkaði, bæði Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins ályktuðu um málið áður en samningar voru gerðir. Áður en lýðum varð ljóst hvað héngi á spýtunni var ályktað og málið stutt án þess að nokkur vissi hvað það gæfi í aðra hönd. Vorum við þá ekki undir sömu sökina seld sem höfum verið andvíg þessu?

Andstaða okkar skýrist fyrst og fremst af umhverfissjónarmiðum, þannig leggjum við málið upp. Við viljum ekki láta spilla náttúrunni á þennan hátt en þá komu stjórnarmeirihlutinn og virkjunarsinnar fram með þau rök og þær staðhæfingar að virkjanirnar og stóriðjan mundu skila svo miklum ávinningi inn í efnahagslíf okkar að við gætum ekki annað en tekið þennan kost. Þetta var hugsunin. Svo fóru menn þá að deila um þennan efnahagslega ávinning og reyna að meta hver hann raunverulega yrði. Um það hefur deilan hér þess vegna staðið.

En aftur og ítrekað vil ég segja að hinn pólitíski ásetningur hefur verið ljós allar götur frá því að þetta mál kom inn á þing í byrjun þessa kjörtímabils. Auðvitað á málið sér miklu lengri aðdraganda en í byrjun þessa kjörtímabils, árið 1999, urðu hér miklar umræður og deilur um Eyjabakkavirkjun. Það var hart tekist á um þá virkjun. Norsk Hydro kom snemma að því máli. Hvað átti Norsk Hydro að gera? Jú, það ætlaði að vera sameignaraðili með Íslendingum, með íslenskum fjárfestum. Norsk Hydro ætlaði upphaflega ekki að eiga nema 20--25% í álverksmiðjunni sem til stóð að reisa í Reyðarfirði. Síðan missir þáverandi stjórnarformaður Hæfis, held ég að það heiti, Geir A. Gunnlaugsson, það einhvern tíma út úr sér að það sé mikið vandamál með 80 milljarðana. 80 milljarða, spyrja menn þá, hvaða 80 milljarða? Það hafði ekkert verið rætt í þinginu um ábyrgð á 80 milljörðum. Hver átti að veita þá ábyrgð? Það var það sem vantaði upp á 20--25% sem þeir ætluðu að koma með. Þetta fékkst aldrei rætt, það komu aldrei neinar skýringar á þessu þótt eftir væri leitað, en þetta var hugmyndin. Norsk Hydro ætlaði að koma inn í álverksmiðjuna með 20--25% eignaraðild. Og þeir ætluðu að gera meira. Þeir ætluðu að sjá um aðföng, um sölu á afurðum og sjá fyrir tæknilegri þekkingu. Þetta átti að vera þeirra aðkoma að málinu.

Hverjir voru hinir aðilarnir sem áttu að koma að fjármögnuninni? Það voru lífeyrissjóðirnir. Þeir áttu að koma að þessari fjármögnun. Og ég þekki það vel vegna þess að ég sótti fund fjárfesta fyrir hönd lífeyrissjóðs þess sem ég hef átt stjórnarsæti í, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, fund sem var haldinn í júníbyrjun árið 2001. Þá var haldinn fundur á Hótel Sögu þar sem óskað var eftir því við lífeyrissjóðina að þeir kæmu með fjármagn inn í þessa framkvæmd. Það voru kallaðir til sérfræðingar sem gáfu alveg skínandi lýsingu á þróun álverðsins --- þetta var allt óskaplega góður fjárfestingarkostur --- ég held að það hafi verið CRU-fyrirtækið, þessir sömu og eru að ráðleggja núna og hafa alltaf komið með ranga spádóma, alltaf síðustu árin. Menn beri bara saman töflurnar annars vegar og skýrslur Landsvirkjunar hins vegar. Þar er allt á skjön, það gengur ekkert upp. En það er alveg sama þó að á þetta sé bent, það er eins og að stökkva vatni á gæs. Þetta er samt staðreynd. Og ég hvet menn sem efast um það til að skoða þetta. Nema þar átti að sýna fram á og var sýnt fram á bullandi arðsemi af þessu verkefni. Hófst nú mikið tog um hvað Norsk Hydro kæmi með stóran eignarhlut inn í þetta fyrirtæki sem átti að verða til. Af Íslands hálfu var alltaf verið að reyna að toga það upp á við, upp undir helminginn. Það var markmiðið.

Lífeyrissjóðunum var sagt að af þessu yrði mikill arður. Menn trúðu því ekki. Hvernig stendur þá á því að menn telja nú að það verði arður af starfsemi Alcoa ef menn töldu að hinn aðilinn yrði í bullandi tapi? Á hverju skyldi það byggja? Það byggði á því að menn ætluðu að raforkan yrði seld á raunvirði. Það er staðreyndin. Síðan var dæminu snúið við og stjórnvöld ákváðu að niðurgreiða raforkuna þannig að Alcoa-fyrirtækið gæti hagnast. Þetta er viðsnúningurinn. Þegar þessum lífeyrissjóðsfundi lauk sögðu forsvarsmenn hans: Við viljum ekki fá neitt opinbert frá ykkur núna. En við viljum fá vísbendingar í júlímánuði og í byrjun næsta árs, í byrjun árs 2002 hefur það sennilega verið, ætlum við að innheimta loforðið opinberlega. Þannig gekk þetta fyrir sig. Menn áttu að gefa þarna skuldbindingar og vilyrði en loforðið yrði innheimt ,,í byrjun næsta árs``.

Frá þessu greindi ég opinberlega. Að sjálfsögðu greindi ég frá þessu opinberlega. Og hver voru þá næstu skref? Hver urðu viðbrögðin í stjórnum lífeyrissjóðanna? Það var komið með plagg inn í stjórnirnar frá þessum aðilum --- á ensku, það var nú svo smekklegt, við erum öll íslenskumælandi sem sitjum í þessum stjórnum en plaggið var á ensku. Fyrirsögnin var ,,Secrecy Agreement``, samkomulag um leynd, og áður en lengra yrði haldið skyldu menn undirrita þetta samkomulag. Þetta eru vinnubrögðin í þessu máli, svona hafa þau verið. Þess vegna er ég ekkert undrandi yfir því að fáum ekki að sjá þau plögg sem ráðuneytið er að senda frá sér. Ég spyr: Hvað er það sem ekki þolir dagsljósið?

Hvers vegna höfðu menn svona miklar efasemdir um fjárfestingu í Norsk Hydro ævintýrinu á sínum tíma? Jú, við höfðum náttúrlega reynslu af slíkum fjárfestingum. Þar vísa ég t.d. í járnblendifélagið í Hvalfirði. Þar komu upphaflega erlendir eignaraðilar að, Union Carbide, og síðan á áttunda áratugnum kemur í kjölfarið Elkem Spigerverket inn í það dæmi, fyrst með minnihlutaeign, en síðan smám saman jókst hún og er núna komin í 75%. Hvernig gerðist það? Járnblendifélagið hefur nokkrum sinnum orðið gjaldþrota. Hvað hefur gerst þegar það hefur orðið gjaldþrota? Hvað gerðist þá? Þá var endursamið um raforkuna, þá var endursamið um verðið á raforkunni, á afurð okkar til verksmiðjunnar, á þeirri afurð sem þjóðin selur verksmiðjunni. En svo illa var komið fyrir fyrirtækinu í árslok árið 2001 að hlutabréfin í járnblendifélaginu voru færð niður um 75%, úr 1.700 millj. í 400 millj., um 75%. Þá voru hlutabréfin rýrð að verðgildi um þetta. Það lá við að þetta ylli því að félagið yrði tekið út af Verðbréfaþingi. Hvað gerði ríkisstjórnin þá? Hún setti inn nokkra tugi milljóna, ég held að það hafi verið 60 millj., til þess að koma í veg fyrir þetta algera hrun og skipbrot. En með þessum hætti urðu ýmsir, þar á meðal íslenskir fjárfestar, fyrir miklu peningalegu áfalli, og það er þetta sem lífeyrissjóðirnir eða einhverjir aðilar innan þeirra horfðu til að gæti gerst í samkrulli með Norsk Hydro, fyrirtæki sem hefði tögl og hagldir um aðföng og sölu á afurðunum og ætlaði að fá sinn hlut í tæknivinnu á ódýran hátt. Sú var hugsunin. Og eitt af því, svo að ég rifji það upp líka í tengslum við þessa samninga við Elkem, var krafan um að fá 3% hlutdeild í veltunni, sem þeir fengu, blóðpeninga sem Jón Sigurðsson, fyrrv. hæstv. iðnrh., talaði um. Þetta er þessi saga. En jafnvel þótt menn hefðu þessa sögu og þessa atburðarás fyrir augunum og í huga, a.m.k. þeir sem höfðu kynnt sér málið, átti eftir sem áður að fara út í svipað ævintýri og krefjast þess af lífeyrissjóðunum að þeir kæmu einnig þar til sögunnar. Þetta eru staðreyndir í þessu máli.

