Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 13:52:48 (4368)

2003-03-05 13:52:48# 128. lþ. 88.5 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hinn svokallaði viti borni maður, homo sapiens, hefur á vegferð sinni haft margvísleg áhrif á lífríki og náttúru hnattarins sem fóstrar hann. Útrýming búsvæða, annarra tegunda, rányrkja, mengun og nú jafnvel stórfelldar loftslagsbreytingar sem breyta lífsskilyrðum á jörðinni --- þetta hljómar ekki neitt sérstaklega vel, er það, herra forseti?

Stundum finna menn sér afsökun í hinni hörðu baráttu við að komast af, stundum í fáfræði og oft í blöndu af þessu tvennu. Íslendingar sem þjóð geta í dag hvorki borið við fátækt, eins konar neyðarrétti til að komast af, né fáfræði ef þeir bregðast hlutverki sínu sem gæslumenn landsins sem þeim er trúað fyrir fyrir hönd núlifandi Íslendinga, komandi kynslóða og mannkynsins alls.

Herra forseti. Það er með döprum huga sem ég sé meiri hluta alþingismanna ætla að ábyrgjast þennan gerning. Ég öfunda þá ekki af því sæti á spjöldum sögunnar sem þeir þar með taka.