Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 13:49:30 (4367)

2003-03-05 13:49:30# 128. lþ. 88.5 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 128. lþ.

[13:49]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Á hátíðarstundum tala menn um lýðræði og mikilvægi þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvægustu mál. Nú kemur í ljós hver alvara er að baki slíkum yfirlýsingum. Við stöndum frammi fyrir ákvörðun um eitt stærsta og afdrifaríkasta deilumál í sögu þjóðarinnar. Þjóðin er skipt í fylkingar en samkvæmt skoðanakönnunum er yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúka.

Hlutföllin hér inni á Alþingi eru hins vegar allt önnur því hér eru Kárahnjúkaflokkarnir í yfirgnæfandi meiri hluta.

En nú stöndum við frammi fyrir öðru, að taka afstöðu til lýðræðisins, til þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Og nú skulu menn taka eftir því hverjir sitja hjá eða eru á móti, og hverjir eru með lýðræðinu, eru fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ég, og ég segi já.