Áður en ég kveð alveg Hvalfjörðinn spyr ég hvort það sé ekki rétt að nú sé svo komið að Alcoa-fyrirtækið eigi næstum helmingseignarhlut í Elkem, 46%. Ég held að svo sé. Þetta eru hræringarnar. Og ég hef áður rifjað það upp hér í ræðu að eitt það áhrifaríkasta sem mér hefur fundist hafa komið fram í þessari umræðu voru orð fyrrverandi forstjóra járnblendifélagsins, Jóns Sigurðssonar, sem varaði okkur við þessum samningum. Reyndar horfði hann þá fyrst og fremst til Norðmannanna og þessa samkrulls sem ég var að vísa til. Hann sagði: Þessir eignaraðilar hafa tögl og hagldir við slíkar aðstæður --- eins og varð raunin --- og þeir eiga kost á því að taka upp samninga og færa verðið niður. Og ef þeir hverfa frá eða verða gjaldþrota, sem getur gerst, líka með risafyrirtæki --- Argentína er ekki fyrirtæki, heldur ríki. Það varð gjaldþrota. Pan American er fyrirtæki, það varð gjaldþrota, risastórt, þetta getur gerst --- þá koma þeir sem Jón Sigurðsson kallaði hræætur, og það eru ekkert sérstaklega þægilegir samningsaðilar. Þetta gæti gerst við erfiðar aðstæður. En við erum ekkert að meta það núna. Við erum að meta nákvæmlega samningana sem verið er að gera. Við bendum á að samningarnir sem ríkisstjórnin er að gera um stóriðjuna séu vafasamir, og þá hafa menn horft til tveggja þátta, annars vegar þess tilkostnaðar sem við verðum fyrir, útgjaldanna, stofnkostnaðarins, og hins vegar raforkuverðsins, þ.e. þeirrar afurðar sem við seljum. Þar hefur verið bent á að óvissuþættirnir séu gríðarlega miklir. Þótt þeir færu ekki nema upp undir meðaltal í umframkostnaði sem fram kemur í skýrslum Alþjóðabankans í framkvæmdum af þessu tagi væri framkvæmdin komin í bullandi tap, bókhaldslegt tap. Það yrði bókhaldslegt tap á framkvæmdinni upp á marga milljarða. Hvað skal gera þá? Á þá að koma ríkisstuðningur? Samkvæmt lögum má ekki láta almenna raforkukaupendur niðurgreiða stóriðju. Það er bannað lögum samkvæmt, og við erum svo afskaplega löghlýðin, segja þeir hjá Landsvirkjun. En það verður fróðlegt að fara í saumana á því bókhaldi og einnig formið á niðurgreiðslum vegna framkvæmdanna að öðru leyti. Um það fjalla viðræðurnar við ESA, samkeppnisstofnunina sem við megum ekki fá að fylgjast með. (Iðnrh.: Eftirlitsstofnunina.) Eftirlitsstofnun með samkeppni, eða hvað? Með því að samkeppnislög séu í heiðri höfð og að ríkisstjórnin ... (Iðnrh.: Í formi ríkisstyrkja.) Í formi ríkisstyrkja, segir hæstv. ráðherra. Við erum að fjalla um ríkisstyrki til Alcoa-fyrirtækisins vegna þess að fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda, þeirra sem borga skatta innan við 100 þús. kallinn, hefur ríkisstjórnin tekið Alcoa-auðhringinn upp á sína arma og færir honum ríkisstyrki. Nú er það til könnunar og athugunar í Brussel hvort þessir ríkisstyrkir séu of miklir. Um það snýst þetta mál. Og þetta er svo óskaplega viðkvæmt að það má ekki láta þjóðina fylgjast með. Þannig er því farið.

[16:30]

Ég ætla ekki að fara mikið nánar í þessa sögu. Ég hef vísað til fyrirtækja sem hæstv. iðnrh. hefur sótt heim í Kanada og víðar. Ég held hún hafi ekki farið til Mexíkó og ekki til þriðja heims ríkjanna þar sem Alcoa er sakað um að brjóta mannréttindi, réttindi á verkafólki sem ekki fær að stofna verkalýðsfélög og er haldið á smánarlaunum. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur heimsótt Impregilo í Lesótó. Sú framkvæmd er í rannsókn hjá Alþjóðabankanum og rannsóknarnefnd á vegum breska þingsins hefur komist að þeirri niðurstöðu að þar hafi verið farið á bak við viðskiptabannið á sínum tíma. Þeir settu upp það sem Bretarnir kalla ,,þvottastöð`` í London til að komast á bak við þá samninga. Í Argentínu og Brasilíu hefur fyrirtækið verið tengt geysilegum hneysklismálum. Í Argentínu reistu þeir minnisvarða um spillingu, sagði fyrrv. forseti landsins. Í Brasilíu var sagt um Impregilo, þetta viðskiptafyrirtæki ríkisstjórnarinnar, að það hafi tengst mesta svikamáli í sögu kapítalismans. Þau munu þó vera nokkuð stór í sniðum sum. Samkvæmt þessari bresku rannsóknarskýrslu sem ég vísaði til var það svo að framkvæmd sem átti að kosta um 4 milljarða dollara hafi orðið 20 milljarðar þegar upp var staðið, ef ég man þessa tölu rétt. Ég ætla ekki að fullyrða um það. Stærðargráðurnar voru a.m.k. slíkar.

Varðandi hin efnahagslegu áhrif af þessum aðgerðum, af þessum framkvæmdum, er farið að tala um áhrifin á öðrum nótum en gert var fyrir fáeinum dögum eða vikum í þessum sal. Hæstv. forsrh. sneri þá út úr þegar spurt var um áhrif á gengi, vexti og annað af því tagi. Hann sagðist mundu svara til um slíkt árið 2005, þá sem forsrh. Nú er að koma á daginn sem reyndar var ljóst orðið að þessi innspýting í efnahagslífið, þ.e. væntingar um hana öllu heldur, er þegar farin að hafa áhrif á gengið til styrkingar krónunni. Eins og ég þreytist ekki á að segja er það að sjálfsögðu gott upp á kaupmáttinn, gagnvart vörum sem við kaupum frá útlöndum, einkum frá löndum þar sem styrkingin er mest eins og Bandaríkjunum. En fyrir útflutningsatvinnuvegi og ýmsa atvinnustarfsemi í landinu getur illa farið ef hins hárfína jafnvægis sem þarna þarf að vera er ekki gætt eða sé það ekki fyrir hendi. Það var t.d. umfjöllunarefni í sjónvarpsþætti á sunnudaginn, í Silfri Egils. Þar fjölluðu þrír efnahagssérfræðingar um þessi mál. Einn þeirra, Edda Rós Karlsdóttir frá greiningardeild Búnaðarbankans, sagði að þau hefði kannski ekki verið fyrirséð, þessi áhrif á styrkingu krónunnar. Hún vék sérstaklega að ferðaiðnaði og sjávarútvegi, þ.e. fiskvinnslu almennt, hvaða áhrif þetta hefði þegar á þær greinar. Þetta eru hlutir sem ríkisstjórnin hefur hreinlega neitað að ræða. En þetta er þáttur sem við höfum ítrekað vakið athygli á.

