Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 20:14:34 (4353)

2003-03-04 20:14:34# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[20:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nánast orðlaus yfir þeirri óskammfeilni sem kom fram í svari hæstv. ráðherra. Við höfum áður sett fram tillögu hér um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og hæstv. ráðherra barðist þá um á hæl og hnakka og andmælti málatilbúnaði okkar þá, lagðist gegn tillögu um að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að það er rangt að hæstv. ráðherra sé ekki á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Og vísar síðan í þekkingarstig þjóðarinnar, að hún geti sett sig inn í þetta flókna mál. Ég held að þjóðin hafi staðreyndir þessa máls vel á sínu valdi og sannast sagna er að verða vakning í þjóðfélaginu núna gegn þessum áformum ríkisstjórnarinnar.

En ég vil nota þennan tíma minn til að beina enn einni spurningu til hæstv. ráðherra. Alþjóðabankinn birtir ráðleggingar varðandi mengunarvarnir og meðal þess sem bankinn segir er að einvörðungu skuli hleypa einu kílói af brennisteinsdíoxíði frá álverksmiðjum fyrir hvert tonn sem er framleitt.

Er það rétt að í þessari verksmiðju verði heimilað tólffalt þetta magn, í stað 320 tonna séum við að tala um 3.600? Er þetta rétt, getur þetta bara verið rétt? Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um þetta varðandi mengunarvarnirnar.

Síðan vil ég fá það staðfest frá hæstv. ráðherra hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að japanski bankinn Sumitomo Mitsui hafi aldrei gert neina skýrslu um þetta mál heldur einvörðungu staðfest og farið yfir þá útreikninga og forsendur sem Landsvirkjun reiddi fram. Þetta vil ég fá svar um.

Til hins er því miður ekki tími, að spyrja um þær misvísandi upplýsingar sem fram hafa komið í gögnum Landsvirkjunar, m.a. til japanska bankans.