Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 18:23:59 (4348)

2003-03-04 18:23:59# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, Frsm. 2. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[18:23]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Hér fer fram 3. umr. um þetta mál og ég vil segja, áður en ég hef mál mitt, að það er ömurleg staðreynd að hér eru bara þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem taka þátt í umræðunni um þetta mál í dag. Þó að þetta sé stærsta mál Íslandssögunnar hvað varðar náttúruspjöll og efnahagslegt umfang er reyndin engu að síður þessi.

Virðulegi forseti. Allur aðdragandi þessa máls um byggingu álvers í Reyðarfirði er umhugsunarverður. Það eru ekki nema þrjú ár síðan þau sjónarmið voru uppi hjá Landsvirkjun að það kæmi ekki til greina að Landsvirkjun ein mundi virkja fyrir austan til að selja einum aðila rafmagn til álframleiðslu. Þegar ég tók sæti á Alþingi fyrir hartnær fjórum árum var rætt um það í hv. iðnn. að slíkt fyrirtæki yrði að vera sjálfstæð eining. Forsvarsmenn Landsvirkjunar töluðu þá um að þeir yrðu í besta falli hluthafar í slíku fyrirtæki, sem væntanlega mundi virkja fyrir austan. Við vitum að í aðdraganda þessa máls hefur allt gjörbreyst vegna þess að dæmið gekk ekki upp í sjálfstæðu fyrirtæki. Þess vegna var Landsvirkjun knúin til þess með pólitísku valdi, ekki út úr arðsvon, að fara í þetta verkefni fyrir austan, þ.e. að byggja Kárahnjúkavirkjun og gera mögulegt að selja rafmagn frá henni til álvers í Reyðarfirði þar sem framleiðslugeta á að vera, ef af verður, 322 þús. tonn af áli á ári og raforkunotkun 14.600 kwst. á tonn af áli.

Áætlað er að þetta álver taki til starfa í Reyðarfirði innan fárra ára. Það hefur legið mikið á að koma þessu máli í gegn. Hæstv. iðnrh. sagði áðan í andsvari að það væri aðdáunarvert að þetta verkefni skyldi komast á koppinn á aðeins einu ári.

Það er hins vegar ekki aðdáunarvert í ljósi þess hvernig staðið er að málum. Við erum að beita ríkis- og bæjarfyrirtækinu Landsvirkjun með handafli til að ná til okkar þessu iðjuveri. Það er ekki þannig að menn komi hingað til landsins og athugi möguleikana vegna áhuga á því að reisa hér álbræðslu. Við fórum út til að ná í aðila til að koma hingað og skoða þetta verkefni. Fyrrv. hv. þm., Finnur Ingólfsson, var sendur út af örkinni þegar Norsk Hydro gekk úr skaftinu og það var gengið í að fá Alcoa til að koma til viðræðna. Það var gert af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þetta vitum við öll. Þetta er alls ekki sú leið sem við eigum að fara vegna þess að það er vitað mál, hefur margkomið fram í umræðunni hér, að það vantar stórlega upp á allar grunnrannsóknir í landinu til að fara út í slíkar framkvæmdir. Rannsóknirnar sem fyrir liggja voru gerðar í miklu írafári eftir að Landsvirkjun ákvað að fara í þetta verkefni og var eiginlega á flótta undan verkefninu við að gera allra nauðsynlegustu umhverfisrannsóknir sem ekki voru fullkláraðar á þessu svæði.

Við stöndum líka frammi fyrir því að við erum alls ekki búin að leggja niður fyrir okkur rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Hvernig eigum við að fara með þessa auðlind? Nefndin sem um það fjallar er að störfum og hún hefur ekki skilað af sér. Það hefur engin afstaða verið tekin til þess hvernig við förum í þessi mál. Nú liggja hins vegar á borðinu áform, ekki bara um þetta álver í Reyðarfirði, heldur áform um stækkun í Straumsvík og á Grundartanga sem leiðir af sér gríðarlega orkuþörf. Þar þarf víða að huga að.

Þeir vinna að þessum málum af krafti, virkjanasinnar og stóriðjusinnar, og leita fyrir sér að virkjanakostum til að uppfylla drauma sína um aukna stóriðju í landinu. Við stöndum frammi fyrir þessari köldu staðreynd, að við erum að tvöfalda orkuframleiðsluna í landinu bara með þessari einu virkjun fyrir austan. Hér er um að ræða ríflega fjórar Blönduvirkjanir, miðað við aflið, og gríðarlega stórt og mikið verkefni sem leiðir af sér mikil náttúruspjöll.