Annað sem menn eru sammála um að muni gerast er að vextir verða talsvert hærri en þeir ella hefðu verið, tveimur prósentustigum hærri. Það mun segja sig sjálft að það mun að sjálfsögðu hafa slæm áhrif á afkomu fyrirtækja og heimila. Það þekkja allir sem þurfa að kljást við mikinn og erfiðan skuldabagga. Hvers vegna eru vextirnir hækkaðir. Annars vegar lýtur það lögmálum framboðs og eftirspurnar eftir fjármagni. Hins vegar er það yfirveguð ráðstöfun af hálfu Seðlabankans sem að einhverju leyti stýrir vaxtastiginu, að slá á þenslu með því að hækka vexti og koma þannig í veg fyrir fjárfestingu heimila og fyrirtækja, koma í veg fyrir að önnur fyrirtæki færi út kvíarnar og skapi ný störf. Þessa mótsögn höfum við verið að benda á, að þessi atvinnustefna þrengir að öðrum atvinnurekstri. Það er í þessu samhengi sem efnahagssérfræðingar tala um ruðningsáhrif í atvinnulífinu, framkvæmdirnar komi til með að ryðja öðrum fyrirtækjum úr vegi. Þetta var umfjöllunarefni efnahagssérfræðinganna í Silfri Egils um síðustu helgi. Þar voru Ásgeir Jónsson, Sigurður Jóhannesson og Edda Rós Karlsdóttir sem ræddu málin en fjöldi annarra hagfræðinga hefur tekið í sama streng. Þau vísuðu til þessarar atvinnustarfsemi sem ég vék að áðan.

Ég spyr: Væri ekki nær að í stað þess að senda Landsvirkjun í þennan leiðangur til að fullnægja kosningaloforðum Framsfl. upp á fleiri hundruð milljarða að Landsvirkjun hreinlega greiddi upp skuldir sínar eins og landsvirkjunarmenn hafa talað um að unnt væri að gera á 15 árum. Þar með væri hægt að lækka raforkuverð til allra fyrirtækja og heimila í landinu.

Þá ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra um loforð sem fyrrv. hæstv. iðnrh. gaf, forveri hennar á ráðherrastóli, Finnur Ingólfsson. Hann sagði: Vegna þessarar virkjunar og þessara stóriðjuáforma þá munum við geta lækkað raforkuverð í landinu um 25--30% á næstu 10 árum. Þá erum við ekki að tala um eitthvað sem ella hefði gerst. Við erum að segja: Vegna þessara framkvæmda verður raforkuverðið lækkað sem þessu nemur. Verður það gert? Að sjálfsögðu verður það ekki gert. Að sjálfsögðu verður það ekki gert á grundvelli þessara framkvæmda, sem áhöld eru um að skili nokkrum einasta arði. Þau verða þvert á móti baggi á þjóðinni. Ég velti því þó fyrir mér hvort sá baggi muni nokkurn tíma að fullu koma í ljós vegna þess að þessar framkvæmdir í tengslum við virkjunina verða huldar. Það verður reynt að hylja þær og dylja þær.

Áður en ég hverf aðeins frá efnahagssérfræðingunum langar mig til að vitna í ágætan pistil eftir Sigurð Jóhannesson hagfræðing. Hann segir hér í Fréttaheimi, heimur.is, sem er vefrit sem hann ásamt fleirum gefur út, ef ég þekki það rétt. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,En stundum er erfitt að sjá góð rök fyrir hógværðinni. Gott dæmi um það var þegar enginn starfsmaður bankanna treysti sér til að svara fyrirspurn Viðskiptablaðs Morgunblaðsins um það hvort arðsemi Kárahnjúkavirkjunar væri nægileg. Starfsmenn greiningadeilda hafa hingað til verið ófeimnir við að láta í ljós skoðanir sínar á íslenskum fyrirtækjum og arðsemi þeirra.``

Þetta er góð tilvitnun, enda er Sigurður Jóhannesson mjög glöggur maður sem hefur haft hugrekki til að bera til að setja mál sitt fram löngu áður en aðrir komu þar einnig til sögunnar. Hann var hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins. Hann er hættur þar og kominn til háskólans. Hann hefur fylgt hægri skoðunum í stjórnmálum og sama má segja um margra aðra.

Ég held að Þorsteinn Siglaugsson verði ekki skilgreindur sem vinstri maður. Ég held að hann sé meira að segja flokksbundinn sjálfstæðismaður eða hafi verið það. Þannig mætti telja fleiri til og síðan má horfa til vinstrisinnaðra hagfræðinga sem að þessu leyti tala einum rómi, einu máli. (HBl: Það er alltaf spurning hvað er nóg. Hvað nægir, hvað er nóg.) Já, en það sem ég hef áhyggjur af er að menn skuli ekki treysta sér til að tjá sig um málið, einnig þeir sem hafa verið að reyna að setja sig inn í þessi efni.

Það sem ég hef verið að horfa til er hvað hendir menn sem eru settir í nefnd á vegum hæstv. iðnrh. Um leið og þeir eru komnir í nefnd á vegum hæstv. iðnrh. er eins og dómgreindin fari sína leið. Mér finnst það áhyggjuefni. (Iðnrh.: Væri gott að setja alla hina í nefnd?) Það væri afskaplega gott að gera það. Ég get upplýst hæstv. ráðherra um að ég hef setið í nefnd. Ég hef setið í efh.- og viðskn. þingsins. Ég hef óskað eftir upplýsingum um málið þar sem hæstv. ráðherra meinar mér um. En þær þarf ég að fá til að ég geti rætt um þessi mál af einhverju viti. Ég hef leitað upplýsinga og aðfanga víða, m.a. hjá þessum hagfræðingum sem ég nefndi og mörgum öðrum. Í nál. mínu, ef menn vilja kynna sér það, er að finna fylgigögn frá ýmsum aðilum, frá Sigurði Jóhannessyni, Þorsteini Siglaugssyni, Sveini Aðalsteinssyni og Friðriki Má Baldurssyni, sem skrifaði einu sinn ágæta grein um náttúru, stóriðju og nýskipan raforkumála. Ég hafði vonast til að hann héldi sínum gagnrýna tóni þegar hann var síðan kominn í svokallaða eigendanefnd sem átti að fjalla um arðsemi eða áhættu sem eigendurnir væru að taka.

Við skulum ekki gleyma því að deilurnar sem urðu úti í Ráðhúsi á sínum tíma fjölluðu ekki um hvort arðsemi yrði af þessari framkvæmd, þær fjölluðu ekkert um það. Þær fjölluðu um hvort bókhaldslegt tap yrði, ekki hversu mikil arðsemin væri heldur hvort bókhaldslegt tap yrði þannig að eigendur Landsvirkjunar þyrftu að greiða með framkvæmdinni. Þeir héldu að við mundum sennilega sleppa fyrir horn, þyrftum ekki að borga með þessu. Þá sem lásu skýrsluna rak engu að síður í rogastans þegar í ljós kom að innihaldið var ekki í nokkru samræmi við niðurstöðu skýrslunnar, að ekki þyrfti að fara nema 30% fram úr áætluninni til að tap yrði á framkvæmdinni.

[16:45]

Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra þó að það væri náttúrlega ástæða til að hafa um þetta mjög mörg orð. Það hafa komið fram ýmsir efnahagssérfræðingar og tjáð sig um þetta mál og verið nokkuð brattir með sig, þar á meðal fulltrúar Seðlabanka og fjmrn. og slíkir aðilar. Þeir komu líka á fund efh.- og viðskn. En þegar farið var síðan að spyrja nánar út í forsendur þeirra og hvað það væri sem þeir væru að leggja blessun sína yfir reyndist tónninn nokkuð holur. Þeir sögðust telja að það mætti ætla að efnahagskerfið með hliðarráðstöfunum mundi ráða við framkvæmdina --- það sagði Seðlabankinn --- þetta mundi ekki riða til falls. Svo var farið að spyrja: En hvað með hin miklu deilumál sem geisað hafa í þjóðfélaginu um arðsemi framkvæmdarinnar og hversu góð hún er og skynsamleg? Nei, við höfum ekki tekið neina ákvörðun eða neina afstöðu til þess, við höfum ekki skoðað það, sögðu þeir. Við gætum eins verið að reisa pýramída á Sprengisandi. Menn eru bara að tala um umfang framkvæmdanna, um peningamagnið, ekki um gildi þessara framkvæmda. Og þegar grannt er skoðað eru allar umsagnir um málið af þessum toga.

Einhvern tíma sá ég umsögn frá Orkustofnun um hvað þetta væri frábærlega vel unnið af hálfu Landsvirkjunar. Svo var farið að skoða málið. Þá var aftur byggt á Sumitomo, bankanum sem á að fjármagna þessa framkvæmd að hluta til. Aldrei fór nokkur aðili í sjálfar forsendurnar, enginn sem fór í þær.

Eða hafa menn í alvöru velt vöngum yfir því hvort það sé eðlilegt sem gerðist hér rétt fyrir jólin, þegar tilboð voru opnuð í göngin og stífluna og þau fyrirtæki skandinavísku sem höfðu ætlað að bjóða í féllu flest frá? En Ítalirnir komu, Impregilo, þessir vinir Berlusconis voru skyndilega mættir á svæðið með tilboð, báðu að vísu um að því yrði frestað, aftur og ítrekað báðu þeir um frest á að tilboðin yrðu opnuð. En áður en þau voru opnuð komu fulltrúar Landsvirkjunar fram á sjónarsviðið og lýstu því yfir í fjölmiðlum hvað þetta ætti að kosta, hver tilkostnaðurinn yrði. Þeir skýra frá því opinberlega áður en tilboðin eru opnuð. Og viti menn, Impregilo var undir kostnaðaráætlun Landsvirkjunar og fékk tilboðið. Það var klappað mikið, að því er ég hef heyrt.

