Átraskanir

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:21:26 (4384)

2003-03-05 14:21:26# 128. lþ. 89.2 fundur 575. mál: #A átraskanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:21]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil íteka að hér er um mjög alvarlegan sjúkdóm að ræða eins og fyrirspyrjandi rakti reyndar skilmerkilega í seinni ræðu sinni. Þetta er umfangsmikið mál og alveg bráðnauðsynlegt að bregðast við að mínu mati. Ég vil vanda til þess hvernig að er unnið því að þarna er ekki um einfalt mál að ræða.

Mér er kunnugt um, hef reyndar séð tölur um það, hvað meðferð átröskunarsjúklinga í Bretlandi kostar á mánuði. Slík meðferð kostar um 800--900 þús. kr. Þarna er því um mjög flókna meðferð að ræða.

Ég hef orðið var við áhugann á þessu máli hjá aðstandendum sjúklinga og þolendum þessa sjúkdóms. Eins og ég sagði hef ég oftar en einu sinni átt ítarlegar viðræður við aðstandendur hinna nýju samtaka sem voru stofnuð í nóvember sl. Ég veit að þau samtök hafa fullan hug á að fylgja þessu málefni eftir en þetta er eitt af hinum brýnu viðfangsefnum í heilbrigðisþjónustunni sem menn eru eilíflega að fást við og kosta bæði mannafla og fjármuni. Því er nauðsynlegt að málið sé vel undirbúið og skipulagt faglega.