Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 17:16:08 (4342)

2003-03-04 17:16:08# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[17:16]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra lýsir þessu sambandi við Alcoa sem tilhugalífi. Það er innan við ár, hugsið ykkur, frá því að þetta ,,samband`` hófst. Og Alcoa er svo hamingjusamt að koma hingað til Íslands. Þetta fyrirtæki kom hingað, skoðaði og er reiðubúið að fjárfesta.

Staðreyndin er sú að Finnur Ingólfsson, þáverandi varaformaður Framsfl., var gerður út til að ná í þetta fyrirtæki sem tók þessu kostaboði himinlifandi. Og hvað gerði það þegar það fann þennan aðila, Íslendinga, íslensku ríkisstjórnina, Framsfl. sem er reiðubúinn að selja hér rafmagn á niðurgreiddu verði? Drifu í því að loka verksmiðjum heima fyrir þar sem rafmagnið er miklu dýrara. Það er verið að loka álverksmiðjum í Bandaríkjunum. Þeir tóku þessu kostaboði náttúrlega himinlifandi.

Varðandi kostnaðinn og hver er að fjárfesta, hvað var eigendanefnd Landsvirkjunar að gera? Hún var að tala um ábyrgð og áhættu af íslensku fjármagni, af íslenskum fjárfestingum. Var það ekki það sem málið snerist um? Ég hefði haldið það. Og er það ekki það sem umræðan hér stendur um? Fjárfestingar Íslendinga í raforkuveri til þess að geta selt þessu fyrirtæki rafmagn, afurð virkjunarinnar. Við erum að tala um fjárhagslega afkomu þessa ævintýris, um það snýst þessi umræða.

Að sjálfsögðu er Kárahnjúkavirkjun og álverið eitt og hið sama. Það er alveg rétt að við erum að tala um álverið hérna núna en Kárahnjúkavirkjun er reist til þess eins að knýja þetta álver. Þetta er mótor álverksmiðjunnar þannig að þetta hangir að sjálfsögðu saman.

Atvinnumálastefna Framsfl. byggir samkvæmt þeirra eigin yfirlýsingum á stóriðju. Það er draumurinn og það er markmið að álframleiðsla verði yfir þriðjungur af efnahagsstarfsemi þjóðarinnar. Að því er stefnt.