Vitið þið hverjir klöppuðu hæst? Það var sú deild í Impregilo sem þeir binda mestar vonir við. Það eru áhættumatssérfræðingarnir. Það eru þeir sem vita að í svona framkvæmd sem þetta fyrirtæki hefur sérhæft sig í er mest út úr því að hafa að gera út á óvissu. Og nú verða fluttir herskarar til landsins frá Impregilo sem munu finna veilur í framkvæmdinni til að gera viðbótarkröfur. Þetta er ekkert nýtt. Þetta þekkja menn úr framkvæmdalífinu, verktakastarfsemi, að við slíkt hækka framkvæmdir í kostnaði. Þetta þekkja menn.

Seðlabankinn, áður en ég skil alveg við hann, sagði sem sagt: Við erum ekkert að taka afstöðu til þess hvort þetta er skynsamlegt eða ekki. Við erum aðeins að skoða hvort þjóðfélagið, efnahagskerfið, springur, ekkert að ræða það hvort þetta sé skynsamleg ráðstöfun eða ekki. Við erum ekkert að taka afstöðu til þeirra deilumála sem hafa verið uppi í þjóðfélaginu. Og jafnvel varðandi áhrifin erum við komnir núna út fyrir okkar reynsluheim. Þetta er svona puttinn upp í loftið, líkt eins og þegar Perlan var byggð á sínum tíma. Þetta eru vísindin sem þarna liggja að baki.

Í þriðja lagi, og það finnst mér vera ámælisverðast, hefur engin tilraun verið gerð til að leggja mat á ,,vinnsluvirði`` sem hagfræðingar kalla, vinnsluvirði þessara framkvæmda. Þar munu þeir eiga við það hverju þetta skilar inn í þjóðarbúið þegar upp er staðið. Formaður Framsfl. hefur verið óþreytandi í því að segja okkur hverju þetta skili í gjaldeyrissköpun, við fáum svo mikinn gjaldeyri fyrir álið. En hann hefur aldrei gert grein fyrir því hvað hann telji að sitji eftir í efnahagslífinu, hvað komi til ráðstöfunar á Íslandi, annaðhvort í formi skatta eða raforkunnar. Það er væntanlega þetta tvennt, raforkan og skattarnir sem ættu að skila einhverju inn í þjóðfélagið. Hann hefur aldrei gert grein fyrir því hvað situr eftir í þjóðfélaginu. Og er þá ekki saman að jafna framleiðslu sem er á eignarhaldi útlendinga eða atvinnustarfsemi sem er í höndum Íslendinga, eins og íslenskur sjávarútvegur þótt hann sé farinn að senda milljarða, jafnvel milljarðatugi, úr landi. Það er döpur saga. Þá á það við um Alcoa að allur arðurinn verður tekinn út. Og hver er skattlagningin á hann? Það eru 5%. Samkvæmt tvísköttunarsamningi mun það vera svo. Þegar hagnaðurinn er hins vegar kominn til Bandaríkjanna er hann skattlagður um 35%, þegar hann er kominn frá frumframleiðslulandinu yfir í móðurlandið er þessi hagnaður skattlagður um 35%.

Hins vegar hef ég efasemdir um að til þess komi, einfaldlega vegna þess að fyrirtæki á borð við Alcoa, auðhringir af þessu tagi hafa lag á því að skipuleggja sig þannig að um mörg dótturfyrirtæki er að ræða sem veita síðan hvert öðru lán. Þannig eru fjármunir, hagnaður, færðir á milli í formi vaxta og koma ekki til skattgreiðslu, þetta er allt bara kostnaður í atvinnustarfseminni. Það er þess vegna sem við höfum gert sérstaklega athugasemdir við 11. lið 6. gr. frv. um skattlagningu sem lýtur að frádrætti vaxtakostnaðar.

Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ákvæði laga nr. 75/1981, með áorðnum breytingum, um frádrátt vaxtakostnaðar, svo sem þau eru við undirritun samninganna, skulu haldast óbreytt á upphaflegum gildistíma samningsins.``

Við vitum sem er að þetta er tæki sem þessi fyrirtæki nota til þess að koma fjármagni undan.

Ég er búinn að fara hér áður rækilega yfir þessi efnahagslegu áhrif og mótvægisaðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til, m.a. hækkun skatta. Ég hef ekki vikið að niðurskurði á opinberum framkvæmdum. Þar talaði Seðlabankinn eða fulltrúar hans af alveg ótrúlegu ábyrgðarleysi í efh.- og viðskn. Þeir töluðu um það eins og ekkert væri ef svo kynni að fara að þörf yrði á að færa niður eða draga úr opinberum framkvæmdum um 20%. Þetta væri bara frestun, sögðu þeir, 20%. Svo er spurt: Hvað eru menn að tala um? Eru menn að tala um sjúkrahús eða skóla, vegagerð, hvað eru menn að tala um? Úr hverju á að draga? Engin svör, ekki frekar en um vinnsluvirðið. Það er ekki búið að skoða þetta.

Það er ekki búið að skoða heldur skattlagningu, hvernig henni er háttað í ríkjum sem hýsa þessi álfyrirtæki, ríkjum sem álfyrirtækin eru núna að flýja. Alcoa er að loka álfyrirtækjum í Bandaríkjunum, núna nýlega í Texas. Hvers vegna? Þeir fundu Finn Ingólfsson. Þeir fundu Framsfl. á Íslandi. Þeir urðu fyrir því happi að finna Framsfl. á Íslandi sem var staðráðinn í því að fullnægja kosningaloforðum sínum hvað sem það kostaði, á kostnað íslenskra skattgreiðenda, á kostnað velferðarkerfisins á Íslandi. Svo leyfa þeir sér að tala um þessi fyrirtæki sem hornstein íslenska velferðarkerfisins og að um það ríki þjóðarsátt. Svona var talað á flokksþingi Framsfl.

