Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 20:10:33 (4351)

2003-03-04 20:10:33# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[20:10]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins varðandi þessi átök og ágreining um atvinnustefnu, annars vegar atvinnustefnu sem byggir á fjölbreytni og hins vegar atvinnustefnu sem byggir á einhæfni. Hæstv. ráðherra telur að það sé rangt hjá okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að saka Framsfl. um að byggja á einhæfni í atvinnustefnu. Hér er ég einfaldlega að vísa í ræðu formanns Framsfl. á nýafstöðnu þingi þar sem hann talaði um atvinnustefnu með hliðsjón af stóriðju.

Hann segir hér, með leyfi forseta:

,,Ég tel vera kominn grundvöll fyrir þjóðarsátt um þá atvinnustefnu sem er hornsteinn íslenska velferðarkerfisins. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef við styðjum við bakið á þessari atvinnustefnu og njótum uppbyggingar stóriðjunnar á Austurlandi og Grundartanga skapast ekki einvörðungu á þriðja þúsund nýrra starfa, heldur skapast einnig skilyrði til mestu skattalækkana um langt skeið.``

Ég er efins um að þessi loforð gangi upp í lokin, en hann er hér að vísa til atvinnustefnu Framsfl. sem byggir á því að meira en þriðjungur af efnhagsstarfseminni verði stóriðja. Þetta er bara staðreynd og hér er stuðst við yfirlýsingar forsvarsmanna Framsfl.

Varðandi mengunina, að við séum að leggja okkar af mörkum til að draga úr mengun í heiminum, þá er ein ástæðan fyrir því að Alcoa er að loka orkuverum í Bandaríkjunum jafnframt því sem hingað er flutt ekki einvörðungu sú að orkuverðið sé lægra hérna heldur sleppa þeir hér við mengunarskatta.

Varðandi lýðræðið þá vísar hæstv. ráðherra í útlendinga sem hafi tekið undir með hæstv. umhvrh. Staðreyndin er sú að erlend náttúruverndarsamtök hafa mótmælt þeim náttúruspjöllum sem þarna eru í vændum eða eru fyrirhuguð. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað valdi því að hún gangi svo hart gegn því að þjóðin fái að segja álit sitt á þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu.