Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 20:16:56 (4354)

2003-03-04 20:16:56# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[20:16]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kann ekki að nefna tölur í tengslum við mengunarmál þau sem hv. þm. spurði um. Það eina sem ég veit er að þessi verksmiðja mengar minna en verksmiðjan sem fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum og fékk jákvæða niðurstöðu af hálfu Skipulagsstofnunar. Þar af leiðandi kvað Skipulagsstofnun upp þann úrskurð að sú verksmiðja sem nú er áformað að byggja þurfi ekki að fara í gegnum þetta ferli. Það nægir mér. Ég er ekki sérfræðingur í umhverfismálum en þetta nægir mér til að hafa ekki áhyggjur af þessum þætti mála.

Hvað varðar Sumitomo, hvernig samskipti voru við þann banka og hvernig þeir unnu úr upplýsingum sem þeir fengu frá Landsvirkjun, þá er það ekki mál sem ég tel þurfa að standa skil á hér á Alþingi. Landsvirkjun lýtur sérstakri stjórn sem fer með daglegan rekstur þar ásamt forstjóra. Ég treysti því fólki ákaflega vel til að standa rétt að málum. Það er ekki þannig að þessu fyrirtæki sé stjórnað úr iðnrn. Það er allt sem ég hef um það að segja.

Ég vona að hv. þm. virði mér það til vorkunnar að ég kann ekki betur að nefna þær tölur sem hann spurði mig eftir varðandi mengurnarmálin.