Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 17:09:36 (4339)

2003-03-04 17:09:36# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[17:09]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var mikil ræða og hvílík sýn sem hv. þm. hefur á umheiminn. Ég vona að sem flestir hafi hlustað á ræðuna.

Þetta er reyndar umræða um álver og stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi en ekki um Kárahnjúkavirkjun þó að umræðan snerist nú nokkuð um þá framkvæmd hjá hv. þm. Staðreyndin er sú að Alþingi hefur heimilað iðnrh. að fara í þá framkvæmd með 44 atkvæðum gegn 9, og þess vegna er það of seint núna að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er ekkert á móti þjóðaratkvæðagreiðslum. Við Íslendingar erum reyndar ekki með þá hefð að stunda þær mikið, en ég get ekkert annað sagt en að ég er ekki á móti þeim. En mér fannst hv. þm. líta svo á að allir þeir sem vildu þjóðaratkvæðagreiðslu væru á móti þessum framkvæmdum en það er ekki þar með sagt að svo sé.

Kárahnjúkavirkjun skilar eigendum sínum 12,8% arði og hún mun borga sig upp á 30 árum. Og þegar hv. þm. talar um óafturkræf spjöll á náttúru landsins þá er það nú einu sinni svo með allar þær virkjanaframkvæmdir sem hafa farið fram á Íslandi að þær hafa óafturkræf spjöll á náttúru landsins, þannig að ég skil það svo að hv. þm. sé þá á móti öllum virkjunumm á Íslandi og hann vilji þá fara aftur inn í torfkofana væntanlega.

Hann talar um Alcoa sem álrisa og að Alcoa brjóti á verkafólki. Ég kom í álver Alcoa í Quebec í Kanada fyrir stuttu og ég dáist að framkomu þessa fyrirtækis gagnvart verkafólki. Það var virkileg upplifun að sjá hvað þar er staðið vel að verki.

Þegar hv. þm. talar um þungaiðnaðarstefnu þá er það þannig að Framsfl. vill fjölbreytni í atvinnulífinu og vinnur á þeim nótum.