Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 13:58:34 (4374)

2003-03-05 13:58:34# 128. lþ. 88.5 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þjóð og þing hafa staðið frammi fyrir afarkostum í þessu máli. Atvinnustefna Sjálfstfl. og Framsfl. sem studd hefur verið af Samfylkingu felur í sér gífurlegar fórnir náttúrugersema án þess að tilraun sé gerð til að meta verðgildi þeirra. Allt er falt og fært erlendum auðhring á silfurfati. Ákvörðun um að reisa álver í Reyðarfirði sem fær orku á þriðjaheims verði ber fyrir borð skyldur ríkisstjórnarinnar til að jafna rétt karla og kvenna í atvinnulegu tilliti. Hér er verið að skapa einhæfan karlavinnustað þar sem konum er gert að hirða molana af borðum karla í svokölluðum afleiddum störfum. Þjóðin er klofin í málinu og meiri hluti hennar hefði viljað þjóðaratkvæðagreiðslu um það en þingmenn Sjálfstfl., Framsfl. og Samfylkingar hafa hafnað því.

Því hefur verið haldið fram í þessu máli að stjórnvöld hafi brugðist lýðræðinu og misbeitt því valdi sem þeim hefur verið trúað fyrir. Ég er þeirrar skoðunar að slíkt sé ekki samboðið ríkisstjórn sem fer fyrir elsta þjóðþingi álfunnar. Ég segi nei.