Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 17:18:25 (4343)

2003-03-04 17:18:25# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[17:18]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem umræðan um þessi mál hefur leitt rækilega í ljós er að efnahagslíf okkar ræður mjög vel við þau áhrif sem verða af fjárfestingu í stóriðjunni á Austfjörðum.

Menn hafa verið að ýkja þessi áhrif, menn hafa verið að gefa sér að þetta mundi þýða það að hér mundu rjúka upp vextir, rjúka upp gengi, það yrði að skera niður opinberar framkvæmdir o.s.frv. (Gripið fram í: Það er bara þannig.)

Það liggur alveg fyrir að efnahagslíf okkar, að mati allra þeirra sem hafa verið að skoða þessi mál út í hörgul, ræður ákaflega vel við að bregðast við þessu. Og auðvitað er það þannig að fjárfesting af þessari stærðargráðu hefur áhrif á efnahagslífið, og það er henni einmitt ætlað að gera. Henni er að sjálfsögðu ætlað að hafa áhrif á efnahagslífið, auka hér þjóðarframleiðslu og bæta lífskjör. En það er hins vegar ljóst mál að fjárfesting erlendra aðila af þessari stærðargráðu hreyfir auðvitað við efnahagslífinu til einhvers tíma og við verðum að haga hagstjórn okkar öðruvísi við þær aðstæður en þegar slegið hefur í bakseglin eins og núna.

Við getum auðvitað gert það með ýmsum hætti. Það er hægt að gera það með gengisáhrifum, með ríkisfjármálaaðgerðum og með peningamálaaðgerðum, og það liggur auðvitað alveg ljóst fyrir að þessi mikla breyting núna á genginu, þessi mikla hækkun á raungengi íslensku krónunnar, gerir það að verkum að þörfin á því að bregðast við á ríkisfjármálahliðinni eða með vaxtabreytingum verður sem þessu nemur minni. Hins vegar tel ég alveg óskiljanlegt hvernig markaðurinn hefur brugðist við, sé það þannig að menn eru að bregðast við tíðindunum af stóriðjunni. Það er í mínum huga algjörlega óskiljanlegt þegar það liggur fyrir að áhrifin af fjárfestingunni verða ekki fyrr en á árinu 2005, og 2006 einkanlega, og þá er það mjög sérkennilegt að markaðurinn skuli vera að bregðast þannig við núna varðandi gengið eins og gerst hefur. Það eru fyrst og fremst ýkjukennd viðbrögð, sérkennileg ýkjukennd viðbrögð sem þó munu hafa það í för með sér að það verður minni þörf á því að beita peningamálaaðgerðum og minni þörf á því að beita aðgerðum í ríkisfjármálum.