Komugjöld á heilsugæslustöðvum

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:30:29 (4388)

2003-03-05 14:30:29# 128. lþ. 89.3 fundur 609. mál: #A komugjöld á heilsugæslustöðvum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Fyrst menn eru farnir að lýsa áhyggjum sínum yfir heilsugæsluþjónustu við þessa umræðu, þá vil ég nefna áhyggjur mínar yfir því hversu margir Reykvíkingar eru án heilsugæsluþjónustu og heimilislæknis. Ég vil bara minna á að þúsundir Reykvíkinga eru ekki með aðgang að heimilislækni og enn vantar heilsugæslustöðvar í stór hverfi í borginni, ég vil minna á það.

En vegna þeirrar umræðu hvort þjónustan eigi að vera ókeypis á heilsugæslunni þá verð ég að segja að ég er sammála hæstv. ráðherra um að það eiga að vera ákveðin gjöld en þau eiga að vera mjög lág. Í Danmörku er ókeypis á heilsugæslustöðvar og einnig í bráðamóttökuna. Ég hefði kannski talið eðlilegra að í bráðamóttöku væri ókeypis en menn greiddu lágmarksgjöld fyrir heilsugæsluna. Ég vildi koma því áleiðis.

En verulega vildi ég leggja áherslu á áhyggjur mínar vegna heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.