Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 20:00:08 (4350)

2003-03-04 20:00:08# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[20:00]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Komið er undir lok þessarar umræðu og ástæða til að segja hér nokkur orð. Í fyrsta lagi vil ég þakka fyrir umræðuna og nefna nokkur atriði sem komið var inn á af hálfu hv. þm. Vinstri grænna. Ég hef nú svarað einhverju í andsvari við hv. þm. Ögmund Jónasson. En það sem er greinilegt að hv. þm. vilja leggja áherslu á og reyna að koma á framfæri sem skilaboðum er að Framsfl. sé ekki að velta fyrir sér fjölbreytileika atvinnulífsins, og þá vil ég vera þeim mjög ósammála um það. Ég get nefnt margt sem unnið hefur verið að í iðn.- og viðskrn. þau ár sem ég hef verið þar, sem er því til sönnunar að við höfum verið að fjalla um atvinnulífið á mjög breiðum grundvelli og lagt okkur fram um það að nýta alla þá möguleika sem atvinnulífið getur boðið upp á og auðlindir okkar geta boðið upp á. Ég get nefnt líftækniiðnaðinn og hugbúnaðariðnaðinn í því sambandi, tónlistariðnaðinn, hönnun, kvikmyndagerð, skipasmíðaiðnaðinn og þannig mætti lengi telja. Ég vil því mótmæla þessu og tel að þetta sé einungis sett fram til að reyna að gera okkur tortryggileg í því sem við erum að gera. En það fer hins vegar ekkert á milli mála að við erum hlynnt því að nýta orkuauðlind okkar og um það snýst þetta mál, að nýta orkuna okkur til framdráttar, þjóðfélaginu öllu. Það höfum við gert og gerðum á seinni hluta síðustu aldar, byrjuðum reyndar of seint miðað við Norðmenn, en eftir að við Íslendingar lærðum þessa tækni jókst hér kaupmáttur og hagsæld öll. Ég vil því setja stórt samasemmerki þar á milli, þ.e. nýting orkuauðlinda og velmegun þjóðarinnar.

Af því að minnst var á það af hálfu hv. þm. Jóns Bjarnasonar að við hefðum t.d. getað beitt okkur fyrir háskóla á Austurlandi frekar en að standa í þessu þá er það svo að unnið er að fræðasetri á Egilsstöðum og ég ásamt hæstv. menntmrh. höfum nýlega lagt fram fjármagn til þess að það geti orðið að veruleika og gert um það samkomulag og verður það allt saman meira á beinu brautinni en verið hefur, þannig að þar er ýmsu sinnt.

Um það að við séum að menga meira en aðrar þjóðir með því að fara í þessar framkvæmdir, eins og kom fram hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, þá er það aðalatriðið í mínum huga að með því að virkja við Kárahnjúka og byggja álver af þessari stærðargráðu í Reyðarfirði erum við einmitt að leggja okkar af mörkum í því sambandi við að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Hæstv. umhvrh. er að svara fyrirspurn frá hv. þm. Pétri Blöndal hvað þetta varðar og því svari verður væntanlega dreift á morgun. Þar kemur það fram að við erum að leggja gífurlega mikið af mörkum í því sambandi að spara og minnka gróðurhúsaáhrifin í heiminum. Og það var þess vegna sem við fengum íslenska ákvæðið samþykkt í Kyoto-bókuninni að við erum að spara umheiminum mengun og það hafa aðrar þjóðir séð þó að hv. þingmenn Vinstri grænna hafi ekki áttað sig á því.

Svo er það úrskurður hæstv. umhvrh. í sambandi við Kárahnjúkavirkjun. Látið er að því liggja að þar sé ekki verið að vinna samkvæmt lýðræði og að ekki sé verið að vinna samkvæmt lögum með því að hæstv. umhvrh. breytti úrskurði Skipulagsstofnunar. Það er nú hins vegar svo að erlendir sérfræðingar á þessu sviði hafa kveðið upp úr um það að úrskurður hæstv. umhvrh. um Kárahnjúkavirkjun sé mjög vel unninn og að náðst hafi stórkostlegur árangur í úrskurði hennar hvað varðar umhverfisvernd.

Þegar hv. þm. tala eins og að ekki hefði verið heimilt samkvæmt lögum að breyta niðurstöðu Skipulagsstofnunar þá eru þeir tvísaga vegna þess að þeim finnst að það hafi verið sjálfsagt að breyta úrskurði Skipulagsstofnunar í sambandi við Norðlingaölduveitu. Þó að þeir hafi ekki borið gæfu til að fagna þeim úrskurði setts umhvrh. strax á fyrsta degi þá hafa þeir áttað sig og eru farnir að tala mjög með þeim úrskurði, þannig að það er ekki algjört samræmi í hlutunum hjá þessum hv. þm.

Rafmagnsverð er hátt hjá Rarik, segir hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, og vera má að það sé rétt. Ég geri mér vonir um að í breyttu umhverfi --- og það getum við rætt betur þegar raforkulagafrv. kemur til umfjöllunar --- skapist svigrúm til að lækka raforkuverð og a.m.k. er ljóst að verðið verður gegnsærra en það er í dag þannig að neytandinn veit þá meira fyrir hvað hann er að borga og hvernig verðið verður til.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fjallaði aftur um skýrslu Stefáns Benediktssonar í sambandi við að nýta öræfin norðan og austan Vatnajökuls sem þjóðgarð í stað þess að fara í umrædda virkjun og heldur því fram að þeirri skýrslu sé haldið leyndri, sem er ekki rétt. Hún hefur m.a. fengið hana senda og hún er opinbert gagn, en hún er hluti af þeirri vinnu sem er í gangi í tengslum við rammaáætlun og er mikilvægt gagn í því sambandi. Einnig hefur verið unnin önnur skýrsla sem tengist þessu máli, þjóðgarður plús virkjun annars vegar og einungis þjóðgarður hins vegar. Þar sýnir sig hvað varðar ferðamenn, væntanlega ásókn ferðamanna á svæðið, að þar er ekki stór munur á og reyndar tel ég að reikna megi með því að einmitt virkjunin skapi mjög mikla ferðamennsku á þetta svæði og áhuga ferðamanna á að berja það augum.

Hv. þm. talaði um að friða Dettifoss og ég vil segja það hér að engin áform eru uppi um að virkja Jökulsá á Fjöllum, en því var hins vegar haldið fram af hálfu náttúruverndarsinna á Íslandi og reynt að koma því á framfæri við erlendar þjóðir að Dettifoss mundi fara undir lón ef farið yrði í Kárahnjúkavirkjun, sem er náttúrlega mjög óheiðarlegt en engu að síður var það gert.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, það er komið fram á kvöld og allir hv. þm. farnir úr salnum nema einn. En ég vil þó segja að lokum, af því að hv. þm. Þuríður Backman talaði um hreindýrin, að fylgst hefur verið með ferðum hreindýra á Vestur-Öræfum í tíu ár með talningu bæði í maí og júní á hverju ári og fyrirhugað er að halda talningu áfram á byggingartíma og auka enn frekar þá starfsemi til að hægt sé að fá samanburð á ferðum hreindýra á byggingartímanum miðað við hvernig hann hefur verið áður, og það tel ég mjög mikilvægt mál. Þá hafa Norður-Hérað og Fljótsdalshreppur, Landsvirkjun, iðnrn. og umhvrn. myndað samstarfsnefnd um framkvæmd eftirlits á byggingartíma virkjunarinnar, m.a. með skilyrði umhvrh. í úrskurði um Kárahnjúkavirkjun í huga.