[18:30]

Þetta er að mínu mati alröng aðferðafræði til að nálgast það hvernig við ætlum að nýta landið. Í fyrsta lagi þurfa grunnrannsóknirnar að liggja fyrir og í öðru lagi þarf að liggja fyrir þjóðarsátt um það hvað af þessum auðlindum við ætlum að nýta og getum sæst á að nýta. Við getum ekki sæst á það að hér vinni ríkisstjórnin með þeim hætti að menn skelli sér bara á magann og láti svo ráðast hvernig fer. Við vitum vel að nákvæmlega það sama mun gerast varðandi þetta verkefni og á Þjórsársvæðinu, fyrirtækið Landsvirkjun mun sækjast eftir því að fá meira afl fyrir austan enda benda nýjustu fréttir til þess, með útvíkkun ganganna um 40 sm, að villtustu draumar manna séu þeir að fara lengra vestur og ná í meira vatn. Og þessa aðferðafræði þekkjum við frá Þjórsársvæðinu þar sem menn vildu komast inn í Þjórsárver og eyðileggja þau í áformum sínum um að ná auknu afli út úr Búrfellsvirkjunum. Þetta eru staðreyndir sem ekki verður vikist undan að horfast í augu við.

Slík vinnubrögð eru afleiðing þess að ekki er búið að grunnkortleggja svæðið og það er ekki búið að gera rammaáætlun um nýtingu vatnsaflsins og jarðvarmans í landinu. Þá fara menn um víðan völl og leita fyrir sér hvar þeir geta hugsanlega borið niður til þess að virkja. Þetta eru handarbakavinnubrögð og við getum ekki verið þekkt fyrir að ástunda þau með þeim hætti sem hér er verið að gera.

Þessi nýja staða með Landsvirkjun sem virkjunaraðila og söluaðila á rafmagni til álvers við Reyðarfjörð er gríðarlega mikið áhyggjuefni, sérstaklega fyrir landsbyggðina. Með eðlilegri aukningu á rafmagnsnotkun í landinu er staðan þannig hjá Landsvirkjun, að bestu manna yfirsýn, að hún yrði að mestu leyti skuldlaus á 15 árum. Eignaraðilar að Landsvirkjun eru Reykjavíkurborg og Akureyrarbær og síðan ríkið á móti, og þeir Íslendingar sem búa í þessum sveitarfélögum, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, njóta eignarhaldsins í Landsvirkjun í mun lægra orkuverði, þ.e. í rafmagnsverði, heldur en aðrir landsmenn. Á Akureyri og höfuðborgarsvæðinu er rafmagnið mjög ódýrt. Þegar Landsvirkjun var stofnuð --- hún er stofnuð til þess að fóðra stóriðjuna í landinu --- var ríkisfyrirtækið Rarik skilið eftir sem sá aðili sem skyldi sjá landsbyggðinni fyrir rafmagni. Við stofnun Landsvirkjunar voru hér um bil öll framleiðslufyrirtæki tekin undan Rafmagnsveitum ríkisins. Og staðan er þannig í dag að Rafmagnsveitur ríkisins framleiða einvörðungu um 7% af því afli sem sett er inn á línur Rafmagnsveitna ríkisins. Í svo stóru landi sem Ísland er eru gríðarlega mikil svæði upp til dala og út um strandir sem við köllum hinn félagslega þátt rafmagnsdreifingarinnar, þátt sem aðrir þurfa að borga. Uppsetning rafmagnskerfisins í landinu hefur þannig leitt til þess að það eru þéttbýlissveitarfélögin á landsbyggðinni ein og sér, notendurnir þar, sem borga niður í hækkuðu orkuverði dreifingu á rafmagni til óarðbærra hluta dreifiveitukerfis Rafmagnsveitna ríkisins.

Það er mat mjög margra sem leggja niður fyrir sér og spá í hagfræðileg áhrif Kárahnjúkavirkjunar að þegar upp verður staðið hefði verið miklu ábatasamara fyrir íslenskt þjóðfélag að standa frammi fyrir því að Landsvirkjun yrði hér um bil skuldlaus og möguleikar á að stórlækka orkuverð til notenda, bæði til iðnaðarins og til heimilanna.

Rafmagnsveitur ríkisins kaupa stóran hluta af orku sinni, eins og ég nefndi áðan, að undanskildum 7%, frá Landsvirkjun dýrum dómum, u.þ.b. 3,20 kr. á kwst. Rafmagnsverð á öllum þéttbýlisstöðum úti um sveitir, og þar með náttúrlega til heimila og iðnaðar, er gríðarlega hátt í samanburði við önnur lönd, hátt úti um allt land, sérstaklega á veitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins. Það er skammarlegt fyrir þjóð sem hefur svo mikla möguleika á því að framleiða ódýra orku að við skulum ekki nýta þessa stöðu til þess að hygla iðnaðarframleiðslu okkar og heimilunum úti um landið allt til þess að efnast og njóta aukins ábata. En því fer fjarri. Algengt rafmagnsverð úti á landsbyggðinni er frá 6 kr. kwst. og upp að 10 kr., og jafnvel upp í 12 kr. á álagspunktum.

Sú staðreynd að ekki er hægt að fara út í Kárahnjúkavirkjun öðruvísi en að Reykjavíkurborg, Akureyrarbær og íslenska ríkið ábyrgist framkvæmdina sem eignaraðilar að Landsvirkjun gerir það að verkum að það verður gjörsamlega girt fyrir það að af þeirri lækkun sem annars var í sjónmáli með skuldlaust fyrirtæki eftir 15 ár geti orðið. Það er augljóst mál. Vegna þessarar ákvörðunar munum við því áfram búa við mjög hátt orkuverð úti um land. Og landsmenn vita, t.d. vegna umræðunnar um stöðu garðyrkjubænda, aðallega á Suðurlandi en þó einnig fyrir norðan, að rafmagnsnotkun þeirra til lýsingar var á engan hátt samkeppnisfær við það sem gerist í löndum eins og Danmörku og Hollandi. Þetta eru staðreyndir.

Þetta er einn angi af ruðningsáhrifum þessara framkvæmda, að framkvæmdin leiðir til þess annars staðar í samfélaginu að við missum hreinlega niður störf. Það er reyndar nú þegar farið að koma á daginn vegna þess að að mati færustu sérfræðinga eru væntingarnar vegna framkvæmdanna, innspýtingar á peningum, farnar að hafa þau áhrif að gengið helst mjög hátt, sem er þegar farið að valda verulegum vandræðum í grunnatvinnugreinum til útflutnings, eins og fiskiðnaði. Það berast sögur af því frá öllum landshornum að erfiðleikar séu að verða það miklir að menn eru að draga úr eða hætta framleiðslu, sérstaklega á aðkeyptu hráefni eins og í rækjuvinnslu. Hátt gengi er að verða til þess að það dregur úr möguleikum allra þessara fyrirtækja og það er auðvitað stórkostlegt áhyggjuefni vegna þess að þjóðin veit náttúrlega að sjávaraflinn og vinnsla hans gefur okkur um 50% af öllum okkar gjaldeyristekjum. Síðan verður önnur grein mjög fyrir barðinu á þessu, þ.e. ferðaþjónustan sem gerir sig í þjóðarbúskap okkar á milli 13 og 14%.

Þetta verkefni allt snýst að mjög miklu leyti um viðhorf til landsins og til lífsins. Þetta er að stórum hluta tilfinningamál og mér finnst fyrir mína parta að þeir aðilar sem knýja svona mál fram geri stórkostlega á minn hlut sem Íslendings og ég vil ekki gera lítið úr þeim þætti málsins. Við erum að leggja grunn hér að gríðarlegum náttúruspjöllum, sem sum okkar getum engan veginn sætt okkur við. Það særir stolt mitt sem Íslendings að við skulum ætla að vaða fram í blindni í verkefni eftir verkefni af þessu tagi, og það fær ekkert stöðvað. Menn skulu átta sig á því að komist menn upp með þetta halda þeir áfram. Eins gott að þeir komust ekki upp með að sökkva meira landi við Þjórsá.

Ég benti á það áðan að það boðar ekki gott að menn eru þegar, að því er virðist, farnir að gæla við að ná í meira vatn vestur á bóginn, úr Kreppu. Það boðar ekki gott að menn skuli jafnvel vera komnir það langt að víkka göngin til þess að eiga möguleikana á því að taka á móti þessu vatni. Geti menn þetta, hvað er þá orðið mönnum heilagt? Menn eru að leggja niður fyrir sér möguleikana á því að virkja Skaftá í gegnum Langasjó ef menn vilja meiri og stærri álver, það á ekki að vera neitt mál. Menn eru að velta fyrir sér jarðhitasvæðunum án þess að nokkur rammaáætlun liggi fyrir um hvernig menn ætla að nota þetta og hverju við ætlum að þyrma.

Staðreyndin er sú að skipulagslega séð högum við okkur á hálendinu eins og gert var varðandi byggingar í bæjum og þorpum fyrir, við skulum segja, 70--80 árum þar sem menn settu bara niður prik og sögðu: Hér ætla ég að byggja. Það eru engin plön, engin heildaráform. Þetta gengur ekki. Á sama tíma og menn vinna svona gengur á forðann sem talið er að við eigum í ónýttu vatnsafli og jarðvarma. Þegar þessi áform öll eru uppfyllt verðum við búin að virkja líklega um 2/3 eða meira af því sem talið er að hægt sé að gera með góðu móti í landinu.

Heildaryfirsýnin er heldur engin þegar maður lítur á línulagnir. Varðandi þetta verkefni og sölu á rafmagni austur í Reyðarfjörð til Alcoa er ein lína frá virkjunarvegg og niður í Reyðarfjörð. Það verður ekki ásættanleg lausn til lengri tíma litið. Það má ekkert út af bera. Enda berast núna fréttir af því að í framhaldinu innan örfárra ára verði uppi krafa um að byggja línu frá Kárahnjúkavirkjun yfir hálendið til tengingar niður á Þjórsársvæðið. Það mun verða krafa um það bara vegna öryggisþáttar við rekstur þessa stóra fyrirtækis. Það er ekki góður búskapur að taka af einum stút og hafa ekkert varaafl. Við ætlum aldrei að bera gæfu til þess í þessum stórverkefnum okkar á þessu sviði að leggja niður fyrir okkur heildarmynd, heldur er eitt skref tekið sem leiðir af sér annað skref sem þeir sem vildu taka fyrsta skrefið vildu innst inni ekki taka en neyðast samt til að gera.

[18:45]

Hugsið ykkur hver staðan var hér í sambandi við Þjórsárver. Það er alveg augljóst að ef enginn hefði andmælt því að það ætti að vaða yfir það svæði og búa til miðlunarlón hefði það verið gert. Engin spurning. Ég tel að það sé algerlega augljóst mál. Ég held að allir sem hafa fylgst með þessum málatilbúnaði átti sig á því að hefðum við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði ekki haldið uppi svo mikilli andstöðu hér í þinginu, hefðu gagnrýnisraddir okkar ekki verið svo sterkar, hefðu menn fórnað Þjórsárverum. Ég held að það sé alveg augljóst. (Iðnrh.: ... ekki bara framsóknarmenn?) Það er nefnilega þannig að hér á hinu háa Alþingi fer það í taugarnar á mönnum, sérstaklega stjórnarliðum. Hvað varðar þetta mál held ég að það fari í taugarnar á öllum þingheimi nema þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að það skuli yfir höfuð vera talin ástæða til að tala um þetta. Og svo stór mál sem hér eru á ferðinni, sem hæstv. iðnrh. hefur borið ábyrgð á, langflestum þessum málum, eru að mínu mati unnin á handahlaupum, eins og raforkulögin núna. Þeim er nánast hent inn og þau geta aldrei gengið nógu hratt fyrir sig. Staðreyndin er sú að skaplegri lausn varðandi friðun Þjórsárvera áfram framkallast bara af þeirri gagnrýni sem hefur komið fram í því máli. Við verðum að bera þroska til þess að virða nauðsynina á því að gagnrýna það sem verið er að gera.

Svo er annað sem ég held að þjóðin hafi bara yfirleitt ekkert hugsað út í, mengunin frá þessari væntanlegu álbræðslu ef af verður. Hún er svo gríðarleg að við komumst í röð mest mengandi þjóða í Evrópu. Staðreyndin er sú að við verðum farin að menga meira en allt norska samfélagið og allt danska samfélagið. Danska samfélagið er með 6 milljónir manna og framleiðir að stórum hluta orku sína með jarðefnaeldsneyti. Þetta er ótrúleg staða hjá okkur sem viljum byggja upp álbræðslusamfélag á grunni stefnu hæstv. ríkisstjórnar. Einhæfni í framleiðslu. Einhæfni í notkun auðlinda. Bara með þessu verki erum við komin með 80% af rafmagnsframleiðslunni til notkunar í álframleiðslu. Það er hættubúskapur með öll eggin í sömu körfu.

Ég ætla að vísu ekki að fara mikið út í efnahagslega þáttinn því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur gert honum skil. Þar eru menn bara alls ekkert á eitt sáttir um til hvers þetta flan leiðir, alls ekki. Og ég held að menn átti sig yfir höfuð ekki á því hve lítið má út af bera í svona stórframkvæmdum. Ef farið er yfir stórframkvæmdir af þessu tagi er algengt að þær fara tugi prósenta fram úr áætlunum, mjög algengt 30%, sum 50%. Það er til heil skýrsla um stórframkvæmdir í Evrópu þar sem menn byggja á reynslunni. Mönnum er hér alveg sama. Ef þetta verkefni fer fram úr eitthvað í líkingu við það sem menn hafa reynslu af erum við komin í mínus. Þá er orðið bókhaldslegt tap á þessu dæmi og þá er engin önnur leið út úr því öllu en að kýla tapið inn á þessa 20% notkun sem við Íslendingar erum í. Það verður þung byrði að bera, tugprósentahækkun á raforkuverði á landsmenn eða að öðrum kosti bein framlög ríkisins til Landsvirkjunar. Það er ekki hægt öðruvísi. Það kom berlega fram í samtölum við forstjóra Landsvirkjunar að þessar tvær leiðir væru færar, að hækka verðið á þessum notendum sem við erum og okkar iðnaður, 20 prósentin, eða þá að fara í bein ríkisframlög í verkefnið. Og menn eru tilbúnir að taka þessa áhættu eins og ekkert sé, fara í verkefni sem er keyrt fram pólitískt af ríkisstjórn vegna þess að menn telja að ríkisstjórnin sem slík eigi að vera í atvinnuuppbyggingu í þessu landi, helst með eigin höndum, slá upp og naglhreinsa á kvöldin, bara sjálf virðist vera. (Gripið fram í.)

Það er talað um að það verði að gera eitthvað til atvinnuuppbyggingar en við fengum nýverið í hendurnar, hv. þm., skýrslu þar sem sjávarútvegsgreinin setur fram hugmyndir sínar um virðisauka í sjávarútvegi upp á á annað hundrað milljónir á ári með vissum grunnaðgerðum. Þar er talið að bara fiskeldið og skeljaeldi geti gefið þjóðarbúinu innan örfárra ára 50--60 milljarða kr. Þessi áform með háu gengi sem afleiðingu og vaxtahækkun leiða til þess að slík þróunarstarfsemi í landinu á erfitt uppdráttar, verður miklu hægari ef nokkur. Eftir nýjustu fregnum að dæma úr sjávarútvegsgeira er líklegra að á næstu fimm árum verði um samdrátt að ræða en einhverja uppbyggingu. Það er eins og hæstv. ríkisstjórn átti sig ekki á því að við erum með vel menntaða þjóð sem sér gríðarlega möguleika á mörgum öðrum sviðum ef sá grunnur sem nauðsynlegur er er gefinn til þess að fara út í þau atvinnutækifæri. En það verður ekki gert með ofurháum vöxtum. Það verður ekki gert með of háu gengi. Við erum að velja hér og hafna með þessu verkefni. Og það er þetta sem málið snýst um.

Hvers vegna í ósköpunum getur hæstv. ríkisstjórn lagt fram gríðarlegan ríkisstyrk gagnvart einu fyrirtæki í formi alls konar fríðinda, en neitað allri annarri atvinnuuppbyggingu í landinu um slíkt hið sama? Skipasmíðaiðnaðinum var markvisst látið blæða út vegna þess að menn neituðu honum um sambærilegan bakstuðning og slíkur iðnaður fær í öllum öðrum löndum sem við keppum við. Hundruð starfa töpuðust víða um landið, á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði, Njarðvíkum, Hafnarfirði, Stykkishólmi. Magnaðar skipasmíðastöðvar sem höfðu alla burði til þess að þjóna íslenska flotanum ef þær hefðu fengið þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg var. Fyrirgreiðsla er bannorð á hinu háa Alþingi. En hvað er um að ræða varðandi þetta fyrirhugaða álver? Gríðarlegan bakstuðning og fyrirgreiðslu þar sem ríkisstjórnin vinnur markvisst að því að fella niður alls konar gjöld sem annar iðnaður þarf að borga. Þannig er niðurfelling á iðnaðargjaldi, markaðsgjaldi, fasteignasköttum, tekjusköttum, eignarsköttum, afdráttarskatti og stimpilgjöldum upp á 24,4 millj. dollara. Síðan er höfnin sérdæmi, sveitarsjóður Fjarðabyggðar og ríkissjóður byggja hana í sameiningu og hún kemur aldrei til með að geta staðið undir öðru en bara rekstrinum af því dæmi. Síðan er auðvitað ríkisábyrgðin í formi þess sem verið er að gera í sambandi við Landsvirkjun, sem er kannski stærsti ríkisstuðningurinn. Hvaða fyrirtæki á Íslandi hefði ekki öfluga möguleika á því að blómstra með slíkri fyrirgreiðslu eins og hér er verið að setja fram? Ríkisábyrgðum, niðurfellingu á öllum þessum opinberu gjöldum, að heita má, aðstöðu sem er byggð upp fyrir viðkomandi fyrirtæki. Ég held að blómin spryttu víða í formi fyrirtækja ef þetta væri regla sem gilti fyrir alla sem hefðu áhuga á því að fara í einhvers konar atvinnuuppbyggingu í þessu landi. Ég nefndi í minni fyrri ræðu við 2. umr. bara eitt dæmi, lúðueldið þar sem vísindamenn okkar eru fremstir í heiminum hvað það varðar að klekja og ala lúðuseiði. Þeir eru núna komnir upp í 300 þús. fiska framleiðslu, sem er 80% af heimsframleiðslunni. Langflest þessara seiða eru flutt til útlanda í áframeldi. Hvers vegna? Vegna þess að önnur lönd hér nálægt okkur veita þeim fyrirtækjum sem fara út í áframeldi stofnstyrki og niðurfellingu ýmissa gjalda meðan þau eru að koma sér fyrir. Þau kaupa lúðuseiðin og það er ekki hægt að keppa við það hér á landi. Bara á þessu sviði gæti orðið um gríðarlega verðmæta- og atvinnusköpun að ræða fyrir allt samfélagið, en við látum það lönd og leið vegna þess að við þurfum að vera svo stór og flott á því með eyðileggingu náttúrunnar, uppbyggingu orkuvera og iðjuvera fyrir hundruð milljarða króna. Minna getur það ekki verið.

Virðulegi forseti. Þau áform sem hér eru uppi munu ekki verða þjóðinni til framdráttar. Þau munu þvert á móti um langt árabil verða þess valdandi að við eigum minni möguleika í þessu samfélagi á að koma á laggirnar og þróa áfram margbreytilegt atvinnulíf í landinu öllu. Ruðnings\-áhrifin verða gríðarleg. Það er mat allra og það er synd og skömm að staðan skuli vera þannig að það er fyrst núna sem peningamennirnir, hagfræðingarnir, eru virkilega komnir af afli inn í þessa umræðu. Þeir hefðu auðvitað þurft að vera það fyrir mörgum missirum, en nú er búið að skrifa mikið í blöð og miklar lærðar greinar voru í Viðskiptablaðinu síðast núna um daginn. Að öllum líkindum er málið of langt rekið af hæstv. ríkisstjórn til þess að menn vilji bakka hvað sem tautar og raular.

Virðulegi forseti. Það mætti setja á langar ræður um þetta mál en angi þess er staða landsbyggðarinnar og nýtt frv. til raforkulaga sem einnig er til umfjöllunar í hv. iðnn. og kemur til kasta þingsins á allra næstu dögum. Ég nefndi stöðu landsbyggðarinnar í krafti þess að Rarik þjónar landsbyggðinni að langmestu leyti. Auðvitað er Orkubú Vestfjarða með Vestfirðina, en nú vill hæstv. ríkisstjórn afgreiða frv. til raforkulaga á þann hátt að viðkvæmustu málin varðandi raforkudreifinguna í landinu verða sett í salt. Það verður ekki tekið á. Það á að setja í nefnd hvað varðar lausn á félagslega þættinum, þ.e. óarðbæra hluta kerfisins, og það á að setja í nefnd stofnlínufyrirtækið sem hugmyndin er að setja upp varðandi dreifingu á raforku í landinu.

[19:00]

Það er algjörlega óásættanlegt. En það hangir í sjálfu sér saman við þetta mál allt saman, álver í Reyðarfirði, Kárahnjúkavirkjun, landsnetið í orkumálum og orkuframleiðslan í landinu, þetta er allt undir í umræðunni um þessi stóru plön fyrir austan núna. Eitt leiðir af öðru. En ég ætla að koma betur að því máli þegar ég tek til máls um raforkulagafrv. sem hér verður til umfjöllunar á allra næstu dögum.

Virðulegi forseti. Álver í Reyðarfirði er af stjórnarmeirihlutanum talið gríðarlegt innlegg í styrkingu byggðar fyrir austan. Við höfum fengið skýrslu frá fyrirtækinu Nýsi hf. sem hefur lagt niður fyrir sér hvaða áhrif þessi framkvæmd muni hafa á þetta landsvæði, og samkvæmt niðurstöðum þar er talið að bara u.þ.b. 200 störf í tengslum við þetta verkefni muni verða mönnuð af því fólki sem á heima á svæðinu. Ég hef sjálfur tilfinningu fyrir því að það muni reynast nokkuð rétt. Samkvæmt skýrslunni er talið að um 200--500 manns muni tendla til álversins annars staðar að í landinu, hvort sem flogið verður frá Reykjavík eða keyrt frá Akureyri. Við sem búum úti á landi vitum að það er ekki endilega sú staða uppi að væntanlegir starfsmenn muni ekki vilja búa fyrir austan, heldur er annar og í sjálfu sér miklu einfaldari þáttur sem þar kemur inn í, hið svokallaða makavandamál. Í þessum minni samfélögum er það oftar en ekki svo að maki starfsmannsins, ég tala ekki um ef um tæknimenn er að ræða, fær ekki vinnu á staðnum við sitt hæfi og þess vegna verður niðurstaðan sú hjá viðkomandi fjölskyldu að fjölskyldufaðirinn fer á flakk og semur við vinnuveitanda sinn um að fá að vinna í skorpum og taka myndarlegri frí á milli, fara þá á heimaslóð, hvort sem það er í Reykjavík eða annars staðar á landinu. Jafnvel er við þetta vandamál að stríða svo stutt frá Reykjavík sem Grundartangi er og álverið í Hvalfirði. Sama er varðandi t.d. tæknimenn í málmiðnaði á Akranesi, þar eiga fjölskyldur við þetta vandamál að stríða. Ég held því að það sé alls ekkert borðleggjandi að þetta muni verða innspýting hvað varðar búsetu á svæðinu, ekkert endilega, og sennilegt er að það muni ekki verða, heldur að menn muni taka þann kost að búa annars staðar og vinna á svæðinu. Það eru margar falsvonir í gangi.

Að mati langflestra, og ég deili þeim áhyggjum, er alvarlegast að ruðningsáhrif þessara framkvæmda muni leika atvinnulíf okkar, eins og það er í dag, mjög hart og verða til þess að menn muni leggja upp laupana annars staðar á landinu. Þá er nú til lítils af stað farið ef 500--700 störf hér leiða til tapaðra atvinnutækifæra annars staðar, kannski svo hundruðum skiptir eða kannski miklu meira en þetta verkefni skapar. Og það er mjög margt sem bendir til þess að það geti gerst.

Atvinnustefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs byggir á fjölbreytileika og að gefa mönnum svigrúm og ramma til þess að njóta sín á því sviði sem hugur þeirra stendur til. Það gerist með ýmiss konar opinberum aðgerðum af því tagi sem ég nefndi áðan. Stofnstyrkir af ýmsu tagi til fyrirtækja og grunnfyrirgreiðsla er að okkar skapi, ekki bara fyrir eitthvert stórt álfyrirtæki heldur fyrir alla. Hæstv. ríkisstjórn er tilbúin til að vera með opinberar stuðningsaðgerðir við svona risa en er alveg sama um atvinnulífið í landinu, eins og ég var að benda á áðan og tók þá sérstaklega til skipasmíðaiðnaðinn (Iðnrh.: Hvers slags vitleysa er þetta?) en líka tók ég til möguleika okkar varðandi fiskeldið. Hæstv. iðnrh. grípur fram í og segir ,,Hvers slags vitleysa er þetta?`` og þarf ekki frekari rökstuðnings við af hennar hálfu.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þessi orð nægja að sinni og mun kannski gera þessu fyllri skil í seinni ræðu minni.