Hv. þm. Magnús Stefánsson, var það þetta sem þið voruð að segja í sjónvarpsauglýsingunum þar sem þið komið fram núna brosandi? Voruð þið að tala um niðurgreiðslurnar til Alcoa, á hvern hátt þið hafið lagt þennan bandaríska álrisa í bómull, sett hann undir handarjaðar íslenskra skattgreiðenda? Var þetta svona skemmtilegt?

Að sjálfsögðu, segir hæstv. iðnrh., ætluðum við að fullnægja þessu kosningaloforði hvað sem það kostar. Hvað sem það kostaði skyldi það gert.

Þetta er hið óhuggulega í stöðunni, þegar menn setja sér pólitísk markmið og víkja síðan öllum staðreyndum máls til hliðar. Allt sem er óþægilegt er tekið burt. Það var einmitt þetta sem gerðist í útboðunum hjá Impregilo, svo ég botni þá sögu, þeir komu með tilboð og það var fagnað í heimalandinu, mjög, og Landsvirkjun færði síðan niður kostnaðaráætlun sína. Og viti menn, arðsemin varð enn þá meiri í umræðum í þingsal, enn þá meiri en nokkru sinni fyrr. Þetta kostaði allt miklu minna en áður hafði verið talið. Þetta eru vísindin, þetta er umræðan. Þetta er umræðan sem byggt er á. Þetta eru ekki fagmannlegri vinnubrögð en svo.

Menn hafa tjáð sig með ýmsum blæbrigðum. Samfylkingin segir í minnihlutaáliti sínu að þetta sé einstakt tækifæri til byggðarannsókna, alveg einstakt tækifæri til byggðarannsókna.

Ég skal bara lesa þetta orðrétt upp, hæstv. forseti.

(Forseti (GuðjG): Með leyfi forseta.)

Með leyfi forseta:

,,Auk þess sem rannsókn af þessu tagi gæti leitt til skynsamlegra mótvægisaðgerða gefst hér einstakt tækifæri til byggðarannsókna.``

Herra forseti. Mér finnst alveg sjálfsagt að við fylgjumst með því sem er að gerast í landinu. En að gera heilan landshluta að tilraunabúi á þennan hátt er náttúrlega fullkomlega óábyrgt.

En hvað viljum við þá gera? (Gripið fram í: Er Samfylkingin óábyrg?) Já, þetta er óábyrgt af hálfu Samfylkingarinnar sem hefur skipað sér í sveit Kárahnjúkaflokkanna. Það er aðeins Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sem stendur hér í fæturna. Og ekki bara varðandi vörnina í þágu umhverfissjónarmiða heldur einnig varðandi atvinnustefnuna. Og það var þetta sem ég ætlaði að koma inn á hér að lokum: Hvað viljum við þá gera?

[17:00]

Við viljum efla almannaþjónustu, stoðkerfi samfélagsins, samgöngur, skóla, sjúkrahús, allt þetta sem ríkisstjórnin er að herða að, einkavæða, loka og draga úr, við viljum auka innspýtinguna í þetta, gera þessa grunnþjónustu samfélagsins enn þá styrkari, sem kemur landsbyggðinni einmitt mjög að notum. Síðan viljum við skapa heimilum og atvinnurekstri ákjósanlegri skilyrði. Hvernig? Ég nefndi eitt dæmi, færa niður raforkuverð. Halda menn að það mundi ekki gagnast fyrirtækjum og heimilum? Ég held það. Það mundi gera það. En þessi ráðstöfun ríkisstjórnarinnar er líkleg til að færa þetta verð upp. Alla vega hefðum við ekki notið ávinnings af þeirri lækkun sem er fyrirsjáanleg og fjármálastjóri Landsvirkjunar hefur staðfest að gæti orðið á um 15 árum að þeirra mati, ef ekki yrði ráðist í þessar framkvæmdir.

Við teljum að fara eigi aðrar leiðir til að styðja við bakið á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þar megi skoða skattalegar ívilnanir. Við erum með tillögur þar að lútandi sem voru samþykktar á flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs núna nýlega, og við höfum lagt áherslu á að fjárfesta í menntun.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð var með mjög athyglisverða atvinnumálastefnu fyrir fáeinum vikum, ég held að það hafi verið um mánaðamótin janúar/febrúar. Þá komu fulltrúar atvinnufyrirtækja víðs vegar að, bæði úr atvinnulífinu og alls staðar að af landinu. Þetta var mjög fróðleg umræða. Þar var m.a. rætt um nýjungar í íslensku atvinnulífi á síðustu áratugum og hvaða aðstæður skiptu þar máli. Menn sögðu að þegar stofnað hefði verið til tilraunaverkefna eða fjármagn sett í nýjar greinar þá hefði eitt skipt sköpum, þekkingin. Ef hún hefði ekki verið til staðar hefði verkefnið yfirleitt ekki gengið upp jafnvel þótt það hvíldi á skynsamlegum hugmyndum. Ef menn hefðu hins vegar fjárfest í þekkingu hefði það nær alltaf verið ávísun á árangur.

Mér fannst mjög athyglisvert að kynna mér rannsóknir eða kannanir sem Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur hefur gert á fjárfestingu í menntun annars vegar og í stóriðju hins vegar. Hann tók Háskólann á Akureyri sem dæmi. Rekstrarkostnaður Háskólans á Akureyri er árlega um 600 millj. kr. Þar starfa 150 manns en að starfi háskólans koma hins vegar miklu fleiri eða 536 menn á ári. Hann reiknar þetta líka á annan hátt og núvirðir rekstrarkostnað háskólans og ber saman fjárfestingu fyrir störfin þar og ef litið væri til alls mannaflans við háskólann værum við að tala um 36 millj. kr. en ef við litum aðeins til fastra starfsmanna værum við að tala um 80 millj. kr. Þetta er hann að bera saman við atvinnusköpun vegna stóriðjunnar sem er á bilinu 300--500 millj. kr. fyrir hvert starf. Hann reiknar reyndar með um 450 millj. kr. í útreikningum sínum en þetta er samanburðurinn.

Hann og hagfræðingar hafa verið að benda okkur á að á næstu tíu árum verðum við að skapa í landinu um 15 þúsund störf, svipað og gerst hefur undanfarin ár, í landinu hafa orðið til 1.500 störf á hverju ári og það þarf að sjálfsögðu að halda áfram. Hann og þessir hagfræðingar velta því fyrir sér hvaða leið sé vænlegust til þess, leið ríkisstjórnarinnar sem með nokkur hundruð milljörðum og fjárfestingu í hverju starfi upp á 300--500 milljónir ætlar að innleiða hér þungaiðnað og gera þungaiðnað að meira en þriðjungi efnahagsstarfseminnar í landinu. Það er draumurinn. Þannig verður það eftir fáein ár. Er þetta vænlegri leið eða hin að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífinu? Og það er í því samhengi sem við erum að vara við ruðningsáhrifunum af völdum hærri vaxta, niðurskurðar sem þungaiðnaðarstefnan hefur í för með sér. Þetta er í grófum dráttum það sem við höfum verið að benda á og höfum síðan kappkostað að leita leiða til að styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki og við höfum leitað til fyrirtækjanna sjálfra.

Á þeirri ráðstefnu sem við boðuðum til fengum við fulltrúa frá fyrirtækjum, Össuri, mörgum fyrirtækjum sem hafa gert það gott hér á undanförnum árum og eru sum hver orðin með starfsemi á heimsvísu, eins og Össur, svo dæmi sé tekið. En við leituðum einnig til annarra fyrirtækja um ráðleggingar, hvað við gætum gert til þess að skapa slíkum atvinnurekstri góð skilyrði. Þar höfum við verið núna að svara slíkum ábendingum með tillögum og við erum með hugmyndir um það að á fyrstu árum fyrirtækja verði skoðaður skattastuðningur og síðan teljum við að tryggja þurfi atvinnurekstri aðgang að fjármagni á eins lágum vöxtum og kostur er. Það megi einnig hugsa sér slíkan stuðning í formi hlutafjár en einnig hljótum við að skoða styrkveitingar af ýmsu tagi eins og tíðkuðust þegar við vorum með atvinnuvegasjóði sem voru einkavæddir sem kunnugt er í FBA og síðan skákað þaðan inn í Íslandsbanka. Og nú eru menn á nýjan leik farnir að tala um nauðsyn þess að efla Byggðastofnun sem lánastofnun eða jafnvel með styrkveitingum.

En þegar á heildina er litið þá erum við ekki að tala um styrki heldur fjármagn sem er tryggt á góðum, hagstæðum kjörum, því ef eitthvað er atvinnulífinu erfitt þá er það það sama og hrjáir heimilin, háir vextir. En þegar þeir eru ræddir hér í tengslum við þessar framkvæmdir segja menn: Þetta kemur okkur ekki við, þetta gerist eftir nokkur ár, þetta er ekki á okkar ábyrgð, það kemur ný ríkisstjórn o.s.frv., og dreg ég þar saman ummæli hæstv. forsrh. sem sagðist ekki þurfa að svara mér um gengið, vaxtamálin og niðurskurðinn því það kæmi í hlut þess forsrh. sem sæti hér eftir fimm ár. Þetta var ábyrgðarlaust.

Að lokum þetta, herra forseti: Við höfum lagt fram till. til þál. um þjóðaratkvæðagreiðslu um byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla, þjóðaratkvæðagreiðsla, samhliða kosningum til Alþingis 10. maí nk. um hvort ráðist skuli í byggingu Kárahnjúkavirkjunar eða ekki. Alþingi felur ríkisstjórninni að gera nauðsynlegar ráðstafanir og tilkynna viðkomandi aðilum að ekki skuli hafist handa um framkvæmdir fyrr en að fengnu samþykki meiri hluta kjósenda en horfið frá þeim ella ef meiri hluti kjósenda reynist þeim andvígur. Alþingi felur dómsmálaráðherra að undirbúa og kynna kosninguna, þ.m.t. að tryggja að unnt verði að greiða atkvæði um málið í kosningum utan kjörfundar.``

Þetta er tillaga Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Hún kemur til atkvæða á Alþingi á morgun.