Átraskanir

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:12:24 (4380)

2003-03-05 14:12:24# 128. lþ. 89.2 fundur 575. mál: #A átraskanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Sl. vor var þál. um átraskanir afgreidd frá hv. Alþingi með umsögn heilbr.- og trn. þingsins sem tók undir efnisatriði tillögunnar sem og þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð með henni. Í tillögunni ályktaði Alþingi að fela heilbrrh. að sjá til þess að þverfagleg þjónusta þeirra sem hafa sérþekkingu á átröskunum yrði sameinuð þannig að bjóða mætti upp á sérhæfða meðferð fyrir átröskunarsjúklinga á öllum aldri. Alþingi afgreiddi tillöguna með því að vísa henni til ríkisstjórnarinnar.

Það er vitað að vandamál þau sem falla undir átröskun eru nokkuð falin í þjóðfélagi okkar en þó hefur umræða, m.a. á þinginu en einnig utan þess, orðið til þess að vekja menn til meðvitundar um vandann. Þannig voru í fyrra stofnuð samtök sem kalla sig Spegilinn og eru þau samtök sjúklinga sem líða af átröskunum, og einnig aðstandenda þeirra. Þetta er mjög öflugur hópur og ég vænti þess að hópurinn muni leggja sitt af mörkum til að leysa úr þeim meðferðarvanda sem er fyrir hendi. Þetta er sjúkdómur sem hefst á unglingsaldri og gjarnan koma þessir sjúklingar inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans til meðferðar, en í kringum hvern einstakling með átröskun þarf teymisvinnu margra fagaðila.

Það er mjög dýrt að standa fyrir meðferð af þessu tagi. Meðferðarmánuðurinn í Bandaríkjunum skilst mér að kosti um 2 millj. kr. Meðferðarmánuðurinn í Bretlandi kostar eitthvað sem samsvarar 1 millj. kr. og í Svíþjóð hátt í 1 millj. kr. hver mánuður. Það sýnir okkur í rauninni hve erfitt vandamálið er og að það þarfnast krafta margra fagaðila. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi beitt sér fyrir því í samræmi við þál. sem vísað var til ríkisstjórnarinnar sl. vor að sérhæfðri meðferð fyrir átröskunarsjúklinga verði komið á fót hér